Halldór jarðsunginn í dag: „Elsku Dóri minn, þú varst draumaprinsinn á hvíta hestinum“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Halldór Erlendsson, sem lést í alvarlegu umferðarslysi við Heydalsveg 4. október síðastliðinn, verður borinn til grafar í dag. Bíll hans hafnaði utan vegar og báru lífgunartilraunir ekki árangur. Útförin fer fram í Garðakirkju á Álftanesi.

Halldór fæddist í Stykkishólmi 23. apríl 1963. Hann ólst upp við hefðbundin sveitastörf, útskrifaðist bæði sem búfræðingur og rafeindavirki. Þá lék hann á gítar í ýmsum hljómsveitum. Fjölskylda hans fer um hann fögrum orðum í minningargreinum í Morgunblaðinu í dag.

Móðir Halldórs, Þorgerður Sveinbjörnsdóttir, segir höggið gífurlega þungt. Þau mæðginin ætluðu að hittast daginn sem slysið sorglega varð. „Elsku góði drengurinn minn, svo glaður, hjálpsamur og ótrúlega hæfileikaríkur á svo margan hátt. Það var alveg ótrúlegt, sama hvað það var, þú gast allt. Og svo gleðin, tónlistin og vísurnar þínar sem þú söngst ásamt systkinum þínum og fleirum. Elsku hjartans drengurinn minn, það er svo erfitt að trúa því að þú komir ekki og faðmir hana mömmu þína aftur. Þú varst hjá mér á föstudaginn, snerir þér við í stiganum og sagðist koma til mín á sunnudaginn. Í staðinn fékk ég höggið. Ég varðveiti allar góðu minningarnar um þig á meðan ég lifi. Elsku góðu Lindu minni og börnunum þínum, þeim Sigurrós og Ella, og öllum sem þótti vænt um þig, sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Ég kveð þig með ást og söknuði. Þín mamma,“ ritar Þorgerður.

„Brotthvarf þitt, minn kæri, elskaði bróðir, er í senn ósanngjarnt og óskiljanlegt.“

Egill Erlendsson, yngri bróðir Halldórs, segir þá bræður hafa verið skoðanabræður og þeir hafi meðal annars lagt á ráðin um það hvernig þeim tækist að vinna báðir fram yfir lögskipaðan eftirlaunaaldurinn. „Það fór nú ekki alveg svo, minn kæri bróðir og erfið tilhugsun að standa í þessu án þín. Þykir heldur ekkert sérstaklega sennilegt að ég finni einhvern í þinn stað, sem deilir þessari framtíðarsýn með mér. Fréttin um andlát Halldórs bróður míns er, og verður vonandi um alla tíð, versta áfall sem ég hef orðið fyrir. Brotthvarf þitt, minn kæri, elskaði bróðir, er í senn ósanngjarnt og óskiljanlegt. Reynsla segir mér þó, að biturðin út í ranglætið muni víkja fyrir þakklæti fyrir að hafa átt þig fyrir eldri bróður, vin og stoð. Ég vil að lokum þakka þér, bróðir minn kær, fyrir allt og alls konar. Fyrir rokkpiss, ráð og rausn, gleði, gáska og gamanmál, allar notalegu bræðrastundirnar og fyrir vinskapinn, hjálpina og ástina sem þú sýndir mér, Rögnu og börnunum. Við munum geyma þig í hjörtum okkar alla tíð,“ segir Egill.

„Halldór minn! Viltu vera góður?“ vælir litla systir, tæpu ári yngri, því Halldór getur verið fyrirferðarmikill og skapstór og sú litla vill að hann bæti úr því, alltaf svo friðsöm,“ rifjar Rósa Erlendsdóttir, litla systir Halldórs, upp. Hún segir þau systkin hafa brallað svo ótrúlega marga skemmtilega hluti saman í gegnum æskuna og kemur jafnframt inn á þegar þau misstu elsku systur sína, Gíslínu, fyrir þrettán árum. „Það er sárt og óskiljanlegt að vera svipt þessum elskaða bróður og ekki hægt annað en að minnast í leiðinni á hana Gillí, ástfólgna systur, sem kvaddi lífið fyrir þrettán árum. Þetta venst ekki, en ég þakka fyrir að hafa átt ykkur að, minningarnar tekur enginn. Halldór óx upp úr því að vera fyrirferðarmikill og skapstór. Hann varð ótal margra hjálp og gleði og litla systir hefur fyrir lifandis löngu breytt væli sínu í þessi, reyndar ósögðu, orð: „Halldór minn! Það sem þú getur endalaust verið góður!“,“ segir Rósa.

„En nú ertu farinn, ég og börnin þín, Sigurrós og Elli, verðum að læra að lifa með því.“

Halldór lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn. Linda Björk Jóhannsdóttir, eiginkona Halldórs, minnist draumaprinsins síns með fallegum orðum. „Ég velti því fyrir mér hvernig ég get lifað án þín, sálufélaga míns. Tíminn leiðir það í ljós en í augnablikinu virðist það vera erfiðasta raun sem á mig hefur verið lögð. Við vorum bæði orkuboltar, náttúrubörn og gleðipinnar og nutum nærveru hvort annars í botn. Við byggðum saman hús og lékum okkur að hugmyndum, óhrædd við að gera ekki eins og hinir. Elsku Dóri minn, þú varst draumaprinsinn á hvíta hestinum, smíðaðir, eldaðir, þreifst, spilaðir á gítar, gast hreinlega allt. Þú varst íþróttamaður af guðs náð, stundaðir sjósund, hjólreiðar, kajak og fjallgöngur. Varst vinmargt ofurmenni, gáfaður, hjartahlýr og hjálpfús. En nú ertu farinn, ég og börnin þín, Sigurrós og Elli, verðum að læra að lifa með því. Það hjálpar til að eiga frábærar minningar um þig og vita að það sem við áttum var einstakt. Takk fyrir að hafa ekki gefist upp í upphafi, ég er þér að eilífu þakklát fyrir lífið sem við áttum saman. Góða nótt, elskan mín, og njóttu framandi slóða uns við sjáumst á ný,“ segir Linda Björk.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Conchata Ferrell látin

Bandaríska leikkonan Conchata Ferrell, lést á mánudag, 77 ára að aldri. Banamein hennar var hjartaáfall.Ferrell er þekktust...