Hvernig má búa sér til góða vinnuaðstöðu heima?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eftir / Ásgerði Guðmundsdóttur

Þar sem þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins stendur nú yfir hefur sóttvarnalæknir komið með þau tilmæli að sem flestir vinni heima ef unnt er.
Í ljósi þessa hafa landsmenn komið sér upp misgóðri vinnuaðstöðu.

Langflestir setjast fyrir framan fartölvuna án þess að velta fyrir sér hvernig líkamsstaðan er, því síður hvort skjárinn sé í réttri hæð eða hvort stóllinn veiti þann stuðning sem maður þarfnast. Eftir örfáa daga vaknar fólk upp við vondan draum og furðar sig svo á því af hverju það sé hreinlega að farast úr verkjum.

Eftir að fólk fór að vinna meira heima hafa bæði líkamleg og andleg einkenni komið fram. Og þá helst vegna slæmra vinnustellinga, einhæfra hreyfinga og andlegs álags þar sem samræma þarf vinnu og heimilishald. Fólk kvartar undan alls kyns einkennum og verkjum sem það hefur ekki endilega fundið til áður og gamlir verkir vakna jafnvel úr dvala eins og sinaskeiðabólga, tennisolnbogi, frosin öxl, spennuhöfuðverkur, mjóbakseymsl og fótaóeirð svo dæmi séu nefnd.

Nú eru góð ráð dýr. Hvað er hægt að gera til að draga úr stoðkerfisverkjum sem þessum? Jú, lykillinn er rétt líkamsbeiting. Mikilvægt er að maður sitji rétt við borðið, þannig að olnbogar séu fyrir ofan borðbrún. Gott er að vera með fótskemil eða skókassa og púða ofan á til að koma í veg fyrir að maður krossleggi fætur. Standa þarf upp að minnsta kosti einu sinni á klukkustundarfresti og teygja úr sér. Það má einnig finna sér aðstöðu til að standa inn á milli. Hillusamstæður koma sterkar inn og jafnvel strauborðið sem hægt er að stilla í hæð þannig að hægt sé að vinna við fartölvuna með góðu móti.

Ég er sjúkraþjálfari og eigandi fyrirtækisins Vinnuheilsa ehf. og hef sérhæft mig í að leiðbeina starfsfólki í að tileinka sér rétta líkamsbeitingu og líkamsvitund í gegnum fræðsluerindi á Teams eða Zoom um þessar mundir. Markmiðið er að stuðla að aukinni vellíðan við vinnu. Mannauðsstjórum víðs vegar um landið er mjög umhugað um starfsfólk sitt vegna þriðju bylgjunnar sem herjar á okkur um þessar mundir og hafa verið að skrá fólkið sitt á Teams-fundi í samvinnu við Vinnuheilsu, með mjög góðri endurgjöf. Þannig getur hver og einn lært að breyta starfsstöð sinni á réttan hátt og fengið ráðgjöf um hvernig megi draga úr stoðkerfisverkjum þannig að honum líði sem best við iðju sína.

Höfundur er sjúkraþjálfari og framkvæmdastjóri Vinnuheilsu og félagi í FKA.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Ágreiningur í samböndum er eðlilegur

Höfundur / Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá SamskiptastöðinniÁgreiningur í samböndum er eðlilegur og náttúrulegur partur...