Köld kveðja frá Air Iceland Connect: „Þú átt fluginneign sem er útrunnin“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Neytendavaktin er á persónulegum nótum í dag og segir frá eigin upplifun af viðskiptum sínum við Air Iceland Connect. Í síðustu viku ætlaði ég að panta mér far frá Reykjavík til Egilsstaða og nota til þess 2 flugleggi sem ég átti eftir af flugkortinu mínu. Maðurinn minn á 5 leggi. Þetta fór ekki betur en svo að þegar ég fór inn á fluginneignalistann blöstu við mér þessi skilaboð:

„Þú átt fluginneign sem er útrunninn.“

Mín inneign rann sem sagt út 09.08.20 og inneign mannsins míns rann út 27.09.20.  Við höfum nokkrum sinnum keypt fluginneign hjá flugfélaginu en aldrei áttað okkur á því að hún rynni út á svo skömmum tíma. Eftir að COVID hóf innreið sína í landið hefur ferðum okkar milli landshluta fækkað vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda um að halda kyrru fyrir. Fyrir utan það er takmarkað sætaframboð á fluginneignum þannig að til að nýta flugkort þá þarf að plana ferðir fram í tímann, sem sjaldan hentar í nútímasamfélagi. Hægt er að nýta inneignina upp í dýrari flugmiða – en þá er afslátturinn fyrir bí. Ekki hjálpar til að Air Iceland Connect er eina flugfélagið sem flýgur Reykjavík-Egilsstaði og því engin samkeppni.

Fluginneign (6 flugleggir) kostaði árið 2018 –  77.400 kr. og kostar nú 80.400 kr.

Ég tók upp tólið og hringdi í flugfélagið:

„Það er ekkert mál að framlengja gidistímann, sendu bara tölvupóst á xxx og þau græja þetta í hvelli,“ svaraði indæll ungur maður. Ég náði þó ekki netfanginu og leitaði eftir því að heimasíðunni – án árangurs. Ég hringdi aftur og fékk það uppgefið og sendi póst. 7 tímum síðar hafði ég ekki fengið nein viðbrögð, prófaði þá aftur að hringja. Kom í ljós að mér hafði verið gefið upp vitlaust netfang. Tæpum sólahring síðar fékk ég svarið:

„Sæl Berglind,

Flugfrelsin ykkar beggja hafa verið framlengd um 6 mánuði og gilda nú fram í mars 2021.“

Þetta gat ég ekki sætt mig við svo ég sendi annan póst:

„Takk fyrir svarið. Við sjáum ekki fram á að nýta þetta nú í Kófinu þar sem tilmæli eru um að fólk sé ekki að ferðast á milli landshluta. Geturðu framlengt þetta meira?
Svo spyr ég bara um viðskiptahættina. Þegar ég keypti Flugfrelsi áttaði ég mig alls ekki á því að þetta myndi renna út. Ég hefði amk haldið að það væri að lágmarki 4 ára gildistími. Sbr: https://www.neytendastofa.is/fyrirtaeki/orettmaetir-vidskiptahaettir/skilarettur/
Kveðja,
Berglind.
Svar barst:

„Sæl,

Ég framlengdi þetta um Ár“

Engin svör við spurningu minni um hvort þetta væru eðlilegir viðskiptahættir.

Ég ákvað að bera þetta mál undir Neytendasamtökin. Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna hafði þetta að segja:
„Við höfum verið að berjast gegn þessum stutta gildistíma á gjafabréfum almennt en ekki síst hvað varðar flug. Við höfum ekki enn fengið kvörtun vegna Flugfélags Íslands en þarna gilda sömu lögmál. Tveggja ára gildistími er of stuttur að okkar mati. Vandamálið er að það gilda engin lög eða reglur um gildistíma gjafabréfa og aldrei hefur reynt á slíkt mál fyrir dómi. Við lítum hins vegar svo á að þarna sé um að kröfu að ræða og almennur fyrningarfrestur á kröfum er fjögur ár.“
Já kæru neytendur, við þurfum bara alltaf að vera á tánum og megum aldrei sofna á verðinum.

 

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira