Viðskiptablaðið heldur að foreldar muni eyða fæðingarorlofinu í að spila tölvuleiki

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ritstjórn Viðskiptablaðsins virðist telja að foreldrar muni eyða auknu fæðingarorlofi í skemmtun og leti. Í það minnsta má lesa það í ritstjórnarpistli blaðsins í dag. Nýverið var samþykkt að lengja fæðingarorlof í samtals tólf mánuði. Í nafnlausum skoðanapistli í Viðskiptablaðinu í dag er þetta gagnrýnt og fullyrt að börnin sem orlofið er vegna muni gremjast lenging orlofsins í framtíðinni.

Viðskiptablaðið sér fyrir sér að foreldrar muni eyða orlofinu ýmist á kaffihúsi eða í tölvuleiknum FIFA. „Þau hljóta einnig að spyrja foreldra sína hvort þeim hafi þótt þetta þess virði. Í þeim tilfellum þar sem andvökunætur voru fáar og allt gekk vel hvort það hafi virkilega verið þess virði að skuldsetja börnin sín til þess að pabbinn og mamman hafi eytt stórum hluta orlofsins í FIFA 21- 25, málað alla íbúðina, endurgert garðinn, eytt sex mánuðum á sólarströnd eða dvalið langdvölum á kaffihúsum í mömmuklúbbunum og feðraklúbbunum,“ segir í Viðskiptablaðinu.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gerir grín af þessu í Facebook. Þar segir Sólveig: „Hér er partur af gagnrýni Viðskiptablaðsins á lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. Mennirnir á Viðskiptablaðinu hafa af því áhyggjur að allt of margir milljarðar fari í þetta verkefni og verði til þess að gera stöðu ríkissjóðs verri vegna gríðarlegrar skuldasöfnunnar. Í viðleitini sinni til að miðla áhyggjunum til lesenda fara þeir þá athyglisverðu leið að útbúa hípóþetískt vel-miðaldra barn sem mun árið 2056 krefja aldraða foreldra sína svara um það hvers vegna skattar séu hærri þá en nú. „Hversvegna er ég skattpínt svo hræðilega“, mun barnið æpa í uppnámi. „Hver er sagan á bak við þetta viðbjóðslega skatta-ofbeldi sem ég verð fyrir? Ég upplifi svo mikinn vanmátt, svo mikið varnarleysi!““

Hún heldur svo áfram: „Og þá munu aldraðir foreldrarnir svara (full iðrunar eða köld sem klaki, í samræmi við persónulega siðferðiskennd og kannski samskiptasögu barns og foreldra-teymis; hefur verið mikið um uppnám og ásakanir eða hafa samskiptin verið sívílíseruð fram að þessu átakanlega uppgjöri?): „Barn, sannleikurinn er sá að við vildum einfaldlega fá tækifæri til að spila tölvuleiki á kaffihúsi á sólarströnd með foreldraklúbbnum. Og þessi lenging á fæðingarorlofi gerði okkur það kleift. Sorrý (eða ekki sorrý). Þetta er bara blákaldur sannleikur málsins.““

Vinir hennar á Facebook segja flestir það sama, það sé augljóst að kona hafi ekki skrifað þennan texta og ef viðkomandi er foreldri þá hafi hann ef til vill mátt sinna barninu sínu betur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira