Einar jarðsunginn í dag: „Óendanleg sorg og söknuður ríkir nú í mínu hjarta“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Einar Jónsson bílasmiður verður borinn til grafar í dag. Hann lést í hræðilegum húsbílabruna ásamt hundunum sínum þremur.

Jón Einarsson, grasalæknir og vélstjóri, minnist elsta sonar síns í minningagrein í Morgunblaðinu í dag. „Elsku Einar minn. Þú varst frumburðurinn minn, glókollur sem fylgdir mér frá fyrsta degi. Við feðgar horfðumst í augu með gagnkvæmri aðdáun þegar ég lék við þig frá unga aldri. Þú áttir góða barnæsku, umvafinn ást okkar allra enda varst þú sérstaklega glaðvært og brosmilt barn. Margt brölluðum við feðgarnir saman, fórum í hjólatúra og veiðiferðir að ógleymdum öllum jeppaferðunum upp um fjöll og firnindi, jafnt að sumri sem vetri. Þú varst alltaf reiðubúinn að deila öllu sem þú áttir hvort sem það var sælgæti eða leikföng á milli vina,“ segir Jón og bætir við:

„Þrátt fyrir að ungir menn fari stundum sínar eigin leiðir í lífinu þá var alltaf sterkur þráður á milli okkar og vináttan varði alla tíð. Alltaf varstu reiðubúinn að leggja lið þegar verka þinna var óskað, hvort sem það var frá fjölskyldu eða vinum.“

„Þrátt fyrir tröppugang í lífinu varstu alltaf sannur sjálfum þér, fjölskyldu og vinum.“

Einar fæddist 21. ágúst 1982. Hann var ókvæntur og barnlaus. Einar hafði undanfarið búið í vönduðum húsbíl sínum nærri Torfastöðum í Grafningi. Aðfararnótt laugardagsins 10. október varð hræðilegt slys þar sem hann brann inn í húsbílnum ásamt hundunum sínum þremur. Fjölmargir vinir Einars og fjölskylda sátu eftir í sárum.

„Einar átti góða fjölskyldu og marga nána vini sem hafa orðið fyrir miklu áfalli vegna þessa hræðilega slyss. Ég minnist hans með miklum söknuði. Einar var góður maður og það er svo hörmulegt að þetta hafi gerst,“ sagði Jón í samtali við Mannlíf þar sem hann lýsti hinni hræðilegu upplifun sem það er að missa son.

Anna Grétarsdóttir, vinkona Einars, skrifar einnig hjartnæma minningargrein um besta vin sinn til tuttugu ára. „Mikið óskaplega er þessi staðreynd sár og ég á eftir að sakna hans svo ótrúlega mikið. Þeir sem voru svo lánsamir að fá að kynnast honum vel fengu að sjá og njóta þeirra mörgu gáfna sem hann var gæddur. Hann var athugull, skarpur, útsjónarsamur og yfirvegaður. Einar kom alltaf til dyranna eins og hann var klæddur, hafði mikla réttlætiskennd og sagði hlutina eins og þeir voru. Hann var sannur, einlægur og góður en einnig mjög þrjóskur sem átti sinn þátt í að koma honum í gegnum lífið og standa alltaf uppréttur,“ segir Anna og bætir við:

„Einar var minn trúnaðarvinur, og hann þekkti mig oft betur en ég sjálf. Á erfiðum tímum í lífinu, þegar ég dæmdi sjálfa mig hvað harðast, dæmdi Einar mig aldrei. Mitt síðasta símtal við Einar stuttu fyrir andlát hans verður mér ávallt mjög kært. Það lá vel á honum og hann var að segja mér nýjustu fréttirnar af áformum sínum um lóðakaup. Við töluðum oft saman í síma en hljóðið í honum var alveg einstaklega gott þennan dag. Þetta vakti svo mikla hamingju innra með mér að ég sem oftar en ekki hef verið talin tilfinninga köld fremur en hitt kvaddi hann með þeim orðum að ég elskaði hann og hlakkaði til að heyra í honum fljótlega aftur. Ég veit ekki hvoru okkar brá meira, honum eða mér en mikið ofboðslega er ég þakklát fyrir þessi orð í dag. Elsku Einar þín verður sárt saknað.“

Einar var í góðu sambandi við vini sína og fjölskyldu og segir Jón þá feðga hafa verið mjög nána. „Þrátt fyrir tröppugang í lífinu varstu alltaf sannur sjálfum þér, fjölskyldu og vinum. Á síðustu mánuðum lífs þíns fórum við feðgarnir að skoða sumarbústaðalönd þar sem þú hafðir áhuga á að byggja þér heilsárshús fyrir þig og hundana þína. Þú, Trítla, Moli og Snúlli voruð óaðskiljanlegir vinir og þú settir þarfir þeirra framar öllu öðru. Þau skyldu fá að hlaupa um í frelsi sveitarinnar. Óendanleg sorg og söknuður ríkir nú í mínu hjarta en þú munt ávallt eiga þar stóran sess. Þinn faðir og vinur að eilífu,“ segir Jón.

Útför einars fer fram í dag kl. 15 og verður streymt frá henni. Hér á finna hlekk á útförina:

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Páll Pétursson er látinn

Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins er látinn. Hann lést á Landspítalanum í gær. Hann var 83 ára....