Að geyma vín eftir að flaskan hefur verið opnuð – „Súrefni er versti óvinur vínsins“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hversu lengi geymist vín eftir að flaskan hefur verið opnuð? Gunnar Páll Rúnarsson, eða Gunni Palli eins og hann er oftast kallaður, eigandi vínbarsins Port9 veit eitt og annað um hvernig á að meðhöndla vín. Við spurðum Gunna Palla út í geymsluþol víns eftir að flaskan hefur verið opnuð.

Hvað rauðvínið varðar segir Gunni það fara eftir því hvað er búið að taka mikið úr flöskunni. Því minna sem tekið er úr henni, því minna súrefni kemst ofan í flöskuna og því betur geymist vínið.

„Ef það er t.d. búið að taka tvö glös úr flöskunni þá er slatti eftir og vínið geymist vel í tvo til þrjá daga inni í kæliskáp, að geyma vínið í kæli hægir á oxuninni. Súrefni er versti óvinur vínsins,“ segir Gunni. Hann tekur fram að tappinn verði að fara aftur á flöskuna áður en hún er sett inn í kæliskáp eða á annan svalan stað.

En hvað með hvítvínið?

„Mér finnst hvítvín geymast miklu betur, sérstaklega í dag þegar svo margar flöskur eru með skrúfutappa. Hvítvín geymist alveg leikandi í viku, átta daga í kæli eftir að flaskan hefur verið opnuð.“

„Ekki henda kampavíni þó að loftbólurnar séu farnar.“

Að sögn Gunna er mikilvægt að taka alla álhettuna af flöskustútnum þegar flaskan er opnuð.

Kampavín og freyðivín geymist í um tvo daga í kæli eftir að flaskan hefur verið opnuð að sögn Gunna. „En ekki henda kampavíni þó að loftbólurnar séu farnar, það má drekka það sem gott hvítvín.“

Spurður út í algeng mistök sem má forðast þegar kemur að víni segir Gunni: „Þegar þú ert að opna vín þá skaltu taka alla álhettuna af stútnum. Þú villt ekki að vínið komist í snertingu við ál.“

„Rósavín og áfengislaus vín,“ segir Gunni að lokum þegar hann er spurður út í tískustrauma í vínheiminum. Hann segir úrval áfengislausra vína á Íslandi ekki vera sérlega mikið en að það sé að aukast.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Svalaðu þorstanum eins og ráðherra

Umtalaður hittingur Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og vinkvenna hennar, hefur verið í brennidepli...

„Alls ekkert flókið“ að ná tökum á súrdeigsbakstri

Bakarinn Marinó Flóvent Birgisson, kallaður Majó, hefur undanfarið birt gagnleg kennslumyndbönd á YouTube þar sem hann deilir fróðleik og kennir...