Neytandi vikunnar: Fær ólýsanlegt kikk við að kaupa ekki neitt

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar

Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingur á sviði loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun, er neytandi vikunnar.

Hvernig lýsir þú þér sem neytanda?

„Ég myndi segja að ég væri lélegur neytandi í þeim skilningi að ég neyti afskaplega lítið. Ég fæ eitthvað ólýsanlegt kikk út úr því að kaupa ekki eða kaupa notað, stundum svo að mínum nánustu er farið að finnast um of.“

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað, gjafir?

„Ég íhuga alltaf þörfina – þarf ég þetta virkilega? Og svarið er oftar en ekki nei. Ef þörfin er til staðar reyni ég eftir fremsta megni að kaupa notað og hef gert það frá því að ég var unglingur. Uppáhaldsbúðirnar mínar eru Rauðakross-búðirnar í Reykjavík og þar hef ég sömuleiðis fundið ófáa gullmolana á son minn, alveg hræbillega. Stór hluti af mínum fataskáp eru einnig „hand me downs“ frá fjölskyldu og vinum eða flíkur sem ég hef fengið á skiptimörkuðum. Nánast öll húsgögn á heimilinu fengum við gefins frá fjölskyldumeðlimum eða keyptum á Bland.is eða í Góða hirðinum.

Þegar ég gef gjafir reyni ég að gefa upplifanir, matvæli, heimaprjónaðar flíkur eða notaða muni. Fyrir börnin hef ég verið að vinna með t.d. gjafabréf í Húsdýra- og fjölskyldugarðinn, bíó eða aðra afþreyingu og svo er oft hægt að finna fallegar bækur og leikföng á nytjamörkuðum. Ég hef einnig verið að prófa mig áfram með að gefa föt, leikföng og bækur sem sonur minn hefur átt og það hefur alltaf slegið í gegn.“

Þegar kemur að snyrtivörum og hreinsiefnum leita ég alltaf eftir umhverfisvottuðum vörum, sem bera annaðhvort Svansmerkið eða Evrópublómið. Þessar vottanir taka til alls lífsferils vörunnar og eru betri fyrir umhverfið og heilsuna en sambærilegar vörur. Ég legg mikla áherslu á þessar vottanir þegar kemur að vörum fyrir son minn, t.d. bleyjum, sólarvörn, þvottaefni og slíku. Úrvalið af umhverfisvottuðum vörum er orðið ansi gott í stórmörkuðum og ég hvet fólk til að prófa sig áfram með þessar vörur.

Hvað matvælin varðar þá einblínum við fjölskyldan á að koma í veg fyrir matarsóun en það gerum við með því að skipuleggja innkaupin, fara einu sinni eða tvisvar viku í búð, elda litla skammta og vera óhrædd við að frysta mat sem liggur undir skemmdum eins og rjóma, ost, brauð, banana og fleira. Við kaupum afar sjaldan skyndibita og með þessu móti náum við að spara ansi vel þegar kemur að matvælum.

Hver er samgöngumáti þinn? Hugar þú að sparnaði þegar kemur að samgöngum? 

„Við fjölskyldan eigum bíl en ég ferðast til og frá vinnu með strætó og finnst það algjörlega frábært.
Vinnustaðurinn minn býður upp á samgöngusamninga fyrir þá sem vilja ferðast gangandi, hjólandi eða með strætó til og frá vinnu svo ég fæ árskort í strætó frítt í boði vinnunnar.
Við reynum að nota bílinn eins lítið og hægt er og búum svo vel að öll þjónusta er í okkar nærumhverfi svo við getum hæglega hjólað eða gengið í velflestum tilfellum.“

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

„Nammi, garn, bækur og plöntur eru mínir veikleikar!“

Endurnýtir þú?

„Heldur betur. Hér verða slitin handklæði að tuskum. Glerkrukkur undan matvælum fá lengri líftíma. Gjafapappír er notaður aftur og aftur og svo mætti lengi telja. Svo á ég góðan poka af textíl sem hefur fallið til á heimilinu sem mun einn daginn komast í gegnum saumavélina og verða að einhverju nytsamlegu! Svo flokkum við auðvitað allan úrgang sem fellur til og komum til endurvinnslu.“

Hvaða ráð hefur til annarra?

„Að draga úr neyslu hefur margar jákvæðar afleiðingar í för með sér eins og meiri tíma og meiri pening á milli handanna svo ég mæli með því fyrir alla að íhuga þörfina áður en vara er keypt. Á síðunni samangegnsoun.is sem við hjá Umhverfisstofnun höldum úti má finna fróðleik og góð ráð þegar kemur að textíl og plastnotkun og erum við að vinna í að bæta fleiri úrgangsflokkum við eins og matarsóun og raftækjum. Ég verð líka að minnast á frábæran lista yfir vistvæn innkaup á Íslandi sem Þóra Margrét hjá minnasorp.com hefur tekið saman og ég hvet áhugasama til að kynna sér: https://minnasorp.com/vistvaen-innkaup-a-islandi/

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira