Kölluð snákur af umtöluðum manni |

Kölluð snákur af umtöluðum manni

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eftir / Lindu Björg Árnadóttur

Madeleine Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra með meiru, varð þekkt fyrir að nota barmnælur í störfum sínum með það að markmiði að miðla upplýsingum varðandi stöðu mála í pólítík en einnig til þess að skemmta sér og öðrum.

Þetta byrjaði þegar hún var fulltrúi BNA hjá Sameinuðu þjóðunum en varð síðan hennar einkenni sem hún notaði alla tíð, þar á meðal þegar hún var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Bill Clinton.

Á meðan hún var fulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum, átti hún nokkrum sinnum í snörpum orðaskiptum við Saddam Hussein á þeim tíma sem Írakar hertóku Kúveit. Í eitt skiptið kallaði hann Madeleine snák. Skömmu eftir það, sá hún í verslunarglugga snákanælu sem hún keypti og var með hana næst þegar hún hitti Saddam.

Þetta varð til þess að hún fór að kaupa alls konar nælur sem hún bar með það að markmiði að miðla með nælunni einhverri merkingu eða ekki, en margir reyndu að rýna í nælurnar til þess að fá hugsanlegar upplýsingar og draga ályktanir í hvert sinn sem hún vann að einhverri pólitískri deilu. Á góðum dögum bar hún nælur af blöðrum og blómum en á slæmum dögum var hún með alls konar pöddur eða rándýr. Hún minntist almennt ekki á nælurnar og útskýrði ekki hvort eitthvað og þá hvað byggi að baki.

Hún bar til dæmis nælu sem var smá „ör á lofti“ þegar Bandaríkin gerðu samninga við Rússa um kjarnavopn. Einn af mönnunum í samninganefnd Rússa spurði hana hvort örin sem hún bæri væri sýnishorn af eldflaugum BNA og hún svaraði því játandi. Að eldflaugar þeirra hefðu þróast mikið og væru orðnar agnarsmáar. Í svona samningaviðræðum var gagnlegt að nota húmor til þess að brjóta ísinn.

Nælurnar urðu margsinnis umtalsefni á fundum og blaðamenn biðu spenntir eftir að sjá hvaða nælu hún var með í hvert sinn og hvort þeir gætu ráðið eitthvað í stöðuna í heiminum út frá þeim eða hvernig hefði gengið á ákveðnum samningafundum.

Eitt sinni fór hún með Bill Clinton, þá forseta, til Rússlands á ráðstefnu. Hún bar nælu með öpunum þremur sem merkja heyrið ekkert slæmt/sjáið ekkert slæmt/segið ekkert slæmt. Ástæða þess að hún valdi þessa nælu þarna, var sú staðreynd að Rússarnir töluðu aldrei um það sem var raunverulega í gangi sem á þessum tíma var stríðið á milli þeirra og Téténíu. Pútín benti á næluna og spurði hvers vegna hún bæri hana við þetta tilefni og hún svaraði að það væri vegna stríðsins við Téténíu. Honum var ekki skemmt.

Nælurnar báru stundum skilaboð um hvert gengið væri í einhverjum málefnum en oft hafði Madeleine einfaldlega bara gaman af þessari aðferð til þess að miðla upplýsingum eða að láta sem að hún væri að því með óræðum skilaboðum.

Nælurnar hennar Madeleine sem núna eru orðnar mörg hundruð hafa oftar en einu sinni verið sýndar almennningi, núna síðast í hinu fræga Smithsonian-safni.

Þær verða þekktar um ókomna tíma og eru skemmtileg og áhugaverð saga um hvernig hægt er að gera hluti innihaldsríkari, en þetta var góð aðferð til þess að vefja skartgripi og duldar meiningar inn í stjórnmál, skemmta sér og öðrum, búa sér til áhugamál og safna fallegum hlutum. Það má segja að þarna megi sjá á einfaldan og augljósan hátt hvernig tíska er miðill upplýsinga á milli manna.

Höfundur er dósent og doktorsnemi.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira