Jólablómið hýasinta

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hýasintur hafa lengi notið vinsælda sem jólablóm sem hægt er að útfæra til skreytinga á ýmsa vegu. Nafnið hýasinta á uppruna sinn að rekja í gríska goðafræði. Ungur og fallegur drengur að nafni Hyasintos lést þegar hann varð fyrir kringlu guðsins Appollo þegar þeir léku saman kringlukast. Upp af blóði drengins uxu liljur sem síðan hafa verið við hann kenndar, en hýasintur hafa einnig verið kallaðar goðaliljur.

Laukana er nokkuð auðvelt að meðhöndla en bæði er hægt að hafa þá hálfa í mold eða hreinsa moldina af lauknum og láta hann liggja í volgu vatni. Til eru sérstakir glervasar ætlaðir hýasintum þar sem ræturnar sitja vel í vatni en athuga skal að halda vatninu aðeins upp að helmingi rótanna.

Ef notuð er mold er hún aðeins sett upp að hálfum lauknum. Ef vatn situr við laukinn sjálfan á hann á hættu að fúna. Koma skal lauknum fyrir á svölum og dimmum stað og gæta þess að ræturnar séu ávallt rakar.

Eftir að blöðin ná fimm til sjö sentímetra hæð skal flytja vasann á bjartari stað, við stofuhita. Ef setja á hýasintur í stærri ílát er gott að nota rakan mosa og þétta hann vel að lauknum.

Einnig er hægt að kaupa lauka og koma þeim til sjálfur en skemmtilegt er að fylgjast með þeim vakna til lífsins. Fyrst fara ræturnar að teygja sig niður, því næst kemur stilkurinn upp og að endingu blómið. Það þarf þó að forrækta laukinn í tæka tíð eigi hann að blómstra yfir hátíðarnar.

Hýasintulaukar hafa verið vinsælar til jólaskreytinga.

Hýasintan hefur fest sig í sessi sem jólaskreyting á mörgum heimilum. Þær fást í ýmsum litum eins og bláu, bleiku og hvítu og ekki skemmir fyrir hversu dásamlega þær ilma. Hægt er að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn og getur hver og einn útfært sína hýasintuskreytingu. Laukarnir fást í öllum helstu blómaverslunum.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Íslenskt fagtímarit um heimili og hönnun

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu 13 tölublöð á 1.538 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 2.430 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -