Helgarferð til Egilsstaða – Fullkominn leiðarvísir

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ferðalög Íslendinga hérlendis hafa sjaldan verið vinsælli enda hefur Ísland upp á fjölmarga frábæra möguleika að bjóða sem landinn hefur nýtt vel þegar ferðlög til útlanda eru óæskileg vegna heimsfaraldurs. Austurland er einstaklega fallegt og þar er mjög góður matur enda gnótt framúrskarandi hráefnis og flottir kostir í gistingu og afþreyingu.

Á Egilsstöðum eru nokkrir afar góðir veitingastaðir sem leggja áherslu á hráefni úr héraði þar sem nálægðin við villibráðina endurspeglast í matseðlinum. Ég var á ferðinni á Egilsstöðum með ljósmyndara fyrir skömmu til að taka púlsinn á því sem er að gerast í menningu og mat. Ég verð að segja að svæðið kom á óvart að öllu leyti og ég ætla fljótlega aftur í ævintýra- og sælkeralandið Egilsstaði. Air Iceland Connect flýgur reglulega til Egilsstaða en ferðin tekur tæpa klukkustund.

Veitingastaðir á Egilsstöðum

Nielsen veitingahús

Nielsen-húsið þekkja margir enda er það elsta hús Egilsstaða, byggt árið 1944. Þar hafa verið reknir nokkrir veitingastaðir og kaffihús í gegnum tíðina sem ég hef borðað á og get með sanni sagt að nú sé fyrst kominn toppveitingastaður í húsið, hreint frábær matur í heimsklassa.

Það er hinn kunni og virti matreiðslumaður Kári Þorsteinsson sem á staðinn ásamt eiginkonu sinni, Sólveigu Eddu Bjarnadóttur, en hún er ættuð frá Egilsstöðum. Kári var áður á veitingastaðnum Dill og einnig á einum þekktasta veitingastað heims, Noma í Kaupmannahöfn. Ekki er laust við að ákveðinna Dill-áhrifa gæti í matargerðinni, sérstaklega hvað varðar nýtingu á hráefni úr nærumhverfinu.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Veitingahúsið Nielsen á Egilsstöðum. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

„Rík áhersla er lögð á að nýta allt úr nærumhverfinu,“ segir Ýmir Kjartan Ástvaldsson, matreiðslumaður á Nielsen, sem tók á móti okkur. Hann sagði að sérlega gott væri að fá hráefni á svæðinu, bæði frá bændunum í kring og öðrum framleiðendum. „Við fáum grænmetið okkar frá Vallanesi og fiskinn frá Breiðdal og svo nýtum við ýmislegt í umhverfinu og hoppum út að tína sveppi, hvönn, rabarbara og ber.

Austurland er að okkar mati sá landshluti sem hefur upp hvað mest spennandi hráefni að bjóða, eins konar matarkista. Við breytum matseðlinum reglulega allt eftir því hvaða hráefni er ferskast hverju sinni og hér er að sjálfsögðu hreindýr á matseðli og fljótlega breytum við yfir í gæs enda villibráðatímabilið hafið.“

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Efri hæðin á veitingahúsinu Nielsen á Egilsstöðum. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Á Nielsen er hægt að fá spennandi kokteila þar sem flest innihaldsefni eru unnin frá grunni svo sem síróp og fleira. Boðið er upp á einn eðalkokteil á krana úr rabarbara, gini, sítrónu og ylliblómum en vínin á seðlinum eru góð og þjónarnir hjálplegir að para saman mat og vín.

„Austurland er að okkar mati sá landshluti sem hefur upp hvað mest spennandi hráefni að bjóða, eins konar matarkista.“

Nielsen veitingahús er hreint frábær viðbót við matsölustaðaflóruna í bænum og í raun alveg ferðarinnar virði. Ég og ljósmyndari Gestgjafans smökkuðum nokkra rétti á matseðlinum og óhætt að segja að hver hafi verið öðrum betri, sérlega eftirminnilegur var grafinn skötuselur í rabarbaramauki með furuolíu og skjaldfléttublómum og lambið á byggernaise með svörtu grænkáli, kryddbrauðraspi og gulrótarmauki en allt var gott sem við borðuðum á Nielsen.

Þess má geta að staðurinn er opinn í hádeginu en þá er einfaldur matseðill þar sem hægt er að fá ódýran eðalmat og yfir daginn er boðið upp á kaffi og með því. Ýmir bætir því við að hægt sé að panta mat og taka með heim sem hefur fallið í góðan jarðveg hjá heimamönnum. Hægt er að fá nánari upplýsingar á Facebook-síðunni Nielsen Restaurant.

Hótel Hérað

Icelandair hótel Hérað er fallegt og vel staðsett rótgróið hótel á Egilsstöðum. Árið 2013 var móttakan, barinn og veitingastaðurinn endurnýjað og gert nútímalegt og huggulegt. Laglegt hreindýr úr spýtum, verk eftir Aðalheiði Eysteinsdóttur, tekur á móti gestum þegar gengið er inn í notalega móttökuna og þar er hægt að setjast við arin og ylja sér. Sextíu nútímaleg og smekklega innréttuð herbergi eru á hótelinu og á veggjum hanga auðvitað fallegar hreindýramyndir.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Listaverk eftir Aðalheiði Eysteinsdóttur í anddyri Hótel Héraðs á Egilsstöðum. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Herbergin eru með dúk á gólfum og rúmin eru þægileg og baðherbergin eru nýuppgerð með dökkum og hlýlegum flísum og sápum frá franska vörumerkinu L´occitane. Góður setukrókur eða „lounge“ þar sem hægt er að sökkva sér ofan í mjúka stóla og sötra einn af mörgum kokteilunum sem eru í boði. Á góðviðrisdögum er hægt að sitja á svölunum fyrir aftan barinn eða tylla sér með góðan drykk fyrir framan hótelið.

Á hótelinu er metnaðarfullur matsölustaður þar sem boðið er upp á ýmsar kræsingar bæði í hádeginu og á kvöldin en stefnan í eldhúsinu er að vinna sem mest með hráefni úr héraði. Guðjón Rúnar Þorgrímsson matreiðslumeistari ræður ríkjum í eldhúsinu en hann hóf störf sumarið 2010. Guðjón lærði á Perlunni en starfaði eftir það í nokkra mánuði á Mývatni og síðan á Kanaríeyjum en hefur lengst af verið á Hótel Héraði. Hann er að austan, þó ekki frá Egilsstöðum, heldur Reyðarfirði.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Guðjón Rúnar Þorgrímsson matreiðslumeistari á Hótel Héraði. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

En hvaða áherslur eru í matargerðinni hjá Guðjóni?

„Ég legg mikið upp úr góðu hráefni frá Héraði og reyni alltaf fyrst að athuga hvort ég finni það sem ég þarf hér fyrir austan og svo vinn ég suma rétti einmitt út frá því sem er til hér. Ég legg sérstaka áherslu á austfirska villibráð og er til dæmis alltaf með hreindýrasteik og hreindýrahamborgara og núna er einnig í boði svokallað hreindýrasmakk með nokkrum mismunandi afurðum af hreindýrinu.

Um miðjan nóvember hefst svo jólahlaðborðið okkar en þar er eðlilega mikil áhersla á villibráð sem nóg er af hér fyrir austan. Þar mun ég bjóða upp á bæði reyktar og grafnar gæsir, gæsasúpu með austfirskum sveppum, svartfugl, dádýr, alls konar hreindýrarétti, eins og bollur, lifur og hjarta og fleira, nú og svo býð ég eðlilega upp á lax. Ég hef líka verið að leika mér með að reykja kengúru en það vakti lukku í fyrra. Ég reyni að hafa mikið úrval af forréttum enda eru þeir alltaf vinsælastir.“

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Reykt hreindýrahjarta með grænmeti og fersku wasabi á Hótel Héraði. Mynd/Ragnhiludr Aðalsteinsdóttir

Guðjón er ekki lengi að svara þegar hann er spurður út í matreiðsluaðferðirnar á villibráðinni sem hann segir að séu í raun fjölbreyttar.

„Ég hef gert alls konar í gegnum tíðina, til dæmis er franskt paté alltaf vinsælt en núna er ég að prófa japanskt „tataki“ og svo er reykta hreindýrshjartað mjög vinsælt en ég byrjaði að gera það fyrir mörgum árum. Það er eiginlega eitt það vinsælasta á jólahlaðborðinu og fólk talar um að það standi upp úr. Ég býð einnig upp á tvíreykt hangikjöt, pylsur og osta, suma frá Fjóshorninu hér á Egilsstöðum, svo vinn ég líka með bygg frá Vallanesi og auðvitað er ég með fullt af salötum. Ég reyni eins og ég get að vinna með framleiðendum á svæðinu enda er af nægu að taka. Í túnfætinum hér á Egilsstöðum er ræktað wasabi sem ég nota mikið enda frábært hráefni og afar ferskt. Eftirréttirnir eru innblásnir af svæðinu og til dæmis er ég með skyrköku með skyri frá Fjóshorninu, svo fátt eitt sé nefnt. „Crème brûlée“ er vinsælt og þar hef ég til dæmis boðið upp á fjallagrasa-crème brûlée sem hefur verið vinsælt.“

„Ég reyni eins og ég get að vinna með framleiðendum á svæðinu enda er af nægu að taka.“

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Veitingahúsin á Egilsstöðun nota ekta wasabi sem ræktað er á Fljótsdalshéraði af fyrirtækinu Nordic wasabi. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Eftir að hafa spjallað við Guðjón erum við, ég og Ragga ljósmyndari, farnar að slefa og við hlökkum til að smakka á einhverjum af kræsingunum hans Guðjóns sem við þökkum vel fyrir spjallið og matinn sem var hreint lostæti og áhætt að mæla með.

Askur Taproom og Askur Pizzeria

Handverksbrugghús hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár en eitt slíkt var opnað árið 2017 á Egilsstöðum og kallast Austri. Brugghúsið er inn af skemmtilegum bjórbar sem nefnist Askur Taproom og það er einmitt þar sem gestir geta fengið að smakka hinn austfirska mjöð. Einnig er rekinn pítsustaður í rýminu við hliðina undir nafninu Askur Pizzeria en það eru þeir Friðrik Bjartur Magnússon og Páll Edwald sem eiga pítsustaðinn og bjórbarinn en Jón Vigfússon er rekstrarstjóri á öllum þremur einingunum. Nú hefur Unnur Borgþórsdóttir bæst í eigendahópinn.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Friðrik Bjartur Magnússon og Jón Vigfússon hjá Aski Taproom og Aski Pizzeria. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Pítsustaðurinn er nýjasta viðbótin en hann opnaði í apríl á síðasta ári en barinn opnaði árið 2018. Friðrik segir að unnið sé út frá staðbundnum hráefnum eins og hægt er bæði í bjórgerðinni og í pítsunum og nefnir að einn vinsælasti bjórinn þeirra, Skessa, sé IPA-bjór með wasabi-rót sem ræktuð sé í gróðurhúsi rétt fyrir utan bæinn en einnig nefnir hann að þeir bruggi bjór eftir sérpöntunum frá fyrirtækjunum í kring.

„Við erum með átta kranabjóra og alltaf með eina gestadælu, þar sem við bjóðum upp á handverksbjór frá öðrum framleiðendum, en við erum líka með flöskubjór. Í heildina bruggum við um 20 tegundir af bjór.“

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Pítsa og bjór hjá Aski Pizzeria er gott kombó. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Þegar Friðrik og Jón eru spurðir um ástæðuna fyrir því að opna pítsustað í sama húsnæði glotta þeir og segja að fátt sé betra en góður bjór og pítsa.

Pítsurnar eru allar með súrdeigsbotni og þær eru eldaðar í eldofni sem var sérinnfluttur frá Ítalíu og í hann er notað birki úr héraði. Austfirska hráefnið er ekki langt undan því ein pítsan á seðlinum hjá þeim er með heiðargæsahakki og einnig nota þeir fetaostinn Gelli sem er búinn til á Egilsstöðum. Jón bætir við að þeir hafi fengið sérstakt chili-félag sem starfrækt er í bænum til að hanna eina verulega sterka pítsu en að þeirra sögn er hún fyrir lengra komna og kallast B.O.B.A. sem er vísun í ákveðinn dægurlagatexta sem margir þekkja en allar pítsurnar bera nöfn íslenskra dægurlaga.

Hægt er að fara í kynningu um brugghúsið sem endar svo með smakki þar sem mismunandi tegundir og bjórar eru smakkaðir en ýmislegt fleira fer fram á barnum eins og spurningakeppnir, karaókí og um helgar er stundum lifandi tónlist eða plötusnúður. Hægt er að fá nánari upplýsingar um staðinn og starfsemina á Facebook-síðunni þeirra, Askur Taproom.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Bjórsmakkið hjá Aski Taproom er vinsælt. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Bókakaffi – kræsingar á kökuhlaðborði

Eitt af því notalegasta sem hægt er að gera á Egilsstöðum er að fara í kökuhlaðborð á Bókakaffi en þar var áður rekin bókabúð og ber kaffihúsið þess glöggt merki því enn er hægt að næla sér í nokkrar bækur, hvort sem er gamlar eða nýjar.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Hlýlegt andrúmsloft er á Bókakaffi í Fellabæ. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

En það eru kökurnar sem laða okkur að kaffihúsinu en á hverjum föstudegi er boðið upp á sannkallaðar kökukræsingar. Alltaf eru tíu sortir í boði, oftast einn eða tveir ósætir réttir eins og brauðterta og heitur réttur en hinar átta sortirnar eru dásamlegar kökur. Þegar okkur á Gestgjafanum bar að garði svignaði hreinlega borðið undan fallegum og fjölbreyttum kökum. Fast verð er fyrir hlaðborðið en hver og einn getur fengið sér kaffi og með því eins og magamál leyfir.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Kökuhlaðborðin á Bókakaffi í Fellabæ eru afar vinsæl. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Skemmtileg stemning myndaðist og þótt kökuhlaðborðið byrjaði ekki fyrr en þrjú var nánast orðið fullt hús fljótlega upp úr tvö. Fastagestir, nokkrar hressar konur á besta aldri, létu sig ekki vanta og sátu og prjónuðu í notalegum stólum innan um bækurnar. Þarna var afslappað andrúmsloft og mikið hlegið og gantast og fólk við eitt borð spjallaði við fólkið á næsta borði.

Kökuhlaðborð á Bókakaffi ætti að vera skylda fyrir alla sem heimsækja svæðið og endilega setjist hjá konunum í horninu og ræðið við þær. Það er svo yndislegt að hitta fólk og spjalla, eitthvað svo íslenskt. Þess má geta að Bókakaffi er opið alla daga vikunnar nema sunnudaga og í hádeginu á miðvikudögum eru íslenskar kótelettur í raspi ávallt á boðstólum og njóta þær mikilla vinsælda hjá heimamönnum.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Á Bókakaffi í Fellabæ er enginn bolli eins og fólk velur sér drykkjarmál eftir persónuleika. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Fleiri áhugaverðir og góðir staðir á Egilsstöðum sem við náðum ekki að heimsækja í þessari ferð

Hótel Valaskjálf og Glóð Restaurant & bar
Hótel Valaskjálf er staðsett á rólegum stað ofarlega í bænum en þar er bæði hægt að gista og borða en nýlega var opnaður veitingastaðurinn Glóð Restaurant & bar þar sem hægt er að fá fjölbreyttan ítalskan mat og drykki en staðurinn hefur notið nokkurra vinsælda og er skemmtileg viðbót í veitingastaðaflóruna á Egilsstöðum. Hægt er að fá nánari upplýsingar um hótelið og veitingastaðinn á vefsíðunni valaskjalf.is.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Salt café & bistro

Þennan veitingastað þekkja eflaust margir enda er hann í miðbænum og þar er hægt að fá bæði kaffi og fjölbreyttar veitingar. Lögð er áhersla á heilsusamlega rétti og að auki rétti frá Indlandi og Ítalíu. Nánari upplýsingar á vefsíðunni saltbistro.is.

Tehúsið

Tehúsið er vinsælt meðal heimamanna en þar er rekið hostel, kaffihús og bar. Í hádeginu er hægt að fá góðar súpur og kaffihúsamat sem gerður er frá grunni á staðnum og verðið er sanngjarnt. Á kvöldin breytist staðurinn í eins konar pöbb þar sem hægt er að borða, drekka, spjalla og oft er lifandi tónlist. Sjá nánar á vefsíðunni þeirra, tehusidhostel.is.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Tehúsið – café, bar, hostel Egilsstöðum. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Gistihúsið Egilsstöðum, hótel og matsölustaður

Gistihúsið er hótel með sál sem stendur á fallegum stað niðri við Lagarfjótið á gamla Egilsstaðabýlinu sem er eitt helsta kennileiti bæjarins. Þar er hægt að gista, ganga niðri við vatnið, fara í dásamlegt spa og hægt er að leigja gönguskíði á hótelinu og renna sér á gönguskíðabraut yfir vetrartímann.

Á hótelinu er afar góður veitingastaður sem er vinsæll meðal heimamanna og ferðafólks. Þar er unnið með fjölbreytt hráefni úr héraði á skapandi og skemmtilegan hátt. Sjá nánar á vefsíðunni lakehotel.is.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Gistihúsið á Egilsstöðum. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Þetta er gaman að gera á Egilsstöðum

Sláturhúsið

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs er í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Skemmtilegt nafn á menningarsetri Fljótsdalshéraðs en ástæðan er einmitt sú að í húsinu var til margra ára rekið sláturhús og raunar var það byggt sem slíkt. Það er Ragnhildur Ásvaldsdóttir sem er forstöðumaður og segir hún að í húsinu fari fram fjölbreytt menningarstarfsemi. Þegar okkur bar að garði var einkar áhugaverð sýning fyrir börn í einu sýningarýminu. Þarna eru leik- og danssýningar ásamt myndlistarsýningum og tónleikum en einnig geta heimamenn sótt ýmis námskeið.

Á hverjum vetri er unnið með ljós í stórum glugga í fremsta rýminu sem sést vel utan frá húsinu svo allir bæjarbúar og gestir geta notið. Húsið er opið frá 11-16 virka daga og á laugardögum, sjá nánar um opnunartíma og dagskrá á Facebook-síðunni Sláturhúsið Menningarsetur.

Minjasafn Austurlands

Alltaf er gaman að brjóta upp daginn og bæta við sig smávegis þekkingu. Minjasöfn geyma menningarlega fjársjóði sem gaman er að skoða og þau eru oft auðveld yfirferðar og þægileg. Á Minjasafni Austurlands er áhugaverð sýning um hreindýr þar sem farið er yfir sögu þessara fallegu dýra en einnig er fjallað um náttúruna, veiðar og nýtingu afurðanna. Á safninu er að auki sýning um sjálfbærni íslenskra heimila hér áður fyrr og þar er að finna áhugaverða gripi og áhöld sem tilheyra gamla sveitasamfélaginu. Nánari upplýsingar um safnið eru á vefsíðunni þeirra, minjasafn.is.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Minjasafnið á Egilsstöðum er með skemmtilegar og fróðlegar sýningar. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Silfurstökkið

Hinum megin við götuna hjá Minjasafninu er að finna áhugaverðan minnisvarða sem sýnir þrístökkið sem Vilhjálmur Einarsson stökk á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956 en hann lenti í öðru sæti og hreppti silfrið sem eftirminnilegt er. Skemmtilegt er að prófa að setja sig spor Vilhjálms og reyna að máta sig við stökkið sem var 16,25 m, gangi ykkur vel.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Silfurstökkið er skemmtilegt listaverk við íþróttavöllinn Vilhjálmsvöll á Egilsstöðum en verkið sýnir lengd þrístökksins sem Vilhjálmur Einarsson stökk í Melbourne í Ástralíu árið 1956 þegar hann vann til silfurverðlauna á Olympíuleikunum. Stökkið er 16.25 m að lengd og gaman að reyna að leika það eftir. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Gönguferð að Fardagafossi

Hægt er að fara á bakvið Fardagafoss þegar lítið er í ánni en farið að öllu með gát. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Í öllum helgarferðum er gaman að hreyfa sig, sér í lagi þegar ætlunin er að borða mikið eins og menn gera eflaust þegar Egilsstaðir eru sóttir heim. Ein af vinsælustu göngunum á Egilsstöðum er Fardagafossgangan. Ekið er áleiðis til Seyðisfjarðar og rétt áður en haldið er á Fjarðarheiði er bílastæði á hægri hönd. Þaðan er gengið upp með ánni og að fossinum en gangan, fram og til baka, tekur u.þ.b. klukkustund.

Hægt er að fara ofan í gilið en keðja er til að styðja sig við og einnig er skemmtilegt að fara á bak við fossinn sem er hægt ef ekki er mikið ánni.

Vök Baths

Allir sem heimsækja Egilsstaði ættu að koma við í Vök baths, bæði til að borða og baða sig. Böðin voru opnuð þann 26. júlí 2019 og óhætt að segja að þau hafi fengið góðar viðtökur bæði hjá gestkomandi og heimamönnum. Böðin eru í Urriðavatni sem er í um það bil 5 kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum en notast er við heitt vatn úr borholum í vatninu. Þetta heita vatn er það eina á landinu sem er hreint og hæft til drykkjar. Nafnið Vök er dregið af náttúrulegum vökum sem eru í vatninu en baðgestir geta tekið sundsprett í Urriðavatni sem ku ekki vera svo kalt en föruneyti Gestgjafans kaus að liggja frekar í heitu böðunum og njóta hins dásamlega útsýnis í allar áttir.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Vök Baths hefur heldur betur slegið í gegn. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Öll aðstaðan og hönnunin á húsakynnunum Vök baths er einstaklega vel heppnuð og falleg. Baðgestir geta valið á milli þriggja lauga, ein er með fallegum steinum og steyptum borðum en hún er við húsið sjálft og þar er bar svo hægt er að fá sér drykk á meðan heitt vatnið leikur við líkamann.

Tvær misheitar laugar eru svo úti í vatninu á eins konar flotbryggju og þar er hreinlega unaðslegt að vera enda útsýnið fallegt og baðgestir fá á tilfinninguna að vera í vatninu sjálfu. Þegar rökkva tekur er kveikt á kertum en þó ekki of mörgum því gestir eiga að geta horft til himins þegar stjörnubjart er. Þegar hungrið kallar er tilvalið að koma sér upp úr og fara á veitingastaðinn sem býður upp á ýmsar kræsingar frá Héraði en þar ræður Gróa Kristín Bjarnadóttir matreiðslumaður ríkjum.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Gróa Kristín Bjarnadóttir og Bryndís Hjálmarsdóttir matreiðslumenn í Vök Baths. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Á matsölustaðnum er útsýni yfir vatnið og hluta lauganna sem augljóst er að gestir nýta sér enda sátu flestir við gluggann þegar okkur bar að garði. Gróa segir að alltaf sé boðið upp á tvær súpur í hádeginu með heimagerðu brauði og ýmsu viðbiti sem hún og aðstoðarkokkur hennar, Bryndís Hjálmarsdóttir, geri af alúð. „Við vinnum okkar matseðil út frá nærumhverfinu og árstíðum, þannig að núna geri ég súpur þar sem rótargrænmeti er í aðalhlutverki.

