Sauð upp hjá sauðfjárbændum – Úlfúð yfir þessari mynd: „Svona lagað er gersamlega óafsakanlegt“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Facebook-hópurinn Sauðfjárbændur er líklega meðal rólegri hópum landsmanna á samfélagsmiðum en undantekning frá þeirri reglu átti sér stað í gær. Allt ætlaði um koll að keyra þegar Aldís nokkur deildi mynd af rollu og skrifaði: „Mér finnst afskaplega hvimleitt þegar menn merkja ókunnugt fé hjá sér svona, fyrr má nú vera þetta er  algjör ósiður og skemmd á gærunni.“

Hún birti svo myndina sem má sjá hér fyrir neðan en þar má sjá að búið er að spreyja sauðkind skærgræna. Viðbrögðin stóðu ekki á sér og fauk vægast sagt í flesta bændur. Tugir athugasemda voru skrifaðar við færsluna innan skamms. Sauðfjárbændur höfðu orð á því að þetta væri ruddaskapur sem bæri að sekt. „Ef maður er með ókunnugt fé þá bara merkja hornin epa eitthvað svoleiðis svo þú eyðileggur ekki gæruna!,“ skrifar ein kona til að mynda.

Einn bóndi segir þetta full mikið. „Skelfilegur ósiður að nota þetta sprey, litur í ullinni jafnvel mánuðum saman. Fyrr má nú þekkja ókunnugt úr hópnum hjá sér.“ Annar virðist afsaka þessa hegðun. „Tilgangurinn með að merkja ókunnugt er hver, annar en bölvaður rataskapur? Andskotanum harðara að þekkja ekki ókunnugt úr hjá sér öðruvísi en lita það í bak og fyrir,“ skrifar hann.

Bóndi nokkur, Rúnar að nafni, segir að birta eigi myndir af þeim sem gera þetta í Bændablaðinu. „Svona lagað er gersamlega óafsakanlegt og til skammar þeim sem framkvæma slíkt. Ætti að birta mynd af gerendum í sérstökum dálk í bændablaðinu,“ skrifar Rúnar. Þá segir annar bóndi: „Róa sig Rúnar minn.“ Því svarar Rúnar: „Úps, svona lætur maður einfalda hluti stundum hreyfa við sér“

Einn bóndi segir best að þekkja bara sitt fé í sjón. „Mér hefur gefist það best að þekkja markið mitt og það fé sem ekki er markað því er ókunnugt. Þannig hef ég greinilega sparað mér nokkra spreybrúsana,“ skrifar sá bóndi. Annar bóndi veltir þessu fyrir líka: „Er fólk hætt að þekkja mörkin sín hvað þá féð sitt.“

Fleiri kvarta undan þessu. „Svona spreygleði er algerlega óafsakanleg og setur fyrst og fremst ljótann lit á þann sem henni beitir,“ skrifar einn meðan annar bóndi skrifar: „Algjör ósiður og maður á ekki rétt á að setja lit á annara manna fé, bæði með mark og merki í flestum tilfellum. Svo sérstakt að það megi ekki finna því stað í dilk eða kró. Ömulegt að sjá svona lagað.“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira