Heiðar segir nóg komið – Hlutverk fjölmiðla að spyrja hvort tólf manns hafi þurft að deyja

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttmaður og varafréttastjóri á RÚV, kemur kollega sínum, Einari Þorsteinssyni, til varnar á Facebook og segir hann hafa gert allt rétt í gær. Hneykslunarbylgja fór um samfélagsmiðla í gær eftir viðtal Einars við Má Kristjánsson, formann farsóttanefndar Landspítalans.

Heiðar segir krafa sumra um allt samfélagið gangi í takt engum til góðs. „Í annað sinn á skömmum tíma rís hneykslunaralda á samfélagsmiðlum vegna þess að öflugur fréttamaður í Kastljósi spyr eðlilegra spurninga um eitthvað sem forstjóri Landspítalans lýsir sem alvarlegasta atviks þar í hans starfstíð. 12 sjúklingar á Landakoti eru látnir eftir hópsýkinguna þar þrátt fyrir sýkingarvarnir og hetjulega baráttu heilbrigðisstarfsfólks sem leggur nótt við dag í baráttunni við veiruna,“ segir Heiðar.

Hann segir alla hafa verið kurteisa í gær. „Úttektin sem var kynnt fyrir helgi var ágæt en niðurstaða hennar er að húsnæði Landakots og undirmönnun skýri hvers vegna fór sem fór. Eðlilega hafa vaknað ýmsar spurningar eftir að sú niðurstaða var kynnt og þær spurningar voru bornar upp með kurteisum og hófstilltum hætti í Kastljósinu í gær. Og Már læknir svaraði þeim með sama hætti,“ segir Heiðar Örn.

Þarna hafi allt verið eins og það á að vera. „Þessi eðlilegu orðaskipti – viðtal fréttamanns við sérfræðing og formann farsóttarnefndar LSH – voru meira en margir þoldu og nú er ráðist að æru og starfsheiðri kollega míns, Einars Þorsteinssonar, eins og gefið hafi verið út veiðileyfi. Fyrir það eitt að hann vann vinnuna sína og bar upp eðlilegar spurningar. Hún er merkileg, krafan um að samfélagið eigi allt að ganga í takt meðan við glímum við veiruna. Að það megi ekki rýna í það hvort ákvarðanir séu réttar eða rangar, hvort meiri hagsmunum sé fórnað fyrir minni, hvort hægt hefði verið að komast hjá hópsýkingu sem dró tólf manns til dauða. En það er einmitt hlutverk fjölmiðla í lýðræðisríki eins og okkar. Að spyrja ráðamenn krefjandi og gagnrýninna spurninga – veita aðhald, fyrir hönd almennings,“ segir Heiðar.

Hann segir þetta kunnuglegt stef. „Hneykslunaröldunni á samfélagsmiðlum fylgja svo alls kyns upphrópanir og fullyrðingar um innrætingu eða skoðanir fréttamannsins, eins og það séu hans skoðanir sem stýri för. Kunnuglegt stef þegar sett er fram gagnrýni á blaða- og fréttamenn sem vinna vinnuna sína. Auðvitað er fólki frjálst að segja skoðanir sínar á viðtalinu en órökstuddar upphrópanir – til þess eins að efna til óvinafagnaðar í athugasemdakerfunum – eru engum til góðs. Í framhaldi af fyrri hneykslunaröldunni svaraði ég nokkrum ásökunum í garð Einars, bað um dæmi úr viðtalinu um dónaskap hans í garð heilbrigðisstarfsfólks og annarra. Engin komu – bara órökstuddar fullyrðingar um að viðtalið hafi ekki verið tímabært og að tónninn í spurningunum hafi verið rangur. Af því að við eigum jú öll að ganga í takt.“

 

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira