Páll ræðir ekki lífshættu fanga en lofar rannsókn – Enginn vörður settur í leyfi

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Páll Winkel fangelsismálastjóri segist ekki getað brugðist við gagnrýni fjölskyldu Sigurðar Kristinssonar fanga sem var fluttur í lífshættu á sjúkrahús síðstaliðinn sunnudag. Efnislega geti hann einfaldlega ekki tjáð sig en staðfestir að málið verði skoðað ofan í kjölinn hjá embættinu. Inntur eftir því hvort Páll telji að brotið hafi verið á Sigurði í fangelsinu segist hann ekki getað tjáð sig um það.

Unnur Sigrún Þorbjargardóttir segir að fangaverðir í fangelsinu á Hólmsheiði hafi verið hársbreidd frá því að bana bróður sínum, Sigurði, sem liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi. Hún er ofboðslega reið út í stjórn fangelsismála sem hún segir að sýni hvorki auðmýkt né vott af því að þau beri ábyrgð á mönnum sem hafa verið frelsissviptir.

Sigurður, yngri bróðir Unnar, var dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar í Skáksambandsmálinu svokallaða, þegar gerð var tilraun til innflutnings á fimm kílóum af amfetamíni frá Spáni árið 2017, og afplánaði hann nú dóminn í fangelsinu á Hólmsheiði. Þar veiktist hann illa fyrir viku síðan af blóðeitrun og fullyrðir Unnur að honum hafi verið margneitað um læknisaðstoð. Sigurður er nýkominn úr öndurvél og vonast Unnur til að hann nái sér með tímanum. Litli bróðir hennar kemur líklega til með að vera margar vikur inniliggjandi í bataferli enda náði sýkingin bæði í lungu Sigurðar og hjarta.

Dómsmálaráðuneytið hefur óskað eftir upplýsingum frá Páli um hvernig málinu sé háttað frá sjónarhóli stofnunarinnar. Aðspurður hvort einhverjir fangaverðir hafi verið sendir í leyfi á meðan málið sé skoðað segir hann svo ekki vera. „Nei, það er ekkert slíkt. Þetta er mál sem við skoðum enda skoðum við öll þau mál þar sem gerðar eru athugasemdir við vinnubrögð. Ég fylgist vel með öllum málum og um þau eru gerðar nákvæmar skýrslur þar sem allar tímasetningar koma fram. Ef ráðuneytið óskar eftir upplýsingum þá veitum við þær auðvitað,“ segir Páll í samtali við Mannlíf.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira