Nýverið fórum við í heimsókn í fallegt Sigvaldahús í Hvassaleitinu. Þar býr Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir hönnuður ásamt manni sínum Jóni Trausta Kárasyni og þremur börnum. Fjölskyldan hefur búið í húsinu í eitt og hálft ár og unnið hörðum höndum að því að gera húsið að sínu.
Húsið sem er byggt árið 1963 hefur mikinn karakter. Skipulagið er skemmtilegt en húsið er á pöllum og rýmin skiptast upp með góðum hætti en á sama tíma þrengir hvergi að og útsýnið er gott í öllu rýminu.
„Ég elska hús frá þessum tíma og aðdáunarvert er hversu hæfileikaríkur Sigvaldi Thordarson var, ég er einnig mjög hrifin af því hversu opin rýmin eru á efri hæðinni,“ segir Ingibjörg spurð út í hvað hafi heillaði hana við eignina.
„Stíllinn á heimilinu blandast líka við arkitektúr hússins…“
Heimilið er í funkisstíl í bland við tekk og nútímahönnun. Hvert sem litið er má sjá fallega persónulega hluti innan um muni Ingibjargar en hún hannar undir nafninu IHANNA HOME.
„Stíllinn á heimilinu blandast líka við arkitektúr hússins og svo skemmtilega vill til að ég á marga erfðagripi sem eru frá þeim tíma sem húsið var byggt.“
Lestu viðtalið við Ingibjörgu Hönnu og sjáðu fleiri myndir í hátíðarblaði Húsa og híbýla. Nú eru síðustu forvöð að næla sér í eintak af hátíðarblaðinu, þessu síðasta tölublaði ársins 2020, en nýtt Hús og híbýli kemur út í næstu viku.
Umsjón / Bríet Ósk
Myndir / Hallur Karlsson