Hvernig hugsar þú um tvo bestu vini þína?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eftir / Þorbjörgu Hafsteinsdóttur

Ég hef áhuga á samskiptum af öllum tegundum og gerðum. Samskiptum manna á milli og ekki minnst samskiptum í líkamanum á milli matar og frumna líkamans, milli hugsana og tilfinninga, milli hjarta og skynfæra.

Ég styð heildræna sýn og tel að allt sem við gerum tengist og skapi heild. Tengingin er samskiptin sem eiga upptök sín í orsök og afleiðingu. Allt í okkur og kringum okkur er hluti af þessari breytilegu heild.

Ef þetta er orðið óþarflega flókið hjá mér eru hér nokkur dæmi til útskýringar.
Þig langar að hreyfa þig meira og markmiðið er 1 km ganga á 15 mínútum. Þú trúir hins vegar ekki að þú getir það. Þú miðlar þessari fullyrðingu svo vel til heilans að afleiðingin verður sú að þú reynir ekki einu sinni að sannreyna hana með því að fara í gönguna. Það hefur viðtækari afleiðingar því það er hollt að hreyfa sig og þú rænir sjálfa þig þeirri heilsubót sem fylgir hreyfingu.

Þú ert hrifin af t.d. ís, kexi og brauði og borðar það oft. Ekkert af þessu inniheldur næringu, heldur þvert á móti myndar það „rugl“ í frumum sem orsakar alls konar heilsuvandamál þar á meðal þreytu, bólgur og ofþyngd. Sem í framhaldinu hefur áhrif á lífsgæði og vellíðan.

Þú stundar köld sjóboð og finnur hvað það gerir þér gott. Kuldinn örvar brúnu fituna í líkamanum sem brennir hvítu (maga) fitunni, örvar boðefni í heilanum sem framkalla gleði og jákvæðar tilfinningar og vinnur á bólgum.

Þess vegna borgar það sig að hugsa sig tvisvar um og ákveða hvers konar samtal þú ætlar að eiga við sjálfa þig. Ruglingslegt og óskýrt eða fallegt og skýrt svo að enginn misskilningur geti átt sér stað. Líkami þinn og hugur eru tveir bestu vinir þínir og ef þú gætir þess að hlusta og „tala“ með virðingu og umhyggju færðu stórkostleg verðlaun. Og það besta er, að það er undir þinni stjórn komið.

Þú getur styrkt ónæmiskerfi þitt með meðal annars spínati, káli, mjólkursýrðu grænmeti, feitum fiski, D-vítamíni og sinki.
Þú getur létt þig á lágkolvetna- eða hreinu ketómataræði.
Þú getur athugað hvort verkir og bólga í liðum minnki á sykur- og glútenlausu fæði og reglulegum göngum.

Góð og holl næring er grunnur lífsorku þinnar. Líkaminn notar mat til að búa til orku. Hann þarf grænmeti, ávexti, fitusýrur, amínósýrur, plöntuefni, vítamín, steinefni og snefilefni. Og hann nærist líka á bjartsýni, gleði og léttleika lífsins. Áður var þörf, núna er nauðsyn. Tölum fallega við líkama okkar. Við eigum bara þennan eina og hann á að endast vel alla ævi!

Höfundur er næringarþerapisti, lífsráðgjafi og rithöfundur. Nánar á Ketoflex.is og Facebook.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Tölum um unglinga

Höfundur / Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Samskiptastöðinni.  Já, flest höfum við verið þar, sumir...