Hvar eru tilboðin fyrir einstaklinga?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Fjöldi tilboða hellist yfir neytendur reglulega bæði í mat, drykk, ýmsum varningi og núna frá ferðaþjónustuaðilum, sem vilja höfða til íslendinga þar sem ferðamennina vantar til landsins sökum heimsfaraldurs.

Í pistli á Lifðu núna segist Katrín Björgvinsdóttir ánægð með öll tilboðin en spyr um leið hvar tilboðin eru fyrir einstaklinga. Segist hún velta fyrir sér af hverju athygli sé ekki beint að einstaklingum, allt miðist við tvö, pör eða fjölskyldur.

„Það er fullt af fólki sem er eitt á báti og gæti hugsað sér að brjóta upp tilveruna og gera sér glaðan dag með því að stökkva á eitt slíkt – vinir, vinkonur gætu slegið til án þess að vilja deila herbergi, eða bara fara einn/ein með sjálfum sér,“ segir Katrín og nefnir að ferðaskrifstofur bjóði iðulega upp á gylliboð þar sem verð miðast við að fleiri ferðist saman:

„Sumum finnst erfitt að fara einir hvort sem er í leikhús, út að borða eða ferðast.  Ég gæti trúað að ef höfðað yrði til þeirra með þá þjónustu sem er í boði gæti það orðið til þess að fólk fyndi sig betur í því að drífa sig af stað – það yrði jafn „eðlilegt“ og að 2 eða fleiri færu saman út.“

Segir Katrín þetta hreinlega spurningu um jafnrétti og tími til kominn að höfða til þessa hóps. „Ég skora á hótel- og gistihúsaeigendur sem og fleiri að taka sig nú taki og setja saman flotta pakka fyrir alla – hvort sem um ræðir 1, 2 eða fleiri.  Ég spái því að þeim verði tekið fagnandi.“

Sé vefur Hagstofu Íslands skoðaður til að finna út hversu margir eru einhleypir á Íslandi má sjá að þeir eru 86.013 talsins, sé miðað við einstaklinga 16 ár og eldri. Samkvæmt því ætti að vera tilvalið fyrir ferðaþjónustuaðila að bjóða upp á góð tilboð sem miðuð eru að einstaklingum, í stað þess að miða ávallt við kjarnafjölskylduna: par með tvö börn, eða tvo einstaklinga í sambandi.

Mynd / Skjáskot hagstofa.is

Ert þú með ábendingu um neytendamál? Sendu póst á [email protected]

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira