Björg segir krabbameinið ekki hafa verið alslæmt: „Styrkti mig bæði líkamlega og andlega“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Björg Thorarensen, nýskipaður hæstaréttardómari, segist hafa lært margt af því að fá krabbamein. Hún segir í viðtali við Mannlíf að raunar hafi áfallið styrkt hana bæði líkamlega og andlega.

Björg hefur unnið krefjandi störf í áratugi og verið hraust. Hún greindist svo með ristilkrabbamein fyrir fimm árum. „Það var auðvitað áfall sem aldrei hvarflaði að mér að lenda í. Ég fékk bestu mögulegu þjónustu í heilbrigðiskerfinu til þess að lækna þetta og fór í gegnum nokkrar meðferðir og aðgerðir. Þetta var strembið meðan á því stóð og ekki einfalt að leysa en útlit fyrir bata var þó alltaf frekar gott sem gekk svo eftir.“

Björg segir að eftir á að hyggja hafi þessi lífsreynsla mótað hana nokkuð auk þess að dýpka skilning á aðstæðum svo fjölmargra sem eru í þessari aðstöðu. „Ég hef hugsað um hvað ég hef lært eða grætt á því að hafa lent í þessum óheyrilegu leiðindum en þetta var vissulega forvitnileg reynsla. Og svo hef ég lært heilmikið um krabbamein sem ég ekki vissi. Þetta voru aldrei það alvarleg veikindi að ég yrði lengi óvinnufær og reyndar hjálpaði vinnan mér sannarlega til að dreifa huganum því manni hættir til að verða alveg heltekin af hugsunum um þá lífsógn sem krabbamein er.“

Fimm ár eru liðin og Björg segir að ekkert bendi til annars en að hún sé læknuð að fullu. „Ég lít á þetta sem áfall sem hafði þó góðan endi og það hefur orðið frekar til þess að styrkja mig bæði líkamlega og andlega. Ég lærði líka að taka því ekki sem gefnu að vera við góða heilsu og rækta heilsuna betur en áður.“

Viðtalið við Björg má lesa í heild sinni hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira