Prófessor ræðst á Tryggingastofnun: „Nógu sveltir fyrir þótt ekki sé níðst á þeim“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hrefna Kristmannsdóttir, fyrrverandi prófessor við Háskólann á Akureyri, vill leggja niður Tryggingastofnun og finna í staðinn mannúðlegri leið til að hjálpa þegnum þjóðarinnar. Hún segir að fylla megi heila bók með átakanlegum sögum af framkomu stofnunarinnar í garð Íslendinga.

Þessu lýsir Hrefna yfir í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Hún segir hafa átt óskemmtileg samskipti við stofnunina og bendir á að skýrslur sýni að aðeins 10 prósent lífeyrisþega hljóti réttar greiðslur þaðan. „Fyrir þá sem átt hafa í samskiptum við þessa stofnun eru þetta ekki óvænt tíðindi. Sem betur fer hef ég ekki þurft að byggja lífsafkomu mína á afgreiðslu stofnunarinnar, en þó átt óskemmtileg samskipti við hana. Nokkru eftir að ég fór á eftirlaun var mér bent á að samkvæmt þágildandi lögum sætti grunnlífeyrir ekki skerðingu vegna greiðslna frá lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna og gæti ég átt þar nokkurn rétt. Ég hafði því samband við Tryggingastofnun og er skemmst frá því að segja að nær ekkert stóðst í afgreiðslum hennar og var ég því fegnust þegar ný lög bundu sjálfkrafa enda á þessi samskipti,“ segir Hrefna og heldur áfram:

„Þær fáu krónur sem ég fékk voru alls ekki virði þess vesens og leiðinda sem þær ollu. Svo virtist sem starfsmenn hefðu lítinn skilning á hvernig ætti að gera greiðsluáætlanir og skömmuðust sín ekkert fyrir það. Margir vina minna og ættingja eiga afkomu sína undir afgreiðslu stofnunarinnar og segja farir sínar ekki sléttar.“

Máli sínu til stuðnings nefnir hún sögu af fjölskyludmeðlimi sínu. „Öryrki í fjölskyldu minni fékk endurnýjað örorkumat frá lækninum sínum, sem er einn helsti sérfræðingur landsins í sjúkdómnum sem hrjáir viðkomandi. Engu að síður var öryrkinn kallaður í endurmat hjá lækni sem í upphafi viðtals viðurkenndi að hafa aldrei heyrt talað um sjúkdóminn sem hrjáði viðkomandi. Engu að síður úrskurðaði hann á grundvelli staðlaðs spurningalista stofnunarinnar að öryrkinn væri ekki óvinnufær. Við tók 10 mánaða þras og barátta með verulegum lögmanns- og lækniskostnaði þar til stofnunin lét undan síga. Á meðan var öryrkinn bótalaus og hefur þetta mál vafalaust tafið verulega það hægfara bataferli sem hann og læknar vonuðust til að hann væri á,“ segir Hrefna og nefnir fleiri dæmi:

„Vinur minn, sem er lífeyrisþegi, lenti í því að Tryggingastofnun hætti allt í einu að greiða honum heimilisuppbót. Eftirgrennslan leiddi í ljós að ástæðan var sú að barn hans sem flutti utan til vinnu hafði skráð lögheimili hjá honum á meðan. Engar skýringar dugðu og varð að breyta skráningunni. Þar með var hins vegar ekki öll sagan sögð því þegar barn hans kom í stutt sumarfrí og dvaldi hjá honum kom óðara bréf frá stofnuninni sem tjáði lífeyrisþeganum að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að barnið byggi hjá honum og því yrði heimilisuppbót hans felld niður.“

Hrefna segir nóg komið af skammarlegri framkomu Tryggingarstofnunar. „Hægt væri að fylla bók með mörgum mun átakanlegri sögum um framkomu Tryggingastofnunar gegn þessum þegnum þjóðarinnar, sem eru nógu sveltir fyrir þótt ekki sé níðst á þeim og haft af þeim það naumt skammtaða viðurværi sem lög gera ráð fyrir. Því skora ég á stjórnvöld að leggja stofnunina niður og finna einfaldari, skilvirkari og mannúðlegri leið,“ segir Hrefna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira