Kokkurinn rannsakar skipstjórann

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Það er ótrúleg þöggun í gangi varðandi óhugnaðinn á Landakoti. Alls hafa 12 manns látið lífið og tugir manna veikst vegna veirunnar sem þar geysaði um stofur og ganga og barst þaðan á önnur hjúkrunarheimili. Þessi andlát voru ótímabær og þurftu ekki að verða ef fólk hefði lesið ástandið rétt og gætt að sóttvörnun innan spítalans. Sá furðugjörningur var uppi að Már Kristjánsson, undirmaður forstjóra spítalans, fékk það hlutverk að rannsaka atvikin á Landakoti. Lagt var upp með það að ekki stæði til að kenna neinum um eða hengja einhvern í hæsta gálga. Það er eðlilegt sjónarmið að gæta allrar varúðar í rannsókninni en eins óeðlilegt og hugsast getur að fela starfsliði spítalans að rannsaka sjálft sig.

Allt ætlaði um koll að keyra eftir Kastljós Sjónvarpsins í gær. Helga Vala Helgadóttir, alþingismaður Samfylkingar, er ein þeirra sem vegur að heiðri Einars Þorsteinssonar fréttmanns í Kastljósi og efnir til óvinafagnaðar gegn honum. Einar gerði aðeins það sem góðum fréttamanni ber. Hann endurtók spurningar þegar hann fékk ekki svör. Hann stóð sig með sóma í því að varpa ljósi á mál sem ber öll einkenni yfirklórs og þöggunar. Þingmaðurinn ætti að láta ógert að vega að fréttamanninum. Það ber vott um lítilmennsku þess sem ætlar að stökkva á vinsældavagn hræsninnar, vekja upp nettröll, og hengja boðbera hinna válegu tíðinda. Helga Vala hefði gert betur í því að taka málið upp í þingnefnd og rannsaka þaðan hvað það var sem kostaði þessar mannfórnir. Skömm hennar er mikil og henni augljóslega illa treystandi til að veita aðhald í samfélaginu.

Yfirvöld Landspítalans halda því fram að ótímabær andlát 12 varnarlausra einstaklinga séu engum sérstökum að kennar. Húsakostur var óhentugur og undirmönnun kom í veg fyrir að spítalanum væri skipt niður í sóttvarnahólf sem þó var gert í fyrri Covid-bylgjunni. En enginn ber ábyrgð. Þau svör eru óviðunandi. Að minnsta kosti ber yfirstjórn spítalans ábyrgð á mannahaldi og húsakosti. Hina hápólítisku ábyrgð Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Það er hennar að krefja undirmenn sína um fullnægjandi svör og stuðla að því að ekkert sé dregið undan.

Nettröllin sem nú riðlast á æru Einars Þorsteinssonar halda því fram að spurningar um atburðinn á Landakoti sé aðför að starfsfólki. Þau enduróma þannig málflutning yfirvalda spítalans sem hamra á því að starfslið Landakots sé gott fólk. Það er eflaust hárrétt. Sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, læknar og allir hinir starfsmennirnir á gólfinu eiga heiður skilinn fyrir framgöngu sína. Það er ekki þeim að kenna að svo óhöndulega tókst til að vinnustaðurinn lenti uppi á skeri dauðans með þessum skelfilegu afleiðingum. Það er ekki þeim að kenna að húsið er óboðlegt fyrir sjúklinga sem eru margir ósjálfbjarga.

Allar upplýstar þjóðir eru með ákveðið kerfi til að vinna eftir þegar slys og óvæntir atburðir gerast. Ef flugvél ferst er málið rannsakað til hlítar. Það þykir eðlilegt að allt sé uppi á borðum. Ef flugstjórinn bregst þá er kallað eftir ábyrgð hans. Ef flugvirki hafði brugðist í starfi sínu sætir hann ábyrgð. Ef eigandinn hafði vanrækt viðhald eða stuðlað að slysinu þá svarar hann til ábyrgðar.

Þegar skip sekkur, strandar eða lendir í ógöngum sem stofna lífi og limum áhafnar í hættu rannsaka óháðir aðilar hvað það var sem fór úrskeiðis og hvers vegna. Fyrir fram er ekkert er enginn sekur eða saklaus. Það er einfaldlega verið að leita skýringa til að læra af atvikum. Enginn er sekur fyrr en sök sannast. Atvikin um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS urðu tilefni til að lögregla eða óháðir aðilar rannsaka hvað varð til þess að haldið var sjó með stóran hluta áhafnar veikan af Covid. Engum datt í hug að láta kokkinn rannsaka gjörðir skipstjórans.

Lykilatriði er að utanaðkomandi aðilar fari ofan í málin og birti sína niðurstöðu þegar hún liggur fyrir. Landspítalinn fór þá leið að láta kokkinn rannsaka skipstjórann. Undirmaður Páls Matthíasssonar forstjóra semur skýrslu sem felur i sér hvítþvott fyrir alla, frá ráðherra og niður úr. Samt er skýrslan kolsvört og undirstrikar fjölmörg atriði sem urðu saklausu fólki að bana. Skýrsluhöfundur stofnaði til stundar sannleikans og hélt blaðamannafund þar sem áréttað var að engum manni sé um að kenna. Og það biðst enginn fyrirgefningar þótt öllum þyki leitt hvernig fór. Fólk lætur eins og það sem gerðist á Landakoti sé náttúrulögmál.

Mynd / Hákon Davíð

Landakotsmálið er þannig vaxið að það má ekki þegja það í hel. Þarna fóru of mörg mannslíf og of margir veiktust. Virðingarleysi við minningu hinna látnu og aðstandendur þeirra er ekki fólki sæmandi. Krafan er einfaldlega sú að hlutlaus rannsókn fari fram á öllu málinu. Ef þeir aðilar komast að því að enginn mannlegur máttur hefði getað komið í veg fyrir dauðsföllin og veikindin þá ber að una því. Ef aftur á móti kemur á daginn að yfirstjórn spítalans brást þá er eðlilegt að kalla eftir þeirri ábyrgð. Sáralitlar líkur eru á þvi að almennt starfsfólk spítalans hafi haft eitthvað með smitin á Landakoti að gera. Viðkvæmni vegna þess er óþörf og má ekki standa í vegi fyrir fullnaðarrannsókn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira

Kærleikurinn strangi og mjúki

Leiðari úr 45 tölublaði Vikunnar.Fíknisjúkdómar leggja undir sig heilu fjölskyldurnar, sundra þeim og eyðileggja einstaklinga. Fíkniefnaneytandinn er...

Farsóttarþreyta og heimavinna

Höfundur / María Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi og sáttamiðlari hjá SamskiptastöðinniDaglegt líf fólks hefur tekið miklum breytingum vegna heimsfaraldurs...

Þú getur átt góða og ástríka stjúpfjölskyldu

Höfundur / Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Samskiptastöðinni.   Þið hafið bæði verið áður í samböndum og eigið...