Sumar í sálina á miðjum vetri

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Á veturna hefur fólk meiri þörf fyrir afþreyingu en á sumrin. Litríkur gróður, hlýrra veður og birtan dregur flesta út meðan á síðarnefndu árstíðinni stendur en myrkrið, kuldinn og lægðirnar sem ganga yfir landið kalla á einhverja skemmtun þegar sú fyrrnefnda er allsráðandi. Í vetur gæti verið gaman að nýta sér eitthvað af eftirfarandi.

***

Töfrar leikhússins

Margir skella sér í leikhús yfir vetrartímann.

Gleði og léttleiki

Shakespeare verður ástfanginn er léttur og rómantískur gamanleikur sem sýndur er í Þjóðleikhúsinu um þessar mundir. Verkið er spunnið út frá ævi skáldsins án þess þó að nokkrar traustar heimildir liggi þar að baki. Hinn ungi Will Shakespeare glímir við ritstíflu og ekkert er almennt betra til að blása mönnum nýjum hugmyndum og sagnaranda í brjóst en einmitt ástin. Þetta er flott sýning og vel til þess fallin að senda áhorfandann glaðan heim að henni lokinni.

Jólin nálgast

Jólaævintýri Þorra og Þuru í Tjarnarbíói er góð leið til að koma sér í aðventustemningu. Þorri og Þura eru beðin um að passa jólakristalinn, uppsprettu allrar jólagleði í heiminum meðan afi Þorra bregður sér af bæ. Þau slökkva hins vegar óvart á honum og þurfa að leggja upp í erfitt og tvísýnt ferðalag til að finna leið til að kveikja á honum að nýju.

Eitur

Þau Nína Dögg Filippusdóttir og Hilmir Snær Guðnason sýna stjörnuleik í sýningunni Eitur í Borgarleikhúsinu. Þau urðu fyrir áfalli sem sprengdi hjónabandið og hann hélt utan til að hefja nýtt líf. Hún varð eftir í húsinu þeirra og reyndi að takast á við sorgina. Tíu árum síðar hittast þau aftur og þurfa að gera upp fortíðina. Þetta er mannleg og hlý sýning, oft nístandi sár en algjörlega frábær.

Leikfélagið Hugleikur að leik.

Gestagangur

Leikfélagið Hugleikur frumsýndi nýlega nýjan söngleik eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Verkið heitir Gestagangur og gerist á stríðsárum seinni heimstyrjaldarinnar í Reykjavík. Styrjöldin er hafin og Íslendingar reyna eftir bestu getu að haga seglum eftir vindi. Þegar Bretar hernema landið finna ráðamenn leiðir til að maka krókinn og breskir hermenn reyna að vingast við heimamenn, ekki síst stúlkurnar. Nýr fangavörður hefur tekið við Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og það kemur í hans hlut að hýsa óheppnar stúlkur, bæði þær sem komast í kast við ástandslögin og aðrar sem eiga einfaldlega ekki í önnur hús að venda. Sýnt er í fyrrum nemendaleikhúsinu við Sölvhólsgötu.

***

Einn möguleiki er að skella sér á námskeið hjá Salt.

Matur og drykkur með þínum allra bestu

Fátt er skemmtilegra en að elda og njóta matar með sínum nánustu. Salt eldhús gefur fólki færi á að læra eitthvað nýtt sem síðan má kynna fjölskyldunni eða hreinlega fara saman nokkur og takast á við nýjar áskoranir í matargerð. Í nóvember og desember eru mörg mjög spennandi námskeið í boði hjá þeim og Jóla-Galdrar er námskeið sem einmitt er tilvalið til að koma mönnum af stað í jólaundirbúningnum. Sigríður Björk Bragadóttir, einn eiganda Salt eldhúss, kennir hvernig búa má til kjúklingalifrarpaté, biscotti, karamellusósu og fleira gómsætt á jólaborðið. En þetta eru einnig fallegar og skemmtilegar jólagjafir.

***

Út að borða

Ómissandi hluti af aðventunni hjá mörgum er að fara út að borða. Velja sér flottasta, nýstárlegasta eða gómsætasta jólahlaðborðið og smala svo saman vinahópnum eða fjölskyldunni og fá sér eitthvað verulega gott. Veitingamenn mæla með að fólk panti tímanlega því staðirnir eru fljótir að fyllast í desember.

***

Norðurljós um vetur.

Helgarferðir

Vetrarfegurð er mikil víða á Íslandi og finna má ótal notalega og þægilega gististaði allt í kringum landið. Það er ævintýri að gerast túristi í eigin landi og upplifa norðurljósin, heitu pottana, nútíma íslenska matargerð og gestrisnina. Oft eru mjög hagstæð tilboð á kvöldverði og gistingu í vefverslunum og sniðugt að hafa augun opin fyrir slíku og halda svo af stað.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira