Nautakjötspottréttur í búrgundarvíni – brjálæðislega bragðgóður

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hvað er notalegra á köldum haustkvöldum en að finna ilminn af ljúffengum pottrétti liðast um heimilið? Pottréttir eru einkar þægilegur og góður matur og hér er uppskrift að einum sjúklega góðum rétti.

Nautkjötspottréttur í Búrgúndarvíni
fyrir 6

2 msk. olía
100 g beikon, skorið gróft
1 kg nautagúllas
2 msk. hveiti
1 laukur, þunnt sneiddur
3 gulrætur, skornar gróft
4 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 stjörnuanís
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
5 dl rauðvín, helst Búrgúndarvín
3 dl nauta- eða kjúklingasoð
2 msk. tómatpúrra
1 lárviðarlauf
3-4 ferskar tímíangreinar
u.þ.b. 8 skalotlaukar
1 msk. smjör
1 msk. sykur
1-2 dl vatn
u.þ.b. 10 litlir sveppir
1-2 msk. smjör

Hitið olíu í potti og steikið beikon þar til það er stökkt. Veiðið beikonbitana upp úr fitunni og setjið til hliðar. Steikið nautagúllas þar til það er fallega brúnað. Gætið þess að steikja það í nokkrum skömmtum svo að það brúnist fallega í stað þess að soðna. Setjið brúnað kjötið saman við beikonið í skál og stráið hveitinu yfir og blandið vel. Steikið því næst lauk, gulrætur og hvítlauk ásamt stjörnuanís.

Bætið við olíu ef þarf. Eins er gott að setja svolítið vatn í pottinn til þess að ná því sem gjarnan vill festast í botninum. Bætið kjötinu aftur í pottinn og steikið í nokkrar mín. Setjið þá rauðvín, soð, tómatpúrru, lárviðarlauf og tímíangreinar út í og látið malla undir loki á vægum hita í 1 ½ klst.

Bragðbætið með salti og pipar eins og þarf. Setjið skalotlauka í pott ásamt smjöri, sykri og nægilegu vatni til þess að rétt flæði yfir þá. Sjóðið í u.þ.b. 20 mín. eða þar til þeir eru orðnir mjúkir í gegn (þetta getur tekið lengri eða styttri tíma eftir stærð laukanna). Steikið sveppi upp úr smjöri á pönnu. Þegar pottrétturinn er tilbúinn er skalotlauknum og sveppunum bætt út í. Berið fram með góðu brauði og t.d. kartöflumús.

Athugið: Yfirleitt er byrjað á því að brúna grænmeti og kjöt í potti og síðan er pottrétturinn látinn malla á vægum hita. Þetta er hægt að gera á eldavélarhellunni en það er mjög þægilegt að láta pottrétti malla í ofni á 180°-200 °C. Þá er nauðsynlegt að nota potta sem þola að fara inn í ofn.

Hafið hugfast: Ekki missa kjarkinn þótt hráefnislistinn í uppskriftinni sé stundum langur, eldunin er yfirleitt einföld og oft er bara notaður einn pottur.
Gott er að hafa í huga að því lengur sem pottréttir fá að malla við vægan hita, því betri verða þeir.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir og Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -