Eitt hollasta hráefni í heimi kemur úr hafinu

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sardínur eru án efa einn hollasti fiskur sem hægt er að innbyrða. Hann hefur verið veiddur í Miðjarðarhafinu frá örófi alda og er nafnið dregið af ítölsku eyjunni Sardiníu. Þessi meinholli fiskur, sem er skyldur síld, nær yfirleitt ekki meira en 2,5 cm að stærð og syndir í torfum. Sardínur eru með blágrænt bak og silfurlitar hliðar og maga.

Í Miðjarðarhafinu voru sardínur yfirleitt veiddar í myrkri í algeru logni á sléttum sjó við kyndlalýsingu en síðar voru notaðar luktir og í dag eru notuð rafmagnsljós. Sardínur er að finna víðar en í Miðjarðarhafinu. Besti veiðitíminn er yfirleitt á vorin og sumrin því þá eru sardínan feitust. Hægt er að borða hana bæði ferska og niðursoðna og þykir hún herramannsmatur á Spáni, Ítalíu og einnig í Frakklandi og Portúgal en í þessum löndum er hún oft borðuð brakandi fersk, grilluð.

Mynd: Alyssa-Li, Unsplash

Niðursoðnar sardínur eru sennilega hollasti niðursuðumatur í heimi en þær eru líka hollasti skyndibiti í heimi enda hægt að taka þær með hvert sem er og borða beint upp úr dósinni. Sardínur eru ekki bara hollar þær eru líka afar ódýrar og sérlega góðar, þó svo að sennilega séu ekki allir sammála um það enda þarf að komast upp á lagið með að borða þær en það er þess virði að æfa sig í að verða sardínuunnandi. En það er fleira sem er jákvætt við sardínur eins og að hægt sé að neyta þeirra í heilu lagi með beinum, roði, haus og sporði, sem sagt 100% nýting og engin matarsóun.

Sardínur tilheyra flokki feitra fiska og innihalda því mikið magn af omega-3 fitusýrum sem allir vita að hafa góð áhrif á heilsuna. Omega-3 fitusýrur geta lækkað slæma kólesterólið í blóðinu og þær eru einnig góðar fyrir heila og hormónastarfsemi. Sardínur eru afar auðugar af kalsíum og fosfór en bæði þessi efni eru góð fyrir tennur og bein svo dæmi sé tekið. Þessi frábæri fiskur er einnig afar auðugur af D-vítamíni sem svo marga skortir á þessum árstíma. Ein dós af niðursoðnum sardínum inniheldur u.þ.b. helminginn af ráðlögðum dagskammti D-vítamíns og að auki eru þær prótínríkar. Þess er líka vert að geta að sardínur innihalda nánast enga þungmálma eins og kvikasilfur og blý þar sem þær eru neðarlega í fæðukeðjunni.

Fyrirbærið ofurfæða eða „super food“ komst í tísku fyrir nokkrum árum en næringarfræðingar og læknar hafa bent á að engin fæða geti í raun staðið undir því en sennilega komast sardínur nokkuð nálægt því. Þá er ekkert eftir nema að setja sardínur á matseðilinn en þá vandast málið hjá sumum, hér eru því nokkrar ábendingar um hvernig hægt er að neyta sardína úr dós. Þess ber að geta að hægt er að fá þær í mismunandi útgáfum í dós, í hreinni olíu, í jómfrúarolíu með eða án sítrónusafa, í tómatsósu og í chili-olíu svo fátt eitt sé nefnt.

Borðið þær beint úr dósinni en kreistið svolítinn sítrónusafa yfir eða kaupið þær með sítrónusafa í. Setjið þær á ristað brauð með smjöri og sáldrið örlitlum sítrónusafa yfir. Setjið þær á ristað brauð með kotasælu, sítrónusafa og dilli en einnig er gott að setja nokkra dropa af tabasco-sósu yfir. Gerið sardínusalat með majónesi, svolitlum rauðlauk, agúrku og kryddi. Sardínur er frábærar í sesar-salat í stað kjúklings. Þær eru líka góðar ofan á brauð með millisoðnu eggi, kotasælu, dilli eða steinselju og pipar og salti.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira