Neytandi vikunnar: klippir föt í tuskur og býr til rólur úr dekkjum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ég er mikill NEI-tandi. Segi bara mjög mikið nei við sjálfan mig og börnin mín. Ég hef markvisst reynt að draga úr neyslu,“ segir Freyr Eyjólfsson, fjölmiðlamaður til fjölda ára og nú samskiptastjóri Terra þegar hann er beðinn um að lýsa því hvernig neytandi hann sé.

„Að kaupa eitthvað veitir mér enga sérstaka ánægju. Ég er að reyna að vera ábyrgur neytandi. Það hefur mikil áhrif á umhverfið, náttúruna, sjálfan mig, heilsuna mína og fjárhag hvað ég kaupi. Þannig að ég reyni alltaf að vanda mig.“

Þegar Freyr kaupir í matinn segist hann passa að velja hollan og ferskan mat á góðu verði en fyrst og fremst velji hann ferskan lífrænan mat úr nærumhverfinu.

„Ég kaupi sífellt minna af fötum. Á bara minn fína fataskáp sem ég hef komið mér upp. Reyni að kaupa vönduð föt sem eru ekki alveg einota. Ég er hættur að kaupa mér svona bullföt (eins og bleik jakkaföt) sem maður notar bara einu sinni.“

Freyr segist frekar gefa upplifun, s.s. námskeið, nudd frekar en að kaupa hluti.

Hvað er besta neytendaráð sem Freyr hefur fengið? „Það sem mamma segir alltaf: Hafa skal það sem er hendi næst – og hugsa ei um það sem ekki fæst.“

Leggur þú fyrir? „Já, ég er algjör Jóakim Aðalönd.“

Hvað átt þú erfiðast með að draga úr? „Ég kaupi bara dýrt súkkulaði. Ég er alveg sjúklegur súkkulaðisnobbari og hef keypt ósiðsamlega dýrt súkkulaði.“

Endurnýtir þú? „Alveg í klessu. Klippi föt í tuskur, bý til rólur úr dekkjum. Flokka allt hitt og kem síðan í endurvinnslu.“ Freyr segist hiklaust kaupa notað, föt, bíla, húsgögn og tæki. „Þetta er nú eitt besta sparnaðartrixið!“

Aðspurður um ráð til annarra hvetur Freyr fólk til að spyrja sig:

„Þarft þú virkilega þetta?“

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira