Snerta á dekkri hliðum tilverunnar og hrista upp í tilfinningalífi áhorfandans

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Um síðustu helgi var opnuð sýningin UNDIRNIÐRI í Norræna húsinu, þar sýna átta norrænir samtímalistamenn verk sín. Verk sýningarinnar eiga það sameiginlegt að hrista upp í tilfinningalífi fólks og vekja það til umhugsunar um erfið mál.

„Á sýningunni er fjallað um jafnrétti, ástríður og sjálfsvitund og efnt til viðburða þar sem listafólki og álitsgjöfum býðst að ögra ríkjandi gildismati og hugmyndum í opinberri orðræðu á Norðurlöndum. Rauður þráður í viðfangsefnum listafólksins á sýningunni og verkum þeirra er gáskafull viðleitni til að kollvarpa hefðbundnum birtingarmyndum um kyn og kynhneigð. Aðferðafræði og efnistök þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni eru afar fjölbreytt, meðal annars sett fram í formi innsetninga, hreyfimynda og skúlptúra. Sýningin er bönnuð börnum innan sextán ára,“ segir meðal annars í lýsingu um sýninguna.

Mynd / Aðsend

Arnbjörg María Danielsen er sýningarstjóri. „Markmiðið er í sjálfu sér að skapa rými í Norræna húsinu þar sem þessi hópur listamanna fær að vinna með efnistök sem koma við óþægileg viðfangsefni, efni sem snerta á dekkri hlið mannlegrar tilveru,“ segir Arnbjörg um sýninguna.

Halda að allir listamenn frá Norðurlöndunum vinni þægileg verk

Hún segir fólk gjarnan búa yfir þeirri hugsun að Norðurlönd einkennist af kósí samfélögum og að í því samhengi eigi norrænir listamenn að vinna með þægileg efnistök og fagurfræði.

Mynd / Aðsend

„Hérna gefum við listamönnum rými sem hafa verið að vinna með hugmynda- og fagurfræði sem hristir svolítið upp í þessum hefðbundnum hugmyndum um hvað norrænn listamaður á að vera. Það sem er svo áhugavert er að margir af þessum listamönnum hafa búið í öðrum löndum um tíma, til dæmis Þýskalandi,“ segir Arnbjörg. Hún segir athyglisvert að velta því fyrir sér hvaða áhrif dvöl utan Norðurlandanna hafi haft á listsköpun þeirra.

Óþægileg málefni skoðuð

Hún segir sýninguna einkennast af hispursleysi og frelsi listamannanna sem leyfa sér að skoða undir yfirborðið og líta á dekkri hugarheima. „Það er margt fallegt á þessari sýningu en þau eru að ýfa upp flókin samfélagsleg mál og oft efni sem er óþægilegt að skoða,“ segir Arnbjörg. Hún bætir við að sterk fagurfræði sé í fyrirrúmi í öllum verkum sýningarinnar.

Hún segir sýninguna vera vettvang þar sem áhorfandanum er ögrað að vissu leyti og hann vakinn til umhugsunar. „Verkin fella ekki neinn dóm á málin sem fjallað er um eða hafa skýran boðskap en þau skapa umræðu og leyfa áhorfandanum að finna sínar eigin sögur inni í rýminu,“ útskýrir Arnbjörg.

„…sýning sem vekur fólk til umhugsunar.“

„Þetta er tvímælalaust sýning sem vekur fólk til umhugsunar,“ segir hún og tekur svo fram að hún mæli með að fólk taki sér góðan tíma í að skoða sýninguna. „Þetta eru verk sem þú villt kafa ofan í.“

Mynd / Aðsend

Boðið verður upp á ýmsa viðburði í tengslum við sýninguna UNDIRNIÐRI, svo sem viðtöl við listamenn, kvikmyndasýningar og umræður. Nánari upplýsingar um viðburðina má nálgast á vef Norræna hússins.

Þess má geta að sýningarsalurinn er stór og Arnbjörg segir það vera lítið mál að halda fjarlægð við aðra gesti vegna COVID. „Þetta er stórt og mikið pláss og auðvelt að halda fjarlægð við næsta mann. Allra varúðarráðstafana er gætt.“

Listamennirnir sem taka þátt eru:

Nathalie Djurberg & Hans Berg (SE) 
Lene Berg (NO)
Paarma Brandt (GL)
Adam Christensen (DK) 
Gabríela Friðriksdóttir (IS)
Emma Helle & Helena Sinervo (FI)
Maria Pasenau (NO)

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

„Margt fólk upplifir verkin mín agressíf“

Listakonan Dýrfinna Benita Basalan sýnir bæði teikningar og málverk á sýningunni Náttúrlega brothætt / Natural Fragility í  Þulu listagalleríi. Dýrfinna gerir kvenlegri orku hátt...

Kvenleg orka ræður ríkjum í verkum Dýrfinnu

Dýrfinna Benita Basalan opnar á morgun sýninguna Náttúrlega brothætt / Natural Fragility í  Þulu listagalleríi. Þar mun hún sýna bæði teikningar og málverk. „Þegar ég...