Dóttir týnda leigubílstjórans úr Breiðholti: „Pabbi var einfari“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Við vorum náin en ég var sú eina sem hann hélt sambandi við. Hann vildi ekki vera í sambandi við neina aðra,“ segir Álfheiður Arnardóttir, dóttir Arnar Ingólfssonar sem fannst látinn í Breiðholti, um föður sinn.

Örn var mikill einfari að hennar sögn en hann starfaði lengi sem leigubílstjóri í Reykjavík. Hann skilur eftir sig eina dóttur og níu barnabörn en önnur dóttir hans lést arið 2000. Hvergi leið Erni þó betur heldur en úti í sveit segir Álfheiður sem bjó lengi með föður sínum í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Hún kallaði hann gjarnan Adda.

„Okkur líkaði mjög vel sveitalífið saman. Pabbi var mjög orðheppinn og gat verið skemmtilegur maður. Hann var mjög góður við mig og hélt mikið upp á mig. Hann var mjög stoltur af mér sem faðir, það er ekkert launungarmál.“

Lík Arnar heitins fannst í rjóðri fyrir neðan Erluhóla og hafði þá verið þar í nokkurn tíma. Ekki er fyllilega ljóst hvenær hann lést en ljóst er að það eru nokkrir mánuðir síðan. Enginn hafði tilkynnt um hvarf hans og virtist enginn vita að hann væri týndur. Það tók lögregluna því langar tíma að bera kennsl á Örn sem var 83 ára þegar hann lést.

„Það var svo erfitt að bera kennsl á líkið því pabbi var með falskar tennur og það voru engir fingurgómar eftir þar sem hann hafði legið svo lengi þannig að það var svo lítið eftir,“ segir Álfheiður.

Álfheiður situr nú uppi föðurlaus en það er ekki eini missirinn sem hún hefur upplifað á lífsleiðinni. Árið 2000 lést systir hennar, Sigrún Gabríella Arnardóttir, og fyrir tveimur árum missti hún manninn sinn ungan úr Alzheimer.

„Þannig að maður er öllu vanur. Því miður er lífið svona og ég er ekki að gera neina dramatík úr þessu. Í sjálfu sér var þetta ekki mikið áfall, þetta er nú lífsins gangur og pabbi var orðinn mjög fullorðinn og slappur. Ég var svo sem ekki hissa þegar bankað var upp hér og mér tilkynnt andlátið,“ segir Álfheiður.

Álfheiður Arnardóttir hefur nú misst föður sinn. Áður hefur hún misst bæði systur sína og eiginmann.

Nágrannar Arnar hafa lýst honum sem indælum manni og fyrirmyndar nágranna. Aðspurð segist Álfheiður hafa fundið á sér að eitthvað bjátaði á og segist hafa verið komin á fremsta hlunn með að lýsa eftir föður sínum. „Ég hafði ekki heyrt lengi í honum og var búin að vera að hugsa það að ég þyrfti að fara heyra í honum. Ég fékk einhverja tilfinningu um þetta því ég átti alveg von á þessu eftir okkar síðasta samtal því þá var þungt yfir honum og hann kvartaði yfir því hversu slappur hann var. En ég átti kannski ekki von á því að hann fyndist úti í móa,“ segir Álfheiður. Síðast ræddu þau feðginin saman í síma fyrir hálfu ári, 15. mars en þau voru vön að heyrast í síma á tveggja til fjögurra vikna fresti.

„Hann hefur líklega dáið fljótlega eftir það. Mér fannst hann mjög slappur í þessu símtali og hann kvartaði mjög, eitthvað sem hann var ekki vanur að gera.“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira