Æðislegur indverskur kjúklingapottréttur með baunum og kartöflum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Þegar haustið fer að láta kræla á sér með lægðum og látum er alltaf gott að henda í einn pottrétt til að næra líkama og sál. Þessi er sérlega skemmtilegur og bragðgóður og hann er jafnvel betri daginn eftir. Það getur nefnilega verið frábært að elda stóra skammta af pottréttum og eiga daginn eftir og þá má t.d. setja réttinn í eldfast mót og láta einhver ný krydd í hann eða bera hann fram með nýju salati.

Indverskur kjúklingapottréttur
fyrir 6-8

3-4 msk. ghee eða jurtaolía
2 laukar, saxaðir
3 hvítlauksgeirar, marðir
1/3 neðri hluti af kóríanderbúnti (stilkar), fínt skornir
2 ½ msk. rifin engiferrót
1 lítil dós tómatmauk, (3 msk. tomato paste)
2 ½ tsk. garam masala-kryddblanda
2 tsk. túrmerik
2 tsk. kummin
1 tsk. kóríanderfræ, steytt
½ tsk. cayenne-pipar, má vera meira
4 kjúklingabringur, skornar í bita
1 dós kjúklingabaunir, vatnið síað frá og baunirnar skolaðar
1,5 l kjúklingasoð (2 teningar settir útí 1,5 l) eða í fernu
1 dós tómatpúrra (tomato purée)
8-10 meðalstórar kartöflur, skornar í teninga
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
ferskur kóríander, til að bera fram með
grísk jógúrt, til að bera fram með

Hitið ghee eða olíu í þykkbotna potti og steikið laukinn í nokkrar mín. eða þar til hann er orðinn glær að lit, bætið þá hvítlauknum, kóríanderstilkunum og engiferinu saman við og steikið í 1-2 mín. til viðbótar. Bætið við tómatmaukinu, garam masala, túrmerik, kummin, kóríanderfræjunum og cayennepipar og eldið í u.þ.b. 3-4 mín. eða þar til blandan er orðin dökk að lit. Bætið þá kjúklingnum saman við ásamt baununum, kartöflunum, soðinu og tómatpúrrunni og kryddið með pipar og salti. Látið blönduna malla við fremur vægan hita í u.þ.b. 1 ½ klst. eða þar til sósan hefur þykknað vel. Smakkið til með salti og pipar. Berið fram með miklu af ferskum kóríander, grískri jógúrt og hrísgrjónum. Mjög gott er að bera mango chutney fram með réttinum ásamt nan-brauði. Þennan rétt er hægt að elda tveimur dögum áður en hans er neytt og geyma ísskáp og hita svo varlega upp.

Mynd: Hákon Davíð Björnsson

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira