Djarfir blómapottar seljast eins og heitar lummur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Verslunareigandi nokkur í Reykjavík hefur ekki undan við að selja blómapotta sem líkjast brjóstum, rössum og öðrum „viðkvæmum“ líkamshlutum. Hönnuðurinn bjóst ekki við svona góðri sölu á Íslandi og er himinlifandi með viðtökurnar.

Elín Bríta rekur LAUUF, sem er vefverslun og verlsun með áherslu á sérvaldar gæðavörur frá Bandaríkjunum og víðar. LAUUF er að finna á slóðinni www.lauuf.com og í Sambúðinni, sem er samvinnuverslun fimm vefverslana, sem opnar innan skamms í Síðumúla 11. Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Það hefur mikil eftirspurn eftir þeim, ég er búin að selja alveg fullt,“ segir Elín Bríta, vöruhönnuður og eigandi verslunarinnar LAUUF, um blómapotta sem hafa selst eins og heitar lummur í búðinni. Um er að ræða blómapotta sem líkjast ýmsum líkamspörtum, brjóstum, rössum og typpum í nokkrum litaafbrigðum.

Blómapottarnir eru úr vörulínunni Nude sem er hönnuð í keramíkstúdíóinu Group Partner í Brooklyn, í New York og framleidd í takmörkuðu upplagi. „Ég rambaði á stúdíóið þegar ég bjó þar sjálf á árunum 2016 – 2017,“ segir Elín Bríta. „Við maðurinn minn vorum bæði að vinna þar, ég vann sjálfstætt við að innrétta skrifstofur, en ég er með BA-gráðu í vönnuhönnun úr Listaháskóla Íslands. Meðan við bjuggum úti var ég dugleg að skoða mig um og rakst þá á þessa skemmtilegu potta og hugsaði strax með mér að þetta væri nú eitthvað sem Íslendingar myndu fíla. Og það reyndist rétt. Þeir hafa heldur betur slegið í gegn.“

„Fyrst þegar ég fór að flytja þetta inn til landsins þá voru bara til brjóstablómapottar og það fór strax mikið af þeim. Síðan komu rassapottarnir á markaðinn og þeir seljast gríðarlega vel.“

Spurð hvaða gerð blómapotta njóti mestra vinsælda segir Elín Bríta að þeir séu nú allir nokkuð vinsælir. „Fyrst þegar ég fór að flytja þetta inn til landsins þá voru bara til brjóstablómapottar og það fór strax mikið af þeim,“ segir hún. „Síðan komu rassapottarnir á markaðinn og þeir seljast gríðarlega vel. Mér finnst eins og það sé búið að vera aðeins meiri eftirspurn eftir þeim núna, mögulega af því að þeir eru nýrri. Þeir eru reyndar bara til í einum lit eins og er, restin er uppseld,“ segir hún en flýtir sér að bæta við að þó sé ástæðulaust að örvænta því von sé á öllum gerðum í nóvember. „Svo er helmingi stærri týpa á leiðinni, því blóm og plöntur stækka auðvitað og þá þarf maður stærri potta undir þær.“

Blómapottarnir eru úr vörulínunni Nude.

Og hver er stærsti viðskiptahópurinn? „Ungar konur, svona á aldursbilinu 25 til 35 ára, eru í miklum meirihluta. Þær kaupa yfirleitt blómapottana annað hvort fyrir sjálfa sig eða fyrir vinkonur sínar. Það er minna um að karlar kaupi þá,“ svarar Elín Bríta en tekur fram að það sé þó ekki af því að þeir séu eitthvað feimnari við það, hún hafi alls ekki orðið var við að blómapottarnir særi blygðunarkennd fólks.

„Nei þvert á móti, fólki virðist finnast þeir sniðugir og dæmi eru um að fólk sem hefur fengið í gjöf pott með stelpu í bol skili honum og taki frekar pott með berum brjóstum. Sumir koma meira segja aftur hingað í búðina og kaupa fleiri potta, eiga kannski fyrir brjóstapott og vilja bæta typpapotti við, til að eiga bæði „stelpu“ og „strák“. Enda taka pottarnir nú bara mið af mannslíkamanum sem er ekkert feimnismál í dag.“

„Sumir koma meira segja aftur hingað í búðina og kaupa fleiri potta, eiga kannski fyrir brjóstapott og vilja bæta typpapotti við, til að eiga bæði „stelpu“ og „strák“.“

Elín Bríta játar að það sé gaman að sjá hvað landsmenn séu spenntir fyrir pottunum. Hönnuðurinn Isaac Nichols sé sömuleiðis himinlifandi með góðar viðtökur. „Við erum búinn að vera reglulega í samskiptum og hann er svo ánægður með hvað þeir seljast vel á Íslandi,“ segir hún, „hann átti hreinlega ekki von á því.“

Vörulínan er hönnuð í keramíkstúdíóinu Group Partner í Brooklyn, í New York og framleidd í takmörkuðu upplagi.

Elín Bríta hvetur áhugasama til að kynna sér betur Nude blómapottana á Facebook-síðu verslunarinnar Lauuf og heimasíðu hennar, www.lauuf.com.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira