Af tossabekkjum og kvaðratrótarkomplexum

Af tossabekkjum og kvaðratrótarkomplexum

Í kjölfar greinar hér í blaðinu eftir Teit Atlason um fortíð Hagaskóla, fór ég mikið að velta fyrir mér þeim áhrifum sem umhverfið hefur á okkur og hversu stóran þátt það á í að móta okkur. Ef restin af hópnum ákveður að við séum ómöguleg þá förum við ósjálfrátt að trúa því og haga okkur þannig, jafnvel þótt við innst inni vitum betur.
Það verður sjaldan jafn áberandi og á mótum þar sem gamlir bekkjarfélagar koma saman í tilefni af því að x mörg ár eru liðin frá því þeir útskrifuðust úr gagnfræðaskóla. Það er magnað að fylgjast með því hvernig fólk virðist ganga í gegnum tímavél og umbreytast aftur í gamla hlutverkið sem það „lék“ sem óharnaðir unglingur tuttugu árum fyrr.
Gömlu „lúðarnir“ sem oft eru með þeim sigursælli í lífinu á fullorðinsárum fyllast gamla óörygginu og „feiti karlinn“, sem lítur út fyrir að vera tuttugu árum eldri en hann er, leikur á als oddi enda var hann aðalmaðurinn í hópnum hér í den og allar stelpurnar skotnar í honum í þá gömlu góðu daga. Það er nefnilega alls ekki alltaf þannig að það skili okkur vel út í lífið almennt að þurfa lítið að hafa fyrir hlutunum félagslega í barnaskóla.
Það eru þó hörð skil á milli þess hvernig smávægis mótlæti á skólaárunum getur styrkt þig í lífsins leik með því að fylla þig óbilandi þrautseigju þannig að þú standir uppúr sem sigurvegari og þess að umhverfið bregðist svo harkalega við tilveru þinni að það dæmi þig úr leik eins og raunin virðist hafa verið með marga sem voru í gamla tossabekkjarkerfinu í Hagaskóla. Þegar kennarinn skrifar undir, þá er dómurinn upp kveðinn og erfitt fyrir ómótað barn að eiga sér viðreisnar von.

Elín Arnar
Ritstjóri