Vill segja sögur öryrkja „Það er nógu erfitt að glíma við sjúkdóm, þessu á ekki að fylgja skömm“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Unnur Regína Gunnarsdóttir er 28 ára og hefur upp á síðkastið vakið athygli á stöðu öryrkja á Íslandi meðal annars með myndbandi sem hún deildi á Facebook síðu sinni í síðasta mánuði. Unnur er öryrki og hefur sagt frá skömm sem fylgir því að vera óvinnufær og vill uppræta hana meðal annars með því að segja sögur annarra.

Margir haldi að öryrkjar séu bara að svindla á kerfinu

Hún leitar nú eftir fólki með örorku, til að segja sína sögu. „Skiptir engu á hvaða aldri, hvort þeir nái að vinna eitthvað eða ekki, eigi mikið eða lítið eða séu stórir eða litlir,“ skrifa Unnur á Facebook.

Þegar blaðamaður hafði samband við Unni sagði hún of snemmt að greina nákvæmlega frá því hvar hún ætli að segja sögurnar en hún segir raunverulegar sögur öryrkja á Íslandi þurfi að heyrast og það sé fyrst og fremst markmiðið. „Það þarf að normalísera þetta aðeins, það eru svo margir sem halda að öryrkjar séu bara heima hjá sér í sófanum að reykja og svindla á kerfinu,“ segir Unnur.Í upphafi árs kom út kvikmyndin Gullregn eftir Ragnar Bragason sem segir einmitt sögu þessarar staðalímyndar sem Unnur vitnar í.

„Það hefur enginn áhuga á öryrkjum, ef fólk er ekki að glíma við örorku þá hefurðu engann áhuga á stöðu þeirra,“ segir Unnur. Hún vonar að ef fólk fái að heyra sannar sögur öryrkja og fái að kynnast þessum hóp betur auki það virðingu einstaklinga í slíkri stöðu í samfélaginu.

Fordómarnir langmestir hjá þess sem glíma við andlega sjúkdóma

„Andlega veikir öryrkjar koma langverst úr þessu fordómapakka,“ segir Unnur. Hún segir miklu minna talað um stöðu andlegra veikra öryrkja og að fólk í þeirri stöðu greini síður frá sjúkdómi sínum vegna skammar. Fólki finnist það ekki vera nægilega veikt af því samfélagið segi það við það. „Ef sjúkdómurinn er ekki sjáanlegur segir samfélagið fólki bara að harka,“ segir Unnar.

Sögur annarra hjálpa

Unnur er með sjúkdóminn Ehlers Danlos eða EDS. Sjúkdómurinn hefur áhrif á bandvefinn sem styður liðina, húðina, beinin og líffærin. Ein­kenni sjúkdómsins eru dagleg­ir verk­ir en hann hefur meðal annars valdið skaða á mænu hjá Unni sem veldur því að hún er með minni mátt vinstra megin í líkamanum. Unnur segir einkenni sjúkdómsins mjög misjöfn eftir einstaklingum. „Þetta versnar með aldrinum og liðirnir verða verri og verri, en það er mjög misjafnt,“ segir Unnur.

Hún segir sögur annara hafa hjálpað sér að glíma við skömmina sem fylgir því að vera með sjúkdóm sem veldur því að hún geti ekki unnið. „Það er nógu erfitt að glíma við sjúkdóm alla daga svo þessu á ekki að fylgja skömm,“ segir hún.

Heldur úti hlaðvarpi

Unnur heldur úti hlaðvarpinu Háski, en hún fór af stað með það verkefni í sumar og hefur gefið út 30 þætti og yfir 8000 manns hlusta á þættina í hverri viku. Hugmyndina fékk Unnur þegar hún veiktist en í þáttunum segir hún sögur af fólki sem hefur lent í lífsháska. „Þetta er bara áhugamálið mitt,“ segir Unnir.  Þættina er að finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum og kemur út nýr þáttur alla föstudaga.

Vill heyra sögurnar

Þeir sem vilja deila sögu sinni og reynslu af því að vera öryrki á Íslandi geta sent Unni tölvupóst á [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira