Úr fatahönnun í myndlist

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Íris Auður er fædd árið 1981 á brekkunni á Akureyri. Tvítug flutti hún til Spánar þar sem hún ætlaði að verða listmálari en plönin breyttust og skráði hún sig í fatahönnun við IED í Madrid, þaðan sem hún útskrifaðist. Eftir fjögur ár í Madrid flutti hún til Reykjavíkur en einnig er hún menntaður kennari og jógakennari. Síðastliðin tíu ár hefur myndlistin átt hug hennar allan og reynir hún að eyða öllum frístundum í að mála. Við fengum Írisi til að svara nokkrum spurningum auk þess sem hún gerði póstkortið sem fylgdi með 7. tölublaði þessa árs.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hvernig listamaður ertu? Ég veit hreinlega ekki hvernig listamaður ég er. Hef ekki enn sett mig í eitt mót. Ég held áfram að læra og þróast svo lengi sem ég held áfram. Það er það skemmtilega. Ég veit aldrei í hvaða átt verkin mín eiga eftir að þróast. Þó að það sé óneitanlega mikilvægt að selja verk, þá er ekki síður mikilvægt að þróast áfram sem listamaður. Ég nota listina til að losa um tilfinningar, búa til sögur í huganum og hverfa inn í eigin hugarheim. Ekkert annað fær mig til að finnast ég eins frjáls og þegar ég mála.

Hvernig er ferlið frá hugmynd að mynd? Ég mála alltaf við tónlist. Ég held ég hafi í raun aldrei málað í þögn hreinlega. Oft tekur tónlistin völdin. Ég set á lag og hugmyndirnar koma til mín. Ég er ekki vön að skissa áður en ég byrja. Ef ég ætla að mála fugl er ég búin að ákveða fuglinn út frá ljósmyndum. Hugmyndir að andlitsmyndum fæ ég mikið úr tískublöðum og ljósmyndum. Stundum nota ég lýsinguna frá ljósmyndinni, augun frá þessu módeli og nefið frá hinu eða mála beint eftir ljósmynd og breyti stemningu og bakgrunni.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hvernig myndirðu lýsa þínum listræna stíl? Ætli ég sé ekki enn flakkandi milli stíla, ég fer þangað sem listin leiðir mig. Undanfarið hef ég dansað á línu einhvers konar töfraraunsæis en tek kannski abstrakt verk á milli eða jafnvel hefðbundið vatnslitaverk.

Himbrimi í kjarri.

Hvaða litir og form heilla þig mest? Þegar ég er úti í náttúrunni, borginni, heima eða hvar sem er sé ég allt út frá litum og formum. Hef alltaf gert það. Stundum tek ég myndir til að varðveita lýsingu, litasamsetningar eða form. Þannig byrjaði ég til dæmis að setja inn fléttur og skófir inn á myndirnar mínar. Horfði niður á stein, fram hjá hinni augljósu fegurð og niður í litlu fallegu smáatriðin sem oft fara fram hjá manni.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hvaðan sækirðu innblástur? Innblásturinn kemur úr öllum áttum en þegar ég sest fyrir framan hvítt blað eða tóman striga veit ég yfirleitt ekkert hvað ég er að fara að mála. Fyrst þarf ég að kveikja á tónlist. Tónlistin stýrir mér, hún stjórnar tilfinningunni í myndunum, svipnum í andliti þess sem ég mála, litum og stemningu. Ég fór ábyggilega að mála konuandlitin vegna þeirra tilfinninga sem hægt er að ná fram með augnsvip einum saman. Það er markmið mitt að þær segi sögu með augunum einum saman. Það er svo túlkunaratriði hvað fólk sér. Þó að það sé algjör klisja, þá hefur íslensk náttúra mikil áhrif á mig. Fegurðin í mosa, lyngi, skógum og fjöllum læðist inn í myndirnar áður en ég veit af. Ég er með eina mynd í vinnustofunni sem byrjaði sem saklaus andlitsmynd af konu. Ég byrjaði að bæta við örlitlum gróðri og áður en ég vissi af var ekkert eftir af konunni nema augun, falin í mosahjúp.

Hvar fást verkin þín? Ég er svo heppin að hafa dásamlegt lítið „atelier“ við heimili mitt sem áður var bílskúr og við vinnum mikið þar bæði, ég og maðurinn minn. Þangað er hægt að kíkja við og skoða eftir samkomulagi. Mest af myndunum fara á Instagram-síðuna mína  www.instagram.com/irisillustrator/.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira