Bouquet garni er einskonar kryddvöndur því í honum eru nokkrar kryddgreinar bundnar saman í knippi sem fjarlægt er áður en matarins er neytt. Hægt er að nota ýmsar kryddjurtir í bouquet garni en alltaf er lárviðarlauf og tímían hluti af vendinum og mjög algengt er einnig að notuð sé steinselja. Best er að nota vöndinn í súpur, soð og pottrétti af ýmsum gerðum.
Bouquet garni-uppskrift
3 tímíangreinar
2 lárviðarlauf
3 basilíkulauf eða steinseljustilkar
piparkorn
grisja, fæst í apótekum
eldhúsgarn
Búið til vönd úr öllum kryddjurtunum, bindið vel saman og pakkið inn í grisjuna, bindið svo grisjuna saman. Tilvalið er að búa til nokkra vendi í lok sumars til að nýta kryddjurtirnar því hægt er að þurrka bouquet-garni og nota yfir veturinn.