Sigríði brugðið: „Persónulegar árásir og smánun á hendur vönduðum og skeleggum fréttamanni“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sigríði Hagalín Björnsdóttur er brugðið yfir því fúkyrðaflaumi sem hefur gengið yfir Einar Þorsteinsson kollega hennar á fréttastofu RÚV. Sumir hafa haldið því fram að hún hafi spáð fyrir um COVID-ástandið með bók sinni Eyland, en lýsingar í bókinni minna óneitanlega á árið 2020. Hún segist þó fyrst og fremst hafa verið að skrifa um það þegar blaðamenn megi ekki spyrja gagnrýnar spurningar.

„Árið 2016 skrifaði ég bók sem heitir Eyland. Ég skrifaði hana aðallega fyrir sjálfa mig og ætlaði ekkert endilega að gefa hana út, en út kom hún og hefur farið víðar en ég bjóst nokkurn tímann við. Undanfarna mánuði hefur fólk stundum komið að máli við mig á förnum vegi, úti í búð, á veitingahúsum, og spurt hvort ég búi yfir einhverri spádómsgáfu, að hafa séð einangrunina vegna Covid-faraldursins fyrir. Svarið er nei, það gerði ég ekki, sem betur fer,“ segir Sigríður.

Hún segist hafa heyrt ýmsar túlkanir á bókinni. „Ég hef heyrt ýmsar túlkanir á Eylandi, að hún sé um uppgang fasisma, útlendingahatur og matarskort; hún hefur verið flokkuð sem dystópía, saga af samfélagshruni. En ég skrifaði hana fyrst og fremst um blaðamennsku. Um það sem kemur fyrir þjóðfélög þegar krafan um samstöðu verður svo fyrirferðarmikil að blaða- og fréttamenn hætta að þora að spyrja erfiðra og leiðinlegra spurninga,“ segir Sigríður.

Hún segir bókina þó fjalla um þetta: „Við lifum fordæmalausa tíma, við erum öll almannavarnir, við stöndum öll saman. En fréttamenn mega samt ekki hætta að spyrja ráðamenn og forstöðumenn stofnana þjóðarinnar krefjandi og gagnrýninna spurninga. Til þess erum við hérna, það er mikilvægasti tilgangur fjölmiðla og fréttamanna í lýðræðisríki. Það er ekki alltaf þakklátt eða skemmtilegt hlutverk, og það krefst ákveðins hugrekkis.“

Því er hún uggandi yfir því skítkasti sem Einar Þorsteinsson hefur þurft að þola. „Mér er brugðið yfir þeim fúkyrðaflaumi sem hefur gengið yfir Einar Þorsteinsson, kollega minn í Kastljósi, vegna viðtals hans við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, á mánudaginn. Við erum aldrei hafin yfir gagnrýni, en margt af því sem sett hefur verið fram um viðtalið, meðal annars hér á Facebook, getur ekki flokkast sem annað en persónulegar árásir og smánun á hendur vönduðum og skeleggum fréttamanni, sem hefur ekki unnið annað til saka en að vinna vinnuna sína. Einar er ekki eini frétta- eða blaðamaðurinn sem hefur þurft að þola rætnar, persónulegar árásir fyrir störf sín, oft frá fólki sem ætti að vita betur en að fara í manninn og skjóta sendiboðann,“ segir Sigríður.

Hún segist vita hvernig þetta endar þó hún sé ekki skyggn. „Mér finnst harkan í þessari ómálefnalegu umræðu hafa aukist, og bergmálshellarnir dýpkað að undanförnu. Ég óttast að það hafi á endanum þau áhrif að fæla hæfileikafólk frá blaðamennsku, og hræði starfandi blaðamenn frá því að fjalla á gagnrýninn hátt um stöðu umdeildra mála.

Ég bý ekki yfir neinni spádómsgáfu, en ég veit hvað kemur fyrir þjóðfélög þegar blaðamenn hætta að þora að spyrja erfiðra spurninga. Til þess þarf enga spádómsgáfu, sagan hefur kennt okkur það, aftur og aftur.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira