Síðan fyrsti óhefðbundni saltfiskrétturinn minn sló í gegn fyrir hartnær þrjátíu árum hef ég prófað mig áfram með þetta hráefni og möguleikarnir eru óendanlegir. Í dag nota ég oftast útvatnaðan fisk og eins og hér, hnakkastykki.
Saltfiskur með paprikusósu
fyrir 4
800 g saltfiskur, helst hnakkastykki
2 tsk. steinselja, þurrkuð
nýmalaður svartur pipar
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
Paprikusósa
1 rauð paprika, skorin í bita
1 appelsínugul paprika, skorin í bita
1 skalotlaukur, afhýddur og skorinn í bita
½-1 msk. kjúklingasoð (Fond frá Oscar) eða vatn og teningur
2 tsk. sykur
1 tsk. hvítvínsedik
½ tsk. cayenne-pipar
salt og pipar
Hitið olíu í potti og steikið papriku og lauk í nokkrar mínútur. Gætið þess að það brenni ekki. Bætið þá kjúklingasoði, sykri, ediki og cayenne-pipar út í og saltið og piprið. Blandið öllu vel saman og látið krauma á vægum hita í 15-20 mín. Takið þá af hellunni og látið kólna örlítið. Maukið með töfrasprota eða setjið í matvinnsluvél.
Hitið ofninn í 170°C. Þerrið saltfiskbitana og kryddið því næst með steinselju, pipar og hvítlauk. Látið í eldfast mót og steikið í ofni í u.þ.b. 15 mín. (fer eftir þykkt bitanna). Berið fram með kartöflumús og paprikusósunni.
Saltfisksalat
Hér er fiskurinn ,,eldaður“ í límónusafa með því að láta hann liggja í safanum í nokkrar klst. Réttur sem getur verið hvort sem er forréttur, smáréttur eða aðalréttur með góðu brauði.
fyrir 4
300 g saltfiskur, hnakkastykki, roðhreinsaður og skorinn í smáa bita
3 límónur, safinn
1 appelsína, skræld og skorin í sneiðar
2 msk. olía
svartur pipar, eftir smekk
1 lárpera, steinhreinsuð, skræld og skorin í bita
2 msk. svartar ólífur, grófsaxaðar
fersk kóríander, saxað
Appelsínu-aioli
2 dl majónes
1 hvítlauksgeiri, smátt saxaður
2 msk. appelsínusafi, nýkreistur
nokkur blöð basilíka, söxuð
svartur pipar
1 tsk. rifinn börkur af appelsínu
Blandið öllu saman í skál. Skreytið með appelsínuberki og basilíku.
Setjið saltfiskbitana í skál ásamt límónusafa, appelsínubitum og olíu. Kryddið með svörtum pipar. Blandið varlega saman og kælið í nokkrar klst. Bætið þá lárperu og ólífum út í og blandið saman. Stráið að síðustu fersku kóríander yfir og berið fram með appelsínu-aioli og snittubrauði.
Saltfisk-taco
Réttur sem gæti fengið þá sem ekki borða saltfisk til að prófa.
fyrir 4
olía
300 g saltfiskur, roðhreinsaður og skorinn í hæfilega bita
brauðrasp
Hitið olíu á pönnu. Veltið bitunum upp úr brauðmylsnu og steikið í olíu á pönnu á öllum hliðum þar til bitarnir eru orðnir gullinbrúnir. Takið af pönnunni og látið renna af þeim á eldhúspappír.
Sósa
2 dl majónes
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1-2 msk. sítrónusafi
¼ tsk. cayenne-pipar
ferskt kóríander, saxað (eða basilíka)
Blandið öllu vel saman í skál og kælið.
4-6 taco-skeljar
kínakál, saxað
2 plómutómatar, smátt saxaðir
2 lárperur, skrældar, steinhreinsaðar og skornar í bita
kóríander, saxað
Raðið í skeljarnar eftir smekk. T.d. kínakál, sósa, tómatar, lárpera, sósa, fiskur, kóríander.
Umsjón / Guðrún Hrund
Myndir / Aldís Pálsdóttir