Sanna um fátækt barna: „Netgíró skilur að þú þarft að borða. Smálán geta komið þér til tannlæknis“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi sósíalista í Reykjavík skrifar um börn sem búa við skort og fátækt í nýjustu færslu sinni á Facebook, en um er að ræða innlegg í umræðuna um stöðu barna í Reykjavík, sem rædd var á borgarstjórnarfundi.

„Fór alveg dálítið djúpt í reynslubankann fyrir þetta,“ segir Sanna, sem áður hefur talað um æsku sína og uppeldi, en Sanna er alin upp af einstæðri móður og oft voru ekki til miklir peningar á heimilinu.

„Það er staðreynd að börn búa hér við skort og fátækt og að slíkt hefur áhrif á líðan þeirra og það er ýmislegt sem Reykjavíkurborg getur gert til að koma í veg fyrir það. Við vitum að þegar það er krísuástand í samfélaginu undirstrikar slíkt ójöfnuðinn í samfélaginu ennfrekar. Nú get ég ekki talað fyrir hönd allra reykvískra barna sem þekkja fátækt en litla reykvíska barnið í mér, segir hér frá sinni upplifun,“ segir Sanna.

„Að alast upp við fátækt kennir þér að setja þig í annað sæti eða meira svona tvöhundraðasta sætið, því skilaboðin frá samfélaginu eru þau að þú átt ekki rétt á mat í öllum matmálstímum, alla daga mánaðarins, þú átt ekki rétt á því að vera södd, þú átt ekki rétt á því að grunnþörfum þínum sé mætt.“

Sjá einnig: Anna er föst í viðjum fátæktar: „Í algjörri örvæntingu hef ég þurft að leita á náðir samfélagsins“

Reykjavíkurborg ber mikla ábyrgð

Sanna segir ábyrgð Reykjavíkurborgar vera mikla hvað varðar langtímasjálfsmynd barna, þar sem borgin kemur oft að þáttum sem tengjast grunnframfærslu inni á heimilum barna, auk þess sem Reykjavíkurborg komi að málum sem tengjast því að hér sé nægilegt húsnæði fyrir þau sem geta ekki varið háu hlutfalli ráðstöfunartekna í húsnæði.

„Hvað í ósköpunum erum við að gera sem samfélag þar sem foreldrar hafa ekki efni á því að útvega börnum sínum mat og börnum sínum öruggt húsnæði? Þegar við vitum að fjöldi fólks treystir á matarúthlutanir félagasamtaka til að útvega sér mat og að sömu samtök hættu að sjá um matarúthlutanir í covid og borgarstjórn er ekki til í að setja fram viðbragðsáætlun vegna slíks? Þegar við vitum að fjöldi barna býr við ótryggar húsnæðisaðstæður og geta ekki kallað neitt húsnæði heim, því þau flytja svo oft. Þetta eru allt þættir sem við getum og eigum að vera að vinna gegn og tryggja að börn búi ekki við óöryggi á húnsæðismarkaði eða upplifi matarskort vegna fátæktar,“ segir Sanna.

Sanna bendir á að börn sem alast upp við fátækt verða síðan fullorðnir einstaklingar, sem viti að það er ekki sniðugt að taka óhagstæð lán, hins vegar séu þau oft það eina sem sé í boði.

„Litlu börnin verða svo fullorðnir sem vita alveg að það er ekki sniðugt að taka allskonar óhagstæð lán hér og þar en oft er enginn annar til staðar. Stundum er Netgíró besti vinur þinn. Netgíró skilur að þú þarft að borða. Smálán geta komið þér til tannlæknis. Litlu börnin eru nú kannski fullorðið fólk með skúffuna fulla af óopnuðum bréfum frá bankanum, Motus og Momentum sem minna þau á að reikningar eru löngu komnir fram yfir eindaga. Þau vita alveg að það rétta er að opna og afgreiða en það rétta væri að samfélagið hefði ekki brugðist þeim.“

Sanna veltir fyrir sér hvað Reykjavíkurborg ætli að gera til að tryggja börnum öruggt umhverfi og þar skipti margir þættir máli.

„Stóra spurningin hér er hvernig á Reykjavíkurborg að vinna að því að tryggja börnum öruggt umhverfi þar sem þörfum þeirra er mætt og þar skipta ofantaldir þættir gríðarlegu máli. Að við skoðum tekjuhliðina, fjárhagsaðstoð til framfærslu, upphæðir hennar og húsnæðisliðinn. Þegar einstaklingur er svo kominn í vanskil þá er það ekki að hjálpa að fá reglulegar áminningar um að barnið þitt geti misst pláss sitt á leikskóla ef þú gerir ekki upp vanskilin og streita foreldra getur svo sannarlega skilað sér yfir til barnanna og ég er viss um að það viljum við svo sannarlega ekki,“ segir Sanna.

Segir hún að þrátt fyrir að fjármálalæsi sé gott, líka fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna, þá sé gott fyrir stjórnmálafólk að vera meðvitað um það hvað fátækt felur í sér og setja sig í aðstæður þess hóps.

„Það er oft talað um fjármálalæsi fyrir fólk sem hefur lítið á milli handanna en ég tel að það hljóti að vera gagnlegt fyrir allt stjórnmálafólk að vera meðvitað um allar þær hindranir sem fólk í fátækt, þarf að fara í gegnum, það gæti heitið, lærðu að komast af á þúsund kalli næstu vikuna. Að reyna að setja sig í aðstæður þeirra svo að hægt sé að tryggja að samfélagið verði svo sannarlega fyrir okkur öll og að ekkert barn upplifi sig utan við samfélagið. Því að börn sem upplifa fátækt læra mörg að biðja ekki um neitt, vænta ekki neins og gera oft ekki ráð fyrir neinu góðu og búast við því versta eða allavegana þetta fyrrum fátæka barn.

Vinnum gegn því.“

Ert þú með ábendingu um neytendamál? Sendu póst á [email protected]

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira