Hérna færðu heimilismat í hádeginu án þess að fara á hausinn

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ekki eru allir svo heppnir að ganga að mötuneyti á sínum vinnustað. Þess vegna hafa nokkrir veitingastaðir séð um að þjónusta þann hóp fólks sem leitar sér að staðgóðum heimilismat í hádeginu. Svo virðist sem valmöguleikum sé sé sífellt að fjölga og þess vegna tímabært að fara aðeins yfir stöðuna á höfuðborgarsvæðinu.

Það skal tekið fram að aragrúi veitingastaða býður upp á ýmiskonar hádegismat allt frá pizzum, hamborgurum, salötum, vel útilátnum skálum og fjölbreyttum þægindamat, en hér er eingöngu átt við hinn svokallaða heimilismat.

  • Byrjum á Múlakaffi, Hallarmúla 1. Þar stendur valið á milli nokkurra heimilisrétta sem samanstanda af annaðhvort kjöti eða fiski, auk þess sem súpa dagsins er í boði. Engir grænmetisréttir eru á seðlinum. Verðin á réttunum eru frá 2.090.- upp í 2.990.- krónur
  • Matstöðin er á Höfðabakka og býður upp á hefðbundna heimilisrétti á hlaðborði eins og grísalundir með villisveppasósu og steiktan fisk í raspi. Þar eru einnig vegan réttir í boði eins og indverskt karrý með hrísgrjónum. Á matstöðinni er eitt verð, 2.190.- kr.
  • Salatbarinn hefur verið í Skeifunni um alllangt skeið. Þeirra frægasti réttur er án efa lambalæri bernes sem er á boðstólum á fimmtudögum og föstudögum. Aðra daga má velja um fjölbreytta fisk- og kjötrétti sem og vel útilátinn salat- og ávaxtabar. Fullorðnir borga 2.390.- fyrir veisluna og börn allt niðrí 600 krónur.
  • 108 matur er líka í Skeifunni og bíður upp á nokkra vel valda heimilisrétti sem samanstanda af kjöti og fiski ásamt góðu úrvali af meðlæti. Auk þess er salat í boði. Verðin eru frá 1.990.- til 2.390.- en börnin borga 1.090.-
  • Á Aski er boðið upp á hlaðborð í hádeginu sem samanstendur af köldum forréttum og heitum kjöt- og fiskréttum. Einnig er súpa og salatbar í boði. Verðin eru frá 1.990.- til 2.790.-
  • Kænan í Hafnarfirði hefur lengi dregið að sér tóma maga í hádeginu. Þar eru á boðstólum hversdaglegir réttir eins og steikt ýsa í raspi upp í hátíðarmat eins og purusteik með rauðvínssósu. Ávallt er grænmetissúpa í boði. Verðin eru frá 2.090.- upp í 2450.-, allt eftir hátíðleika.
  • Að lokum er vert að minnast á IKEA sem þrátt fyrir að vera húsgagnaverslun hefur laðað að sér vinnandi fólk í hádegismat. Fáir veitingastaðir geta keppt við verðin sem IKEA býður upp á en vegna þess að um þessar mundir er lokað á veitingastaðnum verður ekki farið nánar í saumana á matseðlinum þar.

Að sjálfsögðu er listinn ekki tæmandi og neytendasíðan mun að sjálfsögðu halda áfram að fjalla um heitan heimilismat í hádeginu. Við tökum því fagnandi við ábendingum frá lesendum um staðgóðan heimilismat hvar sem er á landinu!

Höfundur: Svavar Pétur Eysteinsson 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Meiri skilaréttur ef keypt er á Netinu

Átt þú gjafabréf? Inneignarnótu? Ekki draga það að leysa góssið út!Samkvæmt upplýsingum á island.is er gildistími gjafabréfs og...