Elín biður þjóðina að hætta að grilla: „Kannski senda viðkomandi í fangelsi eða hýða opinberlega?“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Elín Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur biður fjölmiðla að pakka niður grillunum sínum og hætta að grilla heilbrigðisstarfsfólk eins og verið hefur. Hún segir það einfaldlega ógerlegt í ummönnun sjúklinga að brjóta ekki tveggja metra regluna.

Elín gerir umfjöllun fjölmiðla um hópsmita á Landakoti að umfjöllunarefni sínu í færslu á Facebook. „Október er greinilega kjörtími fyrir grillveislur í fjölmiðlum. Steikin í dag var forstjóri Landspítala og starfsfólk Landakots. Það var ekki nóg að steikja forstjóra á upplýsingafundinum í dag heldur var kolagrillaði í Kastljósi. Reynt að finna sökudólga og pressa viðmælanda til að benda á einhvern einn. Og til hvers? Til að grýta hann eða senda í útlegð?,“ segir Elín.

„Þú þarft oft á dag að brjóta tveggja metra regluna. Þú þarft að faðma, bera, styðja við, leiða, snerta oft á dag.“

Elín segir íslensku þjóðina vera að glíma við veiru sem er svo pínulítil að hún sjáist ekkki með mannlegu auga. Hún sé hreinlega komin út um allt og hún sé bráðsmitandi. „Eðli starfsemi sjúkrahúsa, sjúkraflutninga, löggæslu, skóla, leikskóla og öldrunarstofnana er þannig að það er ekki hægt að lok, lok og læsa. Það er ekki hægt að sinna fólki í tveggja metra fjarlægð. Það er ekki hægt að tala við fólk sem er heyrnarskert með grímu fyrir andlitinu og úr dyragættinni. Þú þarft oft á dag að brjóta tveggja metra regluna. Þú þarft að faðma, bera, styðja við, leiða, snerta oft á dag. Nálægð eykur smithættu, við vitum það öll sem vinnum þessi störf en við höfum ákveðið að taka þá áhættu. Og áhættan virkar á báða bóga. Skjólstæðingurinn þarf að bera traust til okkar og með grillveislum eins og þessum er traustið brotið niður,“ segir Elín og bætir við:

„Við mætum dag eftir dag, klæðumst grímum og hlífðarbúningum og pössum okkur eins og við getum en það þarf ekki nema eina ósýnilega agnarsmáa kórónuveiru agnarögn til að hið óhugsandi gerist, að við berum veiruna í skjólstæðing. Veiran fer svo á flug en því miður liggur flugleiðin yfir öldrunarstofnun með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég vona að Landspítali og starfsfólk Landakots fái vinnufrið til að kljást við þetta risastóra verkefni sem nú liggur fyrir höndum. Ég vona að fjölmiðlar fari að pakka niður grillinu. Ég veit að starfsfólk Landakots eru ekki veirusóðar og vondar manneskjur. Ég veit að skjólstæðingar Landakots eru í góðum og öruggum höndum.“

 

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira