Óskar um sáran sonarmissi: „Gat ekki beðið um að slökkt yrði á tækjunum“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Óskar Sólmundarson bílstjóri missti son sinn, Kristinn Veigar, aðeins fjögurra ára gamlan. Ekið var á litla drenginn við heimili hans í Keflavík. Þau foreldrarnir þurftu að taka þá hræðilegu ákvörðun að slökkva á tækunum sem héldu syninum á lífi.

Óskar ræðir sonarmissinn í viðtali við Fréttablaðið í dag. Þar á hann erfitt með að lýsa tilfinningunum hvernig það er að missa son. Hann segir það ómögulegt. „Þetta er eitthvað sem er ekki til í huga manns og enginn á að þurfa að hugsa,“ segir Óskar.

Það var 30. nóvember 2007 sem ekið var á Kristinn fyrir utan heimili hans í Keflavík. Litli drengurinn hafði þá hlaupið á milli kyrrstæðra bíla og út á götuna þar sem hann varð fyrir bíl. Sjúkrabíllinn var fljótur á vettvang og tíminn sem leið þar til Óskar fékk að sjá son sinn meðvitundarlausan var eins og heil eilífð. „Mér finnst sem sú bið hafi verið margar klukkustundir en líklega var þetta hálftími eða klukkutími þar til við fengum að sjá barnið. Óvissan var algjör. Við vorum svo færð inn á gjörgæslu þar sem við fengum að sjá hann. Þar lá hann í sjúkrarúmi í öndunarvél. Við sáum að hann andaði og hjartað sló, það sá ekkert á andliti hans sem er ótrúlegt eftir þetta allt saman,“ rifjar Óskar upp.

„Hugsunin um að barnið manns sé kannski að fara að deyja kemur aldrei upp“

Þegar hér er komið við sögur eru foreldrarnir nokkuð bjartsýnir á framhaldið. Óskar segir að hugsunin um að barnið sitt væri að fara að deyja aldrei komið upp. „Ég hugsa að það komi aldrei upp í huga foreldris í þessum aðstæðum. Við vorum bara að berjast með honum og hringja í foreldra okkar og ættingja og láta vita hvað gerst hafði. Okkur var sagt að það eina sem við gætum gert væri að bíða enda hefðu miklar bólgur myndast við heila,“ segir Óskar og heldur áfram:

Kristinn Veigar var aðeins fjögurra ára þegar hann lést. Blessuð sé minning hans.

„Þegar nóttin kom var útbúin aðstaða fyrir okkur Önnu að gista sitt hvorum megin við hann. Maður svaf auðvitað ekkert heldur dottaði bara aðeins. Svo um hálf fjögur um nóttina fara öll tækin sem hann var tengdur við að pípa og stofan fyllist af hjúkrunarliði. Þau ná honum aftur niður og allt er með kyrrum kjörum. Manni var gríðarlega létt en áttaði sig illa á stöðunni og eftir á að hyggja held ég að hann hafi dáið þarna. Vélarnar voru látnar halda í honum lífi. Ég held að þetta sé oft gert, fyrir foreldrana, svo þau fái að berjast með barninu sínu og gefist smá tími.“

„Þá var hann að segja við okkur að barnið okkar væri dáið“

Snemma daginn eftir var farið með Kristinn, ungan son Óskars, í myndatöku. Að henni lokinni fengu foreldrarnir hin hræðilegu tíðindi. „Þegar svo komið er með hann aftur er haldinn fundur með okkur foreldrunum. Okkur er þá tilkynnt að hann sé heiladáinn. Við einfaldlega horfðum á lækninn og spurðum: „Hvað þýðir það?“ Hann þagði og gaf okkur smástund til að átta okkur betur. Það var svo Anna sem fyrst fattaði hvað þessi orð þýddu og brotnaði saman. Þá var hann að segja við okkur að barnið okkar væri dáið,“ segir Óskar.

Óskar á erfitt með að rifja upp sáran sonarmissinn.

Þegar þetta varð ljóst þurftu foreldrarnir að taka þá erfiðu ákvörðun að slökkt yrði á tækjunum sem héldu litla drengnum á lífi. Óskar gat sjálfur ekki farið til læknisins til að tilkynna það. „Ég gat ekki beðið um að slökkt yrði á tækjunum sem í mínum huga héldu syni mínum á lífi. Við urðum bara börn aftur. Systur mínar tvær komu að austan, fluttu inn á okkur og sáu til þess að við fengjum að borða og svæfum næstu vikurnar. Þessi tími er allur í móðu,“ segir Óskar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira