Af tossabekkjum og kvaðratrótarkomplexum

Af tossabekkjum og kvaðratrótarkomplexum

Ég féll á samræmdu prófunum! Þarna, ég sagði það! Svo féll ég líka á hverju ári í gegnum menntaskólann. Ekki í öllu samt, bara stærðfræði. Ég er nefnilega hræðilega léleg í stærðfræði, eða hvað? Jú, ég hef alltaf átt erfitt með þetta fag, fundist það leiðinlegt og fundist ég léleg. Í gegnum tíðina hef ég því náð að byggja upp gríðarlega kvaðratrótarkomplexa. Stærðfræðiprófin ullu mér bullandi kvíða á skólaárunum og það var sama hvað ég lærði mikið, fór í aukatíma og hvaðeina; alltaf lokuðust allar gáttir þegar þetta hryllilega blað með númerum og flóknum formerkjum var sett fyrir framan mig. Þegar einkakennarinn, sem ég borgaði fúlgur á menntaskólaárunum, sat mér við hlið, var algebra hægðarleikur, en svo var ég ein með blýant og strokleður og heilinn öskraði: Þú getur þetta aldrei! Auðvitað gat ég þetta eins og allir aðrir en var aftur á móti búin að telja mér trú um hið gagnstæða; ég væri týpísk tungumálamanneskja. Í gaggó var ég sett í hægferð í stærðfræði, við þessi tregu fengum þá að fara aðeins hægar yfir námsefnið en kláru krakkarnir. Auðvitað var þetta vel meint en varð klárlega ekki til þess að auka trú mína á tilvist stærðfræðiheilasellanna í haus mínum. Krakkar ættu aldrei að enda í tossabekk. Það getur haft hörmulegar afleiðingar, eins og lesa má í grein Teits Atlasonar hér í blaðinu, um skuggalega fortíð Hagaskóla. Það geta nefnilega allir lært!