Rögnvaldur segir Víði „drulluslappan“: „Jólahefðirnar verða því miður bara að fara í aftursætið“ |

Rögnvaldur segir Víði „drulluslappan“: „Jólahefðirnar verða því miður bara að fara í aftursætið“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra, er nú drulluslappur í einangrun sýktur af Covid-19. Í morgun sendi hann baráttukveðjur til kollega sinna hjá almannavörnum í baráttunni gegn því að ný bylgja faraldursins fari af stað hérlendis.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, er talsvert kvíðinn fyrir þeim smittölum sem nú eru að birtast. Hann mælir gegn öllum hópamyndunum á næstunni. „Við verðum að biðja fólk um að bíða með öll veisluhöld og jólastúss. Þetta ár er bara allt öðruvísi en önnur ár og jólahefðirnar verða því miður bara að fara í aftursætið. Það ætlar sér enginn að smita en þar sem þetta er svo lúmkst verðum við að halda öllum hópamyndunum niðri. Ég skil vel að þetta er erfitt en á meðan það er enn að greinast veira þá finnur hún sér leið,“ segir Rögnvaldur.

Víðir greindist með Covid-19 á miðvikudaginn. Hann þarf vart að kynna þar sem hann hefur skipað hið víðfræga þríeyki sem leitt hefur þjóðina í baráttunni við Covid-19. Víðir fór í sína þriðju sóttkví snemma vikunnar og greindist svo á endanum með sjúkdóminn. Í fyrstu var hann einkennalaus í einangruninni en breyting varð á því í gær.

Í fyrstu bylgu kórónuveirufaraldursins þurfti Víðir að dvelja á hóteli, fjarri fjölskyldu sinni, eftir að smit kom upp. Þá sendi Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, dagskrárgerðarkona á Rás 2, Víði í sóttkví eftir að hún smitaðist.

Hjá almannavarnadeildinni var ákveðið að gera tilraun á Víði og skima hann daglega fyrir Covid. Rögnvaldur er feginn að svo hafi verið gert því veiran sé svo lúmsk. „Víðir okkar var sem betur fer greindur snemma í ferlinu. Þá var hann eldhress í vinnunni, eins og hann á að sér að vera, en á sama tíma alveg bráðsmitandi. Svo var það ekki fyrr en daginn eftir sem hann fór að finna fyrir smá einkennum og núna er hann bara drulluslappur. Hann sendi okkur skilaboð í morgun og hvatti okkur til dáða. Hann mælir alls ekki með því að veikjast af þessu og ég tek alveg undir það,“ segir Rögnvaldur sem sjálfiur smitaðist af Covid fyrir mánuði síðan.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira