Áttu í erfiðleikum með að finna sér vinnu á daginn, fyrir utan klúbbana og kynlífsiðnaðinn

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eftir / Lindu Björg Árnadóttur

Snemma á níunda áratug síðustu aldar varð til í New York undirmenning eða hreyfing sem kallaðist „Club Kids“ og er hún talin vera síðasta „analog“-undirmenningin. Þetta var hópur af ungu fólki sem saman varð afl sem ögraði og braut allar hugmyndir þess tíma varðandi tísku, tónlist, kyngervi, poppmenningu og miðlun. Í dag eru raktar til þeirra hugmyndir eins og „gender fluidity“ og „raunveruleikasjónvarp“ sem síðan hafa orðið almennar.
Eini gjaldmiðillinn í þessum hópi var frumleiki og sköpun. Hefðir voru óvinurinn. Krakkarnir í „Club Kids“ voru byltingarsinnar sem breyttu poppmenningunni varanlega og stanslaust fundu upp á nýjum villtum gervum og stílum. Þau urðu hreyfing sem hafði áhrif á menningu út um allan heim.

Í gegnum tuttugustu öldina hefur New York verið heimili mismunandi menningarsena nánast hvern áratug. Frá hinum villta þriðja áratug Harlem-endurreisnarinnar og abstraktmálaranna á Cedar Tavern til Beat-skáldanna og Andy Warhol og verksmiðjunnar hans.

„Club Kids“ urðu þekkt fyrir sín villtu „DIY“-gervi. Þau fengu borgað fyrir að klæða sig upp og mæta í klúbba, einkasamkvæmi og í sjónvarpsþætti í þessum búningum. Gervin þeirra voru notuð einu sinni eða tvisvar, svo var þeim hent og allt skapað upp á nýtt.

„When the Club Kids came along, we brought this idea that our identity was enough; we didn´t have to do anything else.“ Waltpaper (Walt Cassidy).

Fötin sem þau klæddust voru m.a. með margar tilvísanir í barnæskuna, þau voru í náttfötum, samfestingum, gamaldags sundfötum, með hvít trúðsandlit og með leikföng og nestisbox. Þessu var svo blandað við leður og gadda og mjög þykkbotna „platform“-skó sem varð þeirra einkenni. Þau skildu mátt fjölmiðla og notuðu þá til þess að miðla sinni sýn og boðskap til almennings. Rannsókn á kyngervi skipaði stóran sess í næturlífinu og hjá „Club Kids“ á þessum tíma en margir sem tilheyrðu LGBT+ áttu í erfiðleikum með að finna sér vinnu á daginn, fyrir utan klúbbana og kynlífsiðnaðinn ásamt því að eiga í erfiðleikum með að finna sér húsnæði til að búa í. Stórir klúbbar eins og „Limelight“ voru allsráðandi og virkuðu eins og verndarsvæði fyrir „Club Kids“-krakkana og aðra listamenn sem unnu á nóttinni. Það var einfaldlega lífshættulegt á þessum tíma að vera transkona á götunni á daginn.

„Club Kids“ voru stanslaust í blöðunum og í sjónvarpi og var eins og lífi þeirra væri varpað beint með hinum ýmsum miðlum. Þau stóðu fyrir alls konar viðburðum í klúbbunum meðal annars kvöldi sem kallaðist „Night of 100 parties“ þar sem fólk keppti í að fara í drag-gervi á skömmum tíma. Þessi hugmynd þróaðist og varð seinna að „RuPaul´s Drag Race“ sem er einn vinsælasti raunveruleikaþáttur sem gerður hefur verið.
Nýlega gaf Walt Cassidy (Waltpaper), einn af forsprökkum „Club Kids“ út mjög fallega bók þar sem hann segir sögu þeirra sem honum hefur ekki fundist vera sögð með réttum hætti hingað til, þar á meðal í kvikmyndinni „Party Monster“ frá árinu 2003.

Árið 1994 var Rudi Giuliani kosinn borgarstjóri New York-borgar og byrjaði hann strax að loka öllum klúbbum og næturlífi í borginni undir formerkjum „Quality of Life“-herferðar sinnar. Hann vildi leggja áherslu á þróun fasteigna, sýnileika stórfyrirtækja og að losa borgina við lágtekjufólk. Hann vildi henda út öllu sem ekki samræmdist hans hugmyndum um menningu og losaði hann borgina á einhvern óskiljanlegan hátt við um 100 þúsund heimilislausa einstaklinga. Að lokum tókst honum að loka öllum klúbbum og þannig gera þúsundir manns, sem unnið höfðu í næturlífi borgarinnar, atvinnulaust. Þetta var oft fólk sem á þessum tíma hafði ekki marga möguleika í atvinnulífinu vegna kynhneigðar sinnar.
Í framhaldinu fór borgin í eins konar menningarlegt „kóma“.

Hægri armur vestræns samfélags hefur lengi átt í skipulegu stríði við listamenn. Þar er frægast þegar nasistar lokuðu hinum framsækna listaskóla Bauhaus árið 1933. Nemendur skólans flúðu Þýskaland, dreifðust um allan heim og hönnuðu nútímann eins og við þekkjum hann í dag.

Höfundur er dósent og doktorsnemi.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Jafnrétti kynjanna er byggðamál

Eftir / Ölfu JóhannsdótturLengi hefur verið bent á versnandi stöðu kvenna í dreifbýli, bæði í greinargerðum Byggðastofnunar...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -