Elskar rými sem hönnuð eru af ástríðu

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Vala Kristín Eiríksdóttir útskrifaðist sem leikkona frá Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur svo sannarlega slegið í gegn. Hún fæddist í Bandaríkjunum en er alin upp í Garðabæ. Hún segir að henni líði þó mest eins og Reykvíkingi enda hefur hún búið í miðbænum síðast liðin átta ár. Vala sat fyrir svörum í 7.tbl. Húsa og híbýla. 

Hvaða hlut langar þig mest að eignast um þessar mundir?
Ég hef ekki fengið mér sjónvarp hingað til því það passar ekki inn í stofuna mína en það er til sjónvarp sem virkar eins og málverk að eigin vali þegar maður er ekki að nota það. Mig langar í svoleiðis.

Hvernig hönnun heillar þig?
Ég elska að sjá rými sem eru hönnuð af ástríðu, nánast sama hver stíllinn er. Allt frá skandinavískum minimalisma yfir í konunglegar vistarverur Grantham-fjölskyldunnar í Downton Abbey. En fyrir mitt heimili vil ég einhvers konar skipulagða óreiðu. Nýtt í bland við gamalt, vönduð hönnun í bland við heimatilbúið o.s.frv.

Hvaða form listar er í uppáhaldi hjá þér?
Leiklist og tónlist.

Hvað er skemmtilegast við starfið þitt?
Fólkið sem ég kynnist og hlutirnir sem ég læri af því. Í leikhúsi og sjónvarpi er stöðug velta á hópum sem eru með ólíkan bakgrunn og mismunandi þekkingu sem vinna öll að sama verki. Það er endalaust hægt að læra og undrast af hæfileikum og hugsjónum annarra.

Hvert er uppáhaldshlutverkið þitt til þessa?
Norma Ormars í Matthildi. Ég naut mín í botn að leika svona yfirgengilega manneskju sem efast aldrei í eina sekúndu um eigið ágæti.

Fallegasta bygging og/eða borg erlendis?
Ég elska San Francisco því hvað hún er marglit og öll í brekkum og tröppum.

Listamaður eða -kona sem þú heldur upp á?
Ég er nýbúin að lesa Orlando eftir Virginiu Woolf. Fyrsta bókin sem ég les eftir hana en hún vakti hjá mér mikinn áhuga á hennar hugarheimi.

Í hvaða rými í þínum húsakynnum líður þér best?
Í stofunni. Ég er með svefnsófa sem ég hef nánast aldrei fyrir að pakka saman. Geggjað að koma sér fyrir þar með bók eða tölvu og kaffibolla.

Skiptir útlitið máli?
Já. Ekki vegna þess að ytra byrði er verðmætt í sjálfu sér heldur vegna þess að það er oft til marks um virðinguna sem liggur að baki. Hvort sem um ræðir mann sjálfan eða heimili manns. Ef það er virðing og ást á bak við þá skín hún í gegnum hvaða yfirborð sem er.

Ertu með eitthvað lífsmottó?
Ég reyni að halda í æðruleysisbænina eins oft og ég man.

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira