Rúnar Pierre Heriveaux er án efa einn af efnilegustu matreiðslumönnum landsins um þessar mundir enda metnaðarfullur og framsýnn með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur ferðast víða og unnið á fjölda erlendra veitingastaða sem margir hverjir státa af Michelin-stjörnum.
Um þessar mundir starfar Rúnar á veitingastaðnum Sjálandi en það er nýr og flottur staður sem opnaði í Garðabæ í vor. Við tókum þennan hæfileikaríka matreiðslumann tali á dögunum og viðtalið má lesa í jólablaði Gestgjafans.
Rúnar steig sín fyrstu spor í veitingaheiminum ungur að aldri en hann var að vinna á veitingastöðum fyrir vestan þegar hann var unglingur en hann er frá Súðavík og á reyndar einnig ættir að rekja til Haiti í Karíbahafinu.
„Ég var brjálaður út í hana enda hafði ég engan áhuga á mat.“
„Ég var að vinna á veitingastöðum þegar ég var unglingur og mömmu fannst ég skemmta mér allt of mikið og neyddi mig eiginlega út í þetta. Ég var brjálaður út í hana enda hafði ég engan áhuga á mat. Ég fór suður og þekkti Inga sem var að vinna á veitingastaðnum Lava í Bláa lóninu og komst þar á samning en þá var ég 19 ára. Þarna kynntist ég matreiðslumanninum Viktori Erni Andréssyni og það má eiginlega segja að hann hafi tuskað mig svolítið til. Þótt ég hefði kannski ekki mikinn áhuga á matargerð þarna þá fannst mér gott að vinna og vera í ramma, aginn hentaði mér vel,“ segir Rúnar meðal annars.
Við báðum Rúnar svo auðvitað um að elda fyrir okkur tvo rétti og lesendur geta nálgast uppskriftirnar í jólablaðinu.