Heit súkkulaðikaka með karamellu og ís – þessi er rosaleg

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Pottjárnspönnur eru þarfaþing í hvert eldhús enda frábærar til að ná stökkri áferð á t.d. fisk eða kjöt. Pönnurnar henta einnig vel í rétti sem eru fyrst eldaðir á hellunni og síðan kláraðir í ofni. Það er líka eitthvað notalegt við þær, gróft og heimilislegt og gjarnan má baka í þeim eins og hér er gert.

Þessi kaka er afar góð og tilvalið að vera hana fram heita í pönnunni. Auðvitað má nota venjuleg kökuform en gætið bara að bökunartímanum, hann getur verið afar mismunandi eftir stærð og gerð formanna.

Súkkulaðikaka með karamellu
fyrir 6

100 g smjör
100 g 70% súkkulaði
1 dl sykur
3 egg
1 tsk. vanilludropar
1 dl hveiti
1 tsk. lyftiduft
örlítið salt
100g súkkulaðidropar
100 g karamellur, skornar í bita
1 stór kúla vanilluís

Hitið ofn í 180°C. Bræðið saman smjör og súkkulaði og setjið til hliðar. Þeytið saman sykur, egg og vanilludropa, bætið súkkulaðiblöndunni út í. Blandið saman þurrefnum, súkkulaðidropum og karamellubitum og hrærið varlega saman við eggjablönduna. Setjið deigið í smurða pottjárnspönnu sem er u.þ.b. 22 cm í þvermál. Bakið í 25 mín. Kakan má gjarnan vera aðeins blaut í miðjunni. Látið kökuna kólna lítillega, setjið gjarnan vanilluís ofan á og berið fram. Kakan er best heit eða volg.

Uppskrift / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Óli Magg
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira