Auður segir karlmenn í álverinu kúgaða af konum – Rekinn eftir 15 ár fyrir rifrildi um poll |

Auður segir karlmenn í álverinu kúgaða af konum – Rekinn eftir 15 ár fyrir rifrildi um poll

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Auður Ósk nokkur segir að eiginmaður sinn hafi verið rekinn úr álverinu í Straumsvík eftir eitt samtal við samstarfskonu um olíupoll. Hún segir samtalið einungis hafa verið ágreiningur milli samstarfsmanna. Auður segir hann hörku duglegan starfskraft sem hafi starfað þar í 15 ár. Hún fullyrðir að konur í álverinu kúgi karlkyns samstarfsfélaga sína.

Hún fer yfir þetta í færslu á Facebook sem hefur vakið athygli og sitt sýnist hverjum. „ÍSAL hjarta fjölskyldunnar hætti að slá í gær, föstudaginn 20.11´20. Ég er fimmtug, eiginkona, móðir tveggja stúlkna og tveggja drengja, amma tveggja barna, háskólamenntuð, í framhaldsnámi og í fullri stöðu sem grunnskólakennari á unglingastigi. Mér er það hugleikið á þessum tímapunkti hvernig lífinu er háttað, þá sérstaklega þetta ár 2020, í miðjum heimsfaraldri og rétt rúmur mánuður í jólahátíðina. Ég hef sterka réttlætiskennd og er tilbúin að vaða eld og brennistein fyrir fólkið mitt. Það var ömurleg upplifun í gærmorgun þegar lífi okkar var snúið á hvolf því eiginmaður minn til margra ára, faðir barnanna minna, afi og vel metinn pípulagningameistari, sem hefur unnið sl. 15 ár á aðalverkstæði ÍSAL, var rekinn fyrirvararlaust vegna samtals við kvenkyns samstarfsfélaga sinn,“ skrifar Auður.

Hún veltir því fyrir sér hvort sumar konur hafi sett í sig í spor karla. „Ég velti fyrir mér starfsmannamálum hjá fyrirtækinu, hver er stefna þeirra sem það leiða, er þetta jafnréttisstefna fyrirtækisins? Vilja konur í ÍSAL virkilega vera í þessum sporum? Að klaga karlmenn fyrir einelti því þær höndla ekki að þeir geri athugasemdir varðandi vinnuframlag þeirra. Ef þú sem kona hefur valið að vinna á karllægum vinnustað, þarftu þá ekki að ígrunda vel hvernig samskipti þú velur að hafa við mennina. Ágreiningsefnið varðaði olíupoll á miðju verkstæðisgólfi, sem skapaði slysahættu og skv. öryggisstöðlum fyrirtækisins á ekki að viðgangast. Konan sem er „verkstæðisformaður“ hafði ítrekað leitt pollinn hjá sér en í sjálfu sér er það mögulega í hennar starfslýsingu að hafa verkstæðið á þann veg að þar sé hægt að ganga um af öryggi og fagmennsku. Atvikið klagar hún í verkstjóra og áfram í eineltisteymi, lýsir Auður.

Hún bendir á að samkvæmt reglugerð þá telst ágreningur til eineltis. „En skilgreining á einelti skv. reglugerð Stjórnarráðsins hljóðar svo: einelti er ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna nema hann sé viðvarandi eða endurtekinn.“

Hún segir eiginmann sinn aldrei hafa fengið áminningu. Hann hafi hins vegar fengið hvatningaverðlaun. „Minn maður hefur aldrei fengið áminningu um slíkt eða annað er varðar hans störf hjá ISAL. Hann hefur þvert á móti fengið hvatningaverðlaun, verið hampað fyrir vel unnin störf, hefur haft metnað fyrir starfi sínu og hefur sinnt því af alúð og mikilli samviskusemi í öll þessi ár. Hann hefur ávallt mætt á réttum tíma, hefur varla tekið út frídaga sína, biður aldrei um skipti á kallvöktum eða að verkstjóri hafi þurft mikið fyrir honum að hafa. En það er einskis metið! Hann er sendur heim sl. miðvikudag í „kælingu“, hann fær ekki að segja sína skoðun eða upplifun,“ segir Auður.

Því næst var hringt í hann. „Það er haft samband við hann símleiðis seinni partinn þar sem honum er tilkynnt að hann þurfi ekki að mæta til vinnu næsta dag en enginn tilkynning um það hvar „málið“ stæði. Seinni part fimmtudags hringir verkstjórinn boðar hann á fund í gær, föstudagsmorgun, hann segir að á fundinum verði fulltrúi frá eineltisteyminu en segir ekkert til um hvað standi til annað en að hann fái að segja frá sinni hlið málsins. Því eins og máltækið segir: „Þá er aldrei einn þar sem tveir deila“. Verkstjóri tekur á móti honum ásamt starfsmannastjóra (sem er kvenkyns) en minn maður átti aldrei möguleika, athugasemdir og sú niðurlæging sem hann upplifði á þessum 15 mínútna fundi af hálfu starfsmannastjórans var gjörsamlega óréttmæt, ómannúðleg og kaldrifjuð. Uppsagnarbréfið lá á borðinu til undirskriftar.“

Auður segir að lokum að þetta sé ekkert nema kúgun. „Missir aðalverkstæðis álversins í Straumsvík er mikill, því ég held að flestir sem þekkja til Reynis vita að hann er þéttur og góður verkmaður. Með sorg í hjarta yfir því hvernig komið er fram við karlkyns starfsmenn í ÍSAL, þeir eru kúgaðir af konum, þora ekkert að segja af hættu við að verða klagaðir og reknir án fyrirvara. Þetta er jafnréttisstefna ISAL.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira