Pétur Jónasson fálkaorðuhafi látinn: „Framlag Péturs ómetanlegt“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Pétur Mikkel Jónasson, vatnavistfræðingur og prófessor emerítus við Kaupmannahafnarháskóla, er látinn. Hann var 100 ára er hann lést. Hann lætur eftir sig tvær eftirlifandi dætur.

Pétur var margverðlaunaður vatnalíffræðingur sem hlaut meðal annars íslensku bókmenntaverðlaunin, riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, riddakross af Dannebrog og heiðursmerki vatnalíffræðinga. Það var fyrir bókina Þingvallavatn, undaheimur í mótun, sem hann hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2002. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, ritaði formála að bókinni og öðrum bókum Péturs.

Pétur ásamt Vigdísi. Mynd / Skjáskot Náttúruminjasafn Íslands

Pétur fæddist í Reykjavík 18. júní 1920. Foreldrar hans voru Jónas Halldór Guðmundsson skipasmiður og Margrét Guðmundsdóttir Ottesen húsfreyja. Á unga aldri dvaldi Pétur hjá afa sínum og ömmu í Miðfelli á bökkum Þingvallavatns og drakk þar í sig stórbrotna náttúru Þingvallasveitar. Pétur fór út í nám árið 1939 og nam vatnalíffræði við Hafnarháskóla og lauk þaðan magistersprófi 1952 og síðar doktorsprófi 1972. Viðfangsefni hans voru vistfræði straum- og stöðuvatna bæði í Danmörku og á Íslandi.

Pétur lagði mikið af mörkum til náttúruverndar og fyrir tveimur árum færði hann, ásamt dætrum sínum Kristínu og Margréti, Náttúruminjasafni Íslands afar veglega bókagjöf. Sú gjöf taldi um 500 titla af náttúrufræðiritum sem mörg hver þykja talsvert dýrmæt. Við það tækifæri færði Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins, Pétri þakkir. „Framlag Péturs til menningararfs þjóðarinnar felst ekki aðeins í þessari veglegu bókagjöf, heldur, eins og margir þekkja, í ómetanlegu framlagi hans til náttúrurannsókna og náttúruverndar í landinu. Hér vísa ég til brautryðjandi rannsóknaverkefna undir forystu Péturs á vistfræði Mývatns og Þingvallavatns og baráttu Péturs í kjölfarið fyrir verndun þessara náttúruperla,“ sagði Hilmar.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira