Hrefna Sætran snýr vörn í sókn

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Í næsta mánuði geta sælkerar tekið gleði sína á ný því þá hyggjast eigendur Fiskmarkaðarins auka opnunartíma staðarins. Fiskmarkaðnum var lokað í fyrri bylgju kórónuveirufaraldursins, eins og kunnugt er, en líf er nú farið að færast í staðinn á nýjan leik.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu. Við erum þegar búin að gera nokkrar breytingar sem eru farnar að vekja athygli. Þannig að við getum eiginlega ekki beðið eftir að fleiri fái að upplifa þær,“ segir Hrefna Rósa Sætran, matreiðslumeistari, sem stefnir á að auka opnunartíma staðar síns Fiskmarkaðarins í næsta mánuði.

Veitingastaðurinn opnaði árið 2007 og hefur notið mikilla vinsælda allar götur síðan, en eins og kunnugt er var honum og Grillmarkaðnum, sem Hrefna Rósa hefur líka verið meðeigandi að frá stofnun 2011, lokað þegar kórónuveirafaraldurinn skall á fyrr á árinu. „Við lokuðum í fyrri bylgjunni af faraldrinum. Lokuðum þá báðum stöðum en ákváðum svo að opna þá saman í húsnæði Grillmarkaðarins í Austurstræti þar sem sá staður er rúmbetri en Fiskmarkaðurinn. Auk þess fannst okkur skynsamlegra að opna á einum stað með það fyrir augum að lágmarka fastan kostnað. Þetta var þó alltaf hugsað sem tímabundin lausn.“

Að sögn Hrefnu eru nú um þrjár vikur síðan Fiskmarkaðurinn var opnaður aftur í húsakynnum sínum að Aðalastræti 12. „Þar hefur áhrif hvað fólk, bæði nýir og gamlir viðskiptavinir hafa verið ánægðir með matseðilinn og matinn. Við fórum rólega af stað með hann svona í hálfgerðu tilraunaskyni inni á Grillmarkaðnum og héldum því áfram af því það gekk svo vel. Og í ljósi þess finnst okkur tímabært að auka opnunartímann,“ segir hún. Hingað til hefur Fiskmarkaðurinn verið hafður opinn á kvöldin, þriðjudaga til laugardaga, en með breytingunni kemur hann líka til með að vera opinn í hádeginu tiltekna daga vikunnar.

„Fólk er að leitast eftir ákveðnum léttleika í lífinu, skiljanlega í ljósi alls sem er í gangi, og við ætlum að reyna að koma til móts við það.“

Spurð hvort einhverra breytinga sé að vænta á matseðli kinkar Hrefna kolli og brosir. „Já, við byrjuðum að móta nýjan matseðilm þegar staðurinn var inni á Grillmarkaðnum. Erum til dæmis búin að gera túnfisk tacco og nýja gerð af sushi. Hvort tveggja er mjög vinsælt og kemur til með að verða í boði í hádeginu.” Og það eru ekki einu breytingarnar, því Hrefna Rósa segir að staðurinn sjálfur sé búin að fá létta andlitslyftingu. „Hann er í raun allur léttari, bæði matseðillinn og staðurinn sjálfur, fólk er að leitast eftir ákveðnum léttleika í lífinu, skiljanlega í ljósi alls sem er í gangi, og við ætlum að reyna að koma til móts við það.“

Hrefna Rósa viðurkennir að vissulega eigi veitingabransinn undir högg að sækja vegna áhrifa COVID-19 faraldursins og hún segir að einmitt þess vegna ætli eigendur staðarins sér að fara varlega í sakirnar og hafa hann eingöngu opinn í hádeginu miðvikudaga, fimmtudaga og föstudaga  – alla vega til að byrja með. „Svo eru allskonar áskorarnir sem við stöndum frammi fyrir,“ segir hún, „og ein sú stærsta núna er tveggja metra reglan sem gerir að verkum að við getum ekki verið með sama gestafjölda og áður. Að sjálfsögðu fylgjum við henni og tilmælum yfirvalda en það verður ekki framhjá því litið að þetta er erfitt fyrir reksturinn.“

Hvað sem því líður kveðst hún vera bjarstýn. „Ég hef trú á þessu og held að staðurinn verði opinn til frambúðar þessa daga sem um ræðir, bæði í hádeginu og á kvöldin. Þetta eru auðvitað skrítnir tímar og þeir eru erfiðir fyrir marga en ég ætla að halda í bjartsýnina. Mér finnst það skipta máli á þessari stundu og eins að muna að standa saman, því við erum öll saman í þessu. Þannig komumst við út úr þessu.“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira