Hirti gamalt grindverk úr garði Vigdísar – „Þarna átti bara að henda ákveðnum hluta sögunnar“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Í dag opnar myndlistarmaðurinn Logi Bjarnason sýninguna Takk, Vigdís í galleríinu Midpunkt. Á sýningunni spilar grindverksbútur úr garði Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, stórt hlutverk.

Spurður út í verkin sem hann mun sýna í Midpunkt segir Logi: „Þetta verða bæði málverk og skúlptúrar, til dæmis viðarskúlptúrar sem ég sýni á tvívíðum fleti. Oft eru verkin mín sambland af málverki og skúlptúr.“ Þegar fólk spyr hann hvort verk hans séu skúlptúr eða málverk svarar hann yfirleitt: „Þetta eru bara listaverk“.

„Verkin mín eru svo oftast innblásin af náttúrunni og öldum. Það er einhvern veginn allt öldutengt hjá mér,“ segir Logi og tekur æðarnar í viðnum sem hann vinnur gjarnan með sem dæmi. „Það eru hálfgerðar öldur.“

Logi lýsir sér sem „tilraunakenndum“ þegar kemur að myndlistarsköpun. Mynd / Hallur Karlsson

Grindverkið í brennidepli

Logi segir eitt verk á sýningunni Takk, Vigdís vera eins konar „centerpiece“ eins og hann orðar það. „Það er grindverksbútur sem ég fékk frá vinkonu minni, henni Vigdísi Finnbogadóttur, hún gaf mér hann í sumar,“ segir Logi sem vann verk úr grindverkinu sem um ræðir.

Spurður nánar út í hvernig honum áskotnaðist grindverkið segir Logi: „Ég var að mála hjá henni glugga í sumar, ég er lærður húsamálari, og það var verið að henda þessu grindverki. Þetta er sama grindverkið og hún stóð við þegar hún veifaði þjóðinni sem nýkjörinn forseti í júní árið 1980. Þarna átti bara að henda ákveðnum hluta sögunnar.

„Það var þá sem ég ákvað að ég myndi gera listaverk úr þessum grindverksbúti.“

Ég spurði hana hvort ég mætti ekki eiga grindverkið og hún sagði: „Jú, að sjálfsögðu, Logi minn“. Það var þá sem ég ákvað að ég myndi gera listaverk úr þessum grindverksbúti. Ég vissi að ég vildi sýna það en þá var bara spurning um hvernig væri best að gera það,“ segir Logi.

Mynd / Hallur Karlsson

Hann segst vera mikill femínisti og segir umrætt verk hafa tengingu við tvær konur sem hann hefur litið mikið upp til. Það er Vigdís annars vegar og listakonan Gerður Helgadóttir hins vegar. „Gerður var mikill frumkvöðull og vann mikið með steint gler. Ég var mjög inspíreraður af hennar verkum og lét hreinsa grindverkið, málaði það og gerði það upp. Svo glerjaði ég inn í grindverkið í anda Gerðar,“ útskýrir Logi. „Og þetta verður alveg gríðarlega fallegt, að mínu mati,“ bætir hann við og hlær.

Mynd / Hallur Karlsson

Spurður út í titil sýningarinnar, Takk, Vigdís, segir Logi: „Mig langaði bara að sýna Vigdísi Finnbogadóttur þakklætisvott. Hún náttúrlega gaf mér grindverkið.“

Sýning Loga verður opnuð í dag, laugardaginn 5. september klukkan 15 og stendur til 27. september nk. í gallerí Midpunkt, Hamraborg 22 í Kópavogi.

Myndir / Hallur Karlsson

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

„Eins og ég sé að taka þessar tilfinningar og skilja þær eftir á rammanum“

„Þemað er þunglyndi, þetta eru frekar svört verk,“ segir myndlistarmaðurinn Kris Helga um verkin sem hán sýnir á sýningunni Hugarmyrkur sem opnar á laugardaginn...