Hér í kringum okkur er hægt að fá mikið af góðu hráefni eins og frá Vallanesi og Fjóshorninu og svo er Nordic Wasabi hér í túnfætinum sem ég nýti mér. Hér er líka mikið um gæðavillibráð sem ég nýti mér að sjálfsögðu. Við vinnum einnig með vatnið hér og þegar baðgestirnir koma upp úr, erum við með tebar þar sem hægt er velja sér jurtir héðan úr Héraði og blanda við heita vatnið sem er á krana og kemur beint úr vatninu. Baðgestir nýta sér þetta vel og njóta þess að setjast og horfa út á vatnið á meðan heilnæmt teið er sötrað.“

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Gott er að gæða sér á tapasréttum og bjór úr héraði eftir heimsókn í Vök Baths. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Veitingastaðurinn er notalegur og innréttingarnar eru úr grófum náttúrulegum spýtum og grænar plöntur setja einnig hlýlegan svip á umhverfið. Hægt er að sitja úti á góðviðrisdögum og sötra góðan drykk hvort sem er kaffi, bjór eða annað og njóta útsýnis.

„Við erum með tvo bjóra á krana sem við létum brugga sérstaklega fyrir okkur með vatninu í Urriðavatni og þá er bara hægt að fá hér. Þeir heita Vökvi og Vaka og eru bruggaðir af brugghúsinu Austra á Egilsstöðum. Bjórinn hefur verið vinsæll með léttu réttunum sem við bjóðum upp á en við leggjum einmitt áherslu á smáréttaplatta og aðra létta rétti eins og hnetur sem renna ljúflega niður með bjórnum. Ég hugsa þetta svolítið þannig að fólk geti komið hingað og notið baðanna, fengið sér smárétti eða forrétti með góðum drykk áður en farið er út að borða. Það sem ég er að vinna með á plöttunum núna er anísgrafið lamb, grafin gæs með rósmarín, rauðrófugló frá Vallarnesi og osturinn Gellir sem er frá Fjóshorninu,“ segir Gróa um leið og hún færir mér góðan expressóbolla sem ég drekk um leið og ég sporðrenni góðri köku sem Gróa og Bryndís hafa bakað en allt bakkelsið er gert frá grunni.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Baðferð í Vök Baths er ævintýri líkust og gaman að geta synt í Urriðavatninu milli þess sem legið er í pottunum. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Hús handanna

Í þjónustukjarnanum Níunni, sem er við hliðina á Icelandair hótel Héraði er upplýsingamiðstöð ferðamanna fyrir Austurland og sniðug handverksbúð sem heitir því skemmtilega nafni Hús handanna. Þar eru seldar ýmsar íslenskar kræsingar og listaverk bæði frá Héraði og víðar.

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Úrval af handverki úr Héraði sem fæst í Húsi Handanna á Egilsstöðum. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Menning, matur og afþreying á Egilsstöðum
Í Húsi handanna má kaupa ýmislegt góðgæti sem framleitt er á Austurlandi. Mynd/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Hér er stiklað á stóru og ég afmarkaði mig við Egilsstaði sem slíka en allt í kring eru ótal spennandi náttúruperlur, veitinga- og gististaðir sem hægt er að heimsækja. Stuðlagilið fræga er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Egilsstöðum og það sama má segja um Borgarfjörð eystri.

Seyðisfjörður er í 25 mínútna akstursfjarlægð, það tekur um 40 mínútur að aka í Óbyggðasetrið í Fljótsdal og svona mætti lengi telja. Nánari upplýsingar um allt sem svæðið hefur upp á að bjóða er á heimasíðunni Visit Egilsstaðir. Margar flottar gönguleiðiðir eru á svæðinu sem hafa verið teknar saman undir nafninu Perlur Fljótsdalshéraðs, smellið hér til að fá nánari upplýsingar um þær.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira