Einföld og gómsæt eplabaka sem slær í gegn

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eplabökur eru sívinsælar enda passa epli og kanilsykur einstaklega vel saman. Þessi baka er mjög einföld í framkvæmd og tekur stuttan tíma í undirbúningi áður en hún fer í ofninn í tæpan klukkutíma og fyllir húsið af góðum epla- og kanililm. Tilvalinn helgarbakstur á köldum haustdögum.

Einföld eplabaka með hunangi

Skel:
150 g hveiti
1 msk. sykur
¼ tsk. salt
100 g smjör, skorið í teninga
½ dl nýmjólk

Hitið ofn í 200°C. Hrærið saman hveiti, sykur og salt í skál. Setjið smjörið út í hveitiblönduna og nuddið öllu saman þar til deigið minnir á grófan sand. Hitið mjólkina í litlum potti yfir lágum hita þar til hún verður volg. Hellið mjólkinni út í deigið og hrærið öllu saman með sleif. Flytjið deigið yfir í 23 cm franskt bökuform með fjarlægjanlegum botni. Dreifið vel úr því með fingrunum og þrýstið niður í botninn og upp með hliðunum. Setjið inn í kæli á meðan fyllingin er búin til.

Fylling:
3 msk. sykur
1 tsk. kanilduft
4 meðalstór epli
½ dl hunang

Hrærið saman sykur og kanil í skál og setjið til hliðar. Skrælið eplin, skerið í tvennt og skerið kjarnann úr. Leggið flötu hliðina niður og skerið hvern helming í ½ cm þunnar sneiðar. Grófsaxið helminginn af sneiðunum, veltið söxuðu eplabitunum upp úr kanilsykrinum. Takið bökuskelina úr kæli og gatið með gaffli. Hellið söxuðu eplunum ofan í bökuskelina og dreifið jafnt úr. Raðið eplasneiðunum ofan á. Hitið hunangið í litlum potti þar til það verður meira fljótandi og volgt. Sáldrið helmingnum af hunanginu yfir bökuna. Bakið í miðjum ofni í 55-60 mín. eða þar til bökuskelin er orðin fallega gyllt á litinn og eplin hafa mýkst. Látið kólna á grind, sáldrið restinni af hunanginu yfir.

Uppskrift: Nanna Teitsdóttir
Stílisti: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd: Hallur karlsson

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira