Áhugi Berglindar á bakstri og mat kviknaði snemma: „Matur kemur bara frá hjartanu“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Berglind Hreiðarsdóttir stofnaði uppskriftarbloggið gotteri.is fyrir sjö árum, aðallega til að auglýsa námskeið sín og setja inn einstaka uppskriftir. Síðan þá hefur vefsíðan þróast og stækkað og er í dag orðin að ævintýraheimi fyrir unnendur góðra og girnilega uppskrifta. Berglind gaf nýlega út bókina Saumklúbburinn, sem hún vann sjálf frá A til Ö, þróaði uppskriftir, eldaði og bakaði, tók ljósmyndir, auk þess að hanna og brjóta um bókina.

„Ég hugsa að áhugi á eldamennsku sé mér í blóð borinn. Ég var reyndar algjör gikkur sem barn og er það alveg enn á ákveðnum sviðum, en ég auðvitað stjórna því hvað ég útbý og set aldrei neitt í loftið nema mér þyki það gott og ég vilji deila því með öðrum,“ segir Berglind aðspurð um hvenær áhuginn á bakstri og eldamennsku byrjaði.

Berglind er rúmlega fertug, gift og þriggja barna móðir og býr fjölskyldan í Mosfellsbæ. Berglind er með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá HR og hefur unnið við mannauðsmál og verkefnastýringu í um 20 ár samhliða blogginu. „Þar til fyrir um tveimur árum þegar ég ákvað að leyfa www.gotteri.is að blómstra og verja öllum mínum tíma í bloggið og sjá hvert það myndi leiða mig.“

Berglind í eldhúsinu heima Mynd / Hallur Karlsson

En ertu búin að læra eitthvað í bakstri og/eða matseld?

„Það er nú að mestu sjálflært út frá áhuganum einum saman. Ég fór reyndar á fjölmörg kökuskreytinganámskeið þegar við bjuggum í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum, en matur kemur bara frá hjartanu. Stundum þróa ég uppskriftir alveg út í loftið, stundum fæ ég hugmyndir og innblástur frá öðrum og ég elska að endurvekja gamlar fjölskylduuppskriftir og uppskriftir frá vinum og kunningjum.“

Hún segir þó áhugann líklega hafa kviknað í uppvextinum. „Mamma var nokkuð lunkin við afmæliskökurnar hér í den,  en nú til dags bakar pabbi meira en mamma. Amma Guðrún bakaði mikið með okkur systrum, svo ætli allt þetta í bland við matreiðslukennsluna í Mýrarhúsaskóla hafi ekki verið kveikjan á þessu öllu saman.“

Uppskrift úr bókinni: Gómsæt súkkulaði ostakaka úr smiðju Berglindar Hreiðars

Sjálf hefur Berglind kveikt áhugann hjá dætrum sínum þremur, sem allar fá að aðstoða hana í eldhúsinu, eða spreyta sig sjálfar.

„Þær eru ótrúlega duglegar að baka og dúllast í eldhúsinu. Ég gef þeim svigrúm og traust til að spreyta sig og ég held að það skipti miklu máli. Eina skilyrðið er hins vegar að það þarf að ganga frá eftir sig. Sú elsta sér um kvöldmatinn einu sinni í viku og hinar aðstoða við önnur hlutverk í eldhúsinu. Sú yngsta veit ekkert skemmtilegra en að standa uppi á stól og fá að „hjálpa til.“

Áhugamál Berglindar eru fjölmörg og aðspurð um hver þau eru svarar hún: „Ég elska ferðalög, útivist, fjallgöngur, góðan mat, kökur, veislur og gæðastundir með fjölskyldu og vinum.“

Mynd úr Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

Mynd úr Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

Stofnaði uppskriftarvef eftir dvöl í Bandaríkjunum

Berglind stofnaði heimasíðuna gotteri.is í upphafi árs 2013 þegar hún og fjölskylda hennar fluttu heim frá Seattle í Bandaríkjunum. „Ég stofnaði síðuna þá aðallega til að auglýsa námskeiðin mín og setja inn uppskriftir af kökum, góðgæti og góðar veisluhugmyndir. Síðan hefur bloggið þróast á þessum sjö árum og er nú alhliða uppskriftar- og ævintýrablogg þar sem ég miðla reynslu minni af mínum helstu áhugamálum.“

Á hefðbundnum tímum heldur Berglind námskeið fyrir þá sem vilja læra að baka eða læra eitthvað nýtt í þeim geira. „Námskeiðin hafa verið afar vinsæl og hlakka ég til að geta boðið upp á slík að nýju. Það er til dæmis hægt að læra allt um smjörkremsskreytingar, „drip-kökur“, bollakökuskreytingar, kökupinna og fleira.“

Mynd úr Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

Allir geta orðið snillingar á sinn hátt

Bakstur og/eða matseld virðist vefjast fyrir mörgum, sérstaklega þegar horft er á þá sem láta þetta ekki sýnast erfiðara en að drekka vatnsglas, en geta allir lært að verða snillingar í eldhúsinu í bakstri og/eða matseld?

„Ég hugsa já að allir geti lært að vera snillingar í eldhúsinu á sinn hátt. Það eru klárlega ekki allir góðir í öllu, en allir eru góðir í einhverju, svo hvort sem það er að sjá um grillið, salatið eða fermingartertuna, þá ættu allir að geta fundið eitthvað við hæfi,“ segir Berglind.

Mynd úr Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

Mynd úr Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

Árið í ár er búið að vera skrýtið og erfitt ár fyrir marga og hefur Berglind ekki farið varhluta af því frekar en aðrir, hún segist þó hafa það fínt, en ástandið taki mest á félagslegu hliðina.

„Ég hef nú bara haft það mjög fínt miðað við marga. Allir hafa haldið heilsunni og við reynt að finna upp á einhverju skemmtilegu að gera, fara út í göngur og annað sniðugt. Þetta tekur þó auðvitað á félagslegu hliðina og ég er farin að sakna þess að geta ekki haldið veislur, knúsað alla og sleppt því að vera með grímu í búðinni. Þetta er bara verkefni sem þarf að tækla og það þýðir víst lítið annað en hoppa á vagninn og vona þessu linni sem fyrst,“ segir Berglind.

Aðspurð um hvað hún haldi að við munum læra helst af kórónuveirufaraldrinum svarar hún:  „Við eigum hugsa ég eftir að kunna betur að meta tímann með fólkinu í kringum okkur og átta okkur á því hvað skiptir máli, hverjir eru vinir í raun og í hvað okkur langar að verja tímanum okkar í þegar öllu þessu lýkur.“

Berglind segir óráðið enn hvað taki við á nýju ári, en hún muni klárlega halda áfram að gera sitt besta á gotteri.is og vonandi læra eitthvað nýtt. „Ég er nú búin að læra fjölmargt á þessu ári og er bara þannig týpa að ég þarf sífellt að fá nýjar áskoranir og að vera að fást við eitthvað skemmtilegt og krefjandi.“

Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

Bók fyrir alla sælkera

Nýlega gaf Berglind út bókina Saumaklúbburinn sem er alhliða uppskriftarbók með yfir 140 uppskriftum. Í henni eru fimm kaflar með stökum uppskriftum; salöt, ostagóðgæti, brauðmeti, matur og sætmeti. „Síðan fjallar sjötti og síðasti kafli bókarinnar um heimboð og fer ég í 10 fullbúin heimboð þar sem vinkonur mínar deila með lesendum dásamlegum uppskriftum frá sér. Það eru því í raun uppskriftir fyrir allt milli himins og jarðar í bókinni, hvort sem þú vilt góða kvöldmáltíð, snarl, ert með heimboð, saumaklúbb, áramótapartý eða hvað eina,“ segir Berglind.

Mynd úr Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

„Bókin er  sannarlega fyrir alla sælkera sem hafa áhuga á fjölbreyttum uppskriftum. Uppskriftirnar eru einfaldar og góðar svo hún hentar bæði byrjendum eða þeim sem vilja rifja upp ýmsar nostalgíu uppskriftir og annað gómsætt.“

Mynd úr Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

En af hverju að gefa út bók og það á þessum tíma beint í jólabókaflóðið, er þetta ekki alger vitleysa?

„Já ég hef alveg spurt mig að þessu nokkrum sinnum í ár!“ segir Berglind og hlær. „Það er bara eitthvað sem er svo gaman við að sjá hugmyndir sínar á prenti sem drífur mann áfram í svona vitleysu. En ég hugsa að enginn geri sér grein fyrir vinnunni sem býr þarna að baki, en síðan eru það mikil verðlaun að sjá fólk ánægt með innihaldið, mæla með bókinni við aðra og allt slíkt sem er svo skemmtilegt.“

Mynd úr Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

Hún segir að viðtökurnar við bókinni hafi farið fram úr hennar björtustu vonum, „sem er auðvitað algjörlega dásamlegt þegar maður hefur lagt svona hart að sér við eitthvað verkefni.“

Saumaklúbburinn er ekki fyrsta bók Berglindar, þó að hún sé fyrsta bókin sem hún vinnur ein frá a til ö. Í fyrra gaf hún út Veislubókin og var meðhöfundur að Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum.

„Veislubókin er nokkurs konar handbók veisluhaldarans. Þar eru gátlistar, uppskriftir, hollráð og hugmyndir fyrir mismunandi veislur og var svo sannarlega gaman, fyrir mig veislukonuna miklu að fá að skrifa slíka bók,“ segir Berglind. „Hin bókin heitir Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum en þar var ég ásamt fimm öðrum matarbloggurum fengin til að deila mínum uppáhalds uppskriftum. Er ekki máltæki sem segir „allt er þegar þrennt er“, nei ég bara segi svona,“ segir hún og hlær.

„Nei ekki eins og staðan er í dag en aldrei að segja aldrei, mér dettur víst ýmislegt í hug,“ svarar hún um hvort að hún hafi ekki spáð í að gefa út bók ekki um mat og bakstur.

En nú ertu búin að læra fjölmargt, eigum við von á bók/um á þeim sviðum? „Þú segir nokkuð, það er spurning hvort ég eigi að fara að setja niður nýársheit með djörfum markmiðum.“

Mynd úr Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

Mynd úr Saumaklúbburinn
Mynd / Berglind Hreiðarsdóttir

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira