„Margt fólk upplifir verkin mín agressíf“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Listakonan Dýrfinna Benita Basalan sýnir bæði teikningar og málverk á sýningunni Náttúrlega brothætt / Natural Fragility í  Þulu listagalleríi. Dýrfinna gerir kvenlegri orku hátt undir höfði í þessum nýju verkum sínum en segir þau ekki höfða til allra. Sumir upplifa verkin hennar klámfengin og agressíf.

Í nýju verkunum eru alls kyns fígúrur áberandi og áhugaverðar litasamsetningar spila stórt hlutverk, innblásturinn kemur ýmist úr myndasögum, tarot-spilum, draumum og martröðum og hversdagsleikanum, að sögn Dýrfinnu.

„Þessar myndir eru svo eðlilegar fyrir mér en ég hef tekið eftir því að upplifun margra á verkum mínum er algjörlega gagnstæð við það sem ég upplifi, margt fólk upplifir verkin mín agressíf á vissan hátt,“ segir Dýrfinna.

Óhugnanlegar martraðir sem Dýrfinna hefur fengið er meðal þess sem veitti henni innblástur við gerð verkanna. Mynd / Hákon Davíð

Hún segir nektina hafa þar mikið að segja og að margir misskilji verkin. „Ég lít á nekt sem svo náttúrulegan hlut en sumt fólk sem skoðar verkin tekur fram að því þyki þau flott en að það myndi aldrei þora að hafa svona verk uppi á vegg heima hjá sér. Ein sagði: „Ég meika ekki að hafa píku uppi á vegg hjá mér,“ þannig að sumt fólk tengir þetta við eitthvað klámfengið. Annar sýningargestur sagðist vilja hafa verk eftir mig á skrifstofunni sinni en að hann vildi ekki vera „metoo-aður“. Ég útskýrði fyrir honum að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að þetta væri listaverk eftir konu og myndefnið er sterk og flott kona, að það væri ekkert ofbeldi í því. Það væri í raun bara mjög femínskt að hengja svona verk upp á skrifstofunni,“ segir Dýrfinna. Hún segir ljóst að að margir misskilji hvað meetoo-byltingin snýst um og því sé nauðsynlegt að halda umræðunni á lofti áfram.

Leyfir því kvenlega að njóta sín

Dýrfinna fór í mikla sjálfsskoðun við gerð verkanna. „Það fylgi kannski þessu COVID-ástandi, fólk neyðist til að líta inn á við og skoða hvað það er sem er raunverulega mikilvægt því daglegt líf hefur gjörbreyst,“ segir Dýrfinna sem vann úr ákveðnum tilfinningum þegar hún vann verkin. Þá eru femínskar pælingar henni ofarlega í huga.

„…ég hef oft verið kölluð svona nöfnum, eitthvað sem flestar konur sem eru með skoðanir og vita hvað þær vilja þekkja.“

Eins og áður sagði veita draumar, martraðir og tarot-spil henni innblástur í listsköpuninni. „Ég kann sjálf ekki að lesa í tarot-spil en ég á vini sem eru mikið í þessu. Það er eitthvað við spákonur og nornir sem heillar mig. Ég hef alltaf verið hrifin af hugmyndinni um nornir, sterkar konur sem hafa í gegnum söguna verið álitnar ógn við samfélagið og kallaðar klikkaðar og hysterískar. Ég tengi við þetta, ég hef oft verið kölluð svona nöfnum, eitthvað sem flestar konur sem eru með skoðanir og vita hvað þær vilja þekkja. Konur sem eru óhræddar við að berjast fyrir því sem þær vilja.“

Hún segir nýjustu verk sín vera sína túlkun á því hvernig hún upplifir það að vera kona í nútímasamfélagi.

Dýrfinna tók meðvitaða ákvörðun um að ýta undir sýnileika kvenlegrar orku í verkunum sínum. Mynd / Hákon Davíð

„Hugmyndin var í rauninni bara að sleppa tökunum og viðurkenna kvenleikann. Þegar ég ólst upp og var að læra myndlist upplifði ég að það væri litið niður á svokallaða kvenlega list og tilfinningar. Í verkum mínum segi ég að það sé fáránleg hugmynd. Kynjamisrétti hefur lengi haft áhrif á listsköpun kvenna, við getum tekið dæmi um kvenkynsrithöfunda sem gefa út bækur undir karlanöfnum til að fá meiri viðurkenningu.

„Það er vont ef listamenn þurfa að fela og skammast sín fyrir þetta kvenlega í sínum verkum.“

Þegar ég var að byrja að læra myndlist og pæla í list fyrir alvöru, tók ég eftir að þegar strákarnir í kringum mig töluðu um kvenkynslistamenn voru það yfirleitt konur sem gerðu list sem var álitin karlmannleg. Þannig að áður fyrr hræddi það mig að leyfa þessu kvenlega að njóta sín í verkunum mínum.

Það er vont ef listamenn þurfa að fela og skammast sín fyrir þetta kvenlega í sínum verkum. Þegar maður elst upp í samfélagi sem þetta tíðkast er auðvelt að fara ósjálfrátt að líta niður á sjálfa sig sem konu,“ segir Dýrfinna sem hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að fagna kvenlegu orkunni í verkunum sínum og ýta undir sýnileika hennar.

Sýning Dýrfinnu, Náttúrlega brothætt / Natural Fragility í Þulu, stendur til 8. nóvember. Mynd / Hákon Davíð

Annars segist Dýrfinna eiga erfitt með að skilgreina sig, bæði sem listamann og sem einstakling. „Manneskjur eru svo marglaga. Stundum er ég mjög kvenleg og stundum er ég það sem þykir karlmannleg, stundum er ég hvorugt og það er bara allt í lagi,“ útskýrir Dýrfinna.

Dýrfinna gerir fjölbreytt verk og vinnur líka í tónlist og gjörninga, hún vill ekki einskorða sig við eina stefnu eða einn miðil. „Mér leiðist mjög auðveldlega og þá er gott að hafa fjölbreytileika,“ segir hún og hlær.

Pólitík og pönk

Femínismi er eitt af umfjöllunarefnum Dýrfinnu á sýningunni í Þulu en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún tekur fyrir í verkum sínum flókin málefni sem eru henni hugleikin.

„Allt sem ég geri er í sjálfu sér pólitískt og mikið pönk. Ég hef sem dæmi fjallað um málefni filippeyskra innflytjenda með listahópnum Lucky 3,“ segir Dýrfinna en hún stofnaði þann hóp með þeim Darren Mark og Melanie Ubaldo. Þríeykið á það sameiginlegt að vera íslenskir listamenn af filippseyskum uppruna.

„Við höfum það að markmiði að vekja athygli á ójafnrétti og hvernig ákveðinn hópur fær sjaldnar að segja sína sögu innan íslensku listasenunnar. Ég, Darren og Melanie eru öll af filippseyskum uppruna en upplifun okkar allra er gjörólík, ég fæddist á Íslandi, Melanie flutti hingað sem unglingur og Darren kom hingað til lands þegar hann var um átta ára. Við erum ólíkir listamenn en við höfum þessa tengingu, að eiga rætur að rekja til Filippseyja og vilja vekja athygli á stöðu listamanna sem eru af erlendu bergi brotnir á Íslandi, og stöðu innflytjenda almennt.“

„Núna er kominn tími til að ýta undir fjölbreytnina og leyfa fleirum að segja sína sögu.“

Hún segir listasenuna á Íslandi hafa verið einsleita í langan tíma og að það sé þeirra markmið að breyta því og vekja athygli á að íslenskir listamenn eru fjölbreyttir. „Við viljum segja: „við erum líka hérna“ og hvetja aðra til að stíga fram.“

Mynd / Hákon Davíð

Hún segir rauða þráðinn í sinni listsköpun vera að vekja athygli á jaðarsettum hópum innan listaheimsins. „Núna er kominn tími til að ýta undir fjölbreytnina og leyfa fleirum að segja sína sögu.“

Hún segir myndlist spila stórt hlutverk í því að skrá sögu mannkynsins. „Ég er að segja mína sögu með myndlistinni minni og það er það sem listamenn gera, þeir segja sögur og túlka þann raunveruleika sem þeir upplifa. Þetta eru mikilvægar upplýsingar, bæði fyrir listamanninn sjálfan og samfélagið allt,“ segir Dýrfinna. Hún segir almenning geta dregið mikinn lærdóm af myndlist. „Myndlistin hefur meðal annars það hlutverk að vekja fólk til umhugsunar þá er mikilvægt að listasenan endurspegli hversu fjölbreytt mannkynið er. Það væri mjög leiðinlegt fyrir listunnendur að fá aldrei að sjá nema pínulítið og einsleitt brot af því sem er gerast innan listasenunnar, þá mun lítil framför eiga sér stað.“

Sýning Dýrfinnu, Náttúrlega brothætt / Natural Fragility í Þulu, stendur til 8. nóvember. Þula gallerí er á Hjartatorgi, gengið inn frá Laugavegi.

Myndir / Hákon Davíð

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Ólafía Hrönn leikur Skugga-Svein

Leikfélag Akureyrar, í samstarfi við Þjóðleikhúsið, setur gamanleikinn Skugga-Svein eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson á svið Samkomuhússins haustið